Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:40:23 (5471)

1997-04-18 17:40:23# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:40]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er áhugasamur um að reyna að skilja meininguna í málflutningi hv. 2. þm. Suðurl. Satt að segja lagði ég mjög við hlustir þegar hann í ræðu sinni hér gagnrýndi að það skorti mjög á um valfrelsi. Af einhverjum ástæðum er ég ekki vanur því að heyra talsmenn landbúnaðarkerfisins tala um að það skorti mjög á um valfrelsi fólks og ég spyr: Hvernig er það, telur hv. þm. að meiri nauðsyn sé á því að launafólk njóti valfrelsis en aðrir? Og ef það má njóta valfrelsis, hvers vegna mega þá bændur, umbjóðendur hans, sunnlenskir bændur, vinir hans og aðdáendur, ekki njóta valfrelsis? Ég held að enginn hópur manna í þessu þjóðfélagi hafi verið kirfilegar sviptur með lögum, sérlögum og ólögum, öllu hugsanlegu valfrelsi og mega ekki um frjálst höfuð strjúka.

Ég spyr sérstaklega vegna þess að hv. þm. sagði líka að hann teldi nú satt að segja eðlilegt að þetta væri skylda, að það væri skylduaðild að lífeyrissjóðum. Þá er spurningin: Hvernig er hægt að skylda menn til þess að vera í lífeyrissjóðum og skylda menn til þátttöku í samábyrgð en krefjast jafnframt valfrelsis frá samábyrgðinni, því að um það snýst valfrelsið? Það er að víkja sér undan sameiginlegum skuldbindingum en ætlast samt til þess að menn njóti sömu skattalegu hlunnindanna engu að síður og þeir sem bera byrðarnar af samtryggingunni.