Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:06:36 (5416)

1997-04-18 12:06:36# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:06]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. Það kom fram að ekki er búið að hugsa til enda hvað eigi að gera við gamla fólkið. Það er e.t.v. á sama forgangslista og þetta mál sem hér er verið að ræða um. Samt sem áður skulum við hafa í huga hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þeim efnum. Hún ætlaði að hækka bætur úr almannatryggingum um 2%, hún ætlaði ekkert að hreyfa það á þessu ári. Það er þó alla vega búið að knýja fram að hún hækki almannatryggingar a.m.k. um 5%. Skynsamlegra væri að miða við 7--8% sem er eðlilegri viðmiðun í kjölfar þessara samninga. Mér finnst ámælisvert að þetta hafi ekki komið hér fram.

Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir að þó svo að hér sé verið að tala um þetta frv. í tengslum við kjarasamninga þá er ekki nema hluti af vinnumarkaðinum sem á aðild að þessu vegna þess að allir opinberir starfsmenn eiga enn ósamið. Þeir hafa líka sínar skoðanir á skattamálum sem vafalítið koma bæði fram í umræðum hér og einnig í kjarasamningunum.

Opinber umsvif hér á landi eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Skatthlutfall hér er líka í heild tiltölulega lágt. Byrðunum er hins vegar misskipt. Þessi litlu opinberu umsvif koma fram m.a., herra forseti, í því að við búum nú orðið við slakt menntakerfi. Við búum við slakt heilbrigðiskerfi. Við búum við óöryggi gagnvart eldra fólki. Ég vil frekar, herra forseti, auka opinber umsvif á skynsamlegan hátt í þessu kerfi, í okkar samfélagi, heldur en að horfa upp á hvern mikilvæga þáttinn á fætur öðrum dragast aftur úr nágrannaþjóðunum. Það er einfaldlega mín lífsskoðun. Þetta frv. gerir í sjálfu sér hvorki eitt né neitt í þeim efnum, dregur frekar úr því. Þetta eru í sjálfu sér engar kerfisbreytingar en þær sýna samt sem áður skýrt að það eru að verða skil hér á milli fólks, í hvaða meginátt það vill ganga varðandi opinber umsvif.