Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:08:54 (5417)

1997-04-18 12:08:54# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að taka það fram að hv. þm. fer með rangt mál þegar hann segir að einungis hafi verið ætlunin að hækka bætur almannatryggingakerfisins um 2% sem gerðist um áramótin. Það var skýrt tekið fram þá, m.a. af mér, að við ætluðum að hækka um 2% þá þrátt fyrir það að engar launabreytingar ættu sér stað um áramótin og því var bætt við, mjög skilmerkilega, að þetta yrði endurskoðað í kjölfar kjarasamninganna og þá tæku bæturnar mið af því sem kæmi út úr þeim kjarasamningum. Þetta þarf að koma fram mjög skýrlega.

Í öðru lagi hygg ég að hv. þm. verði að viðurkenna að íslenska heilbrigðiskerfið stenst heilbrigðiskerfum nágrannalandanna snúning, þeirra landa sem við berum okkur saman við. Við Íslendingar eru heppnir núna, þetta er ung þjóð, það verður að taka tillit til þess í samanburðinum. En ég held að allir séu sammála um að íslenska heilbrigðiskerfið er á heimsmælikvarða, fyrst og fremst vegna þess að fólk sem vinnur í heilbrigðiskerfinu kann til verka og það er til fyrirmyndar hvernig að heilbrigðiskerfinu er staðið hér á landi. Og getum við meira að segja borið okkur saman við Norðmenn sem eru þó miklu efnaðri þjóð en við.

Loks vil ég gera að umtalsefni, þær sekúndur sem ég á eftir, athyglisverðar hugleiðingar hv. þm. þar sem hann benti réttilega á, að mínu viti, að það þyrfti að hugleiða hvort eðlilegt sé hve fáir greiða tekjuskatta hér á landi og hvort við eigum að líta á kerfið upp á nýtt. Ég er honum sammála að það eru hlutir sem við ættum að skoða rækilega næstu árin hvort við eigum að taka upp gjörbreytt kerfi og er honum sammála um að það getur verið lýðræðislega hættulegt þegar sífellt færri greiða skattinn og sífellt fleiri njóta ágóðans úr skattkerfinu. Það getur orðið til þess að skapa hugmyndir um að fólkið á miðjum aldri sem er með barnauppeldið, sem er að koma yfir sig húsi, sem er að borga námsskuldirnar o.s.frv., sé eina fólkið sem eigi að borga skatt í landinu. Að því leytinu til er ég sammála hugleiðingunum þó ég sé ekki alveg viss um að niðurstaðan af þeim yrði sú sama og hjá hv. þm.