Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:27:52 (5486)

1997-04-18 18:27:52# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:27]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég verð að segja það að ekkert annað frv. sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram hér á Alþingi hefur valdið mér meiri vonbrigðum en þetta. Ég vildi svo sannarlega að sú hefði verið raunin eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kastaði hér á loft að hæstv. fjmrh. hefði verið að mæla fyrir frumvarpi eitt, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kallaði það, eða frumvarpsdrögunum sem upphaflega voru til umræðu. Það hefði verið ólíkt skemmtilegra að ræða það frv. hér á hv. Alþingi.

Þetta frv. fjallar um þrjú meginefnisatriði. Í fyrsta lagi um almennar reglur um starfsemi, eftirlit og skyldur lífeyrissjóða, almenna umgjörð eins og hæstv. fjmrh. kallaði það í framsöguræðu sinni og þetta eru í flestum tilfellum tæknileg atriði og nauðsynlegt að þau fái mjög vandaða umfjöllun í hv. efh.- og viðskn.

Hins vegar er um að ræða tvö grundvallaratriði, annars vegar um frelsi til þess að velja lífeyrissjóð en um það er fjallað í 2. gr. frv. og hins vegar um lágmarkssamtryggingu en í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að þar sé um að ræða 10% af heildarlaunum.

Í núgildandi löggjöf er gert ráð fyrir skyldu starfandi manna til þess að greiða í starfsgreinda lífeyrissjóði. 2. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir því að það sé skylt að greiða í lífeyrissjóð en hins vegar fari um aðild að lífeyrissjóðum eftir sérlögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Því miður sýnist mér að um harla litla breytingu sé að ræða frá því sem er í núgildandi lögum og því sem er í frv. Það markast að sjálfsögðu af afstöðu aðila vinnumarkaðarins en við þekkjum öll hvaða afskipti þeir aðilar hafa haft af þessu frv. Því er um harla litla von að ræða að þeir muni í kjarasamningunum semja um eitthvað annað heldur en að ríkjandi ástand muni áfram verða við lýði.

Þó að auðvitað megi hrósa þessum aðilum fyrir að hafa haft frumkvæði að því á sinni tíð að koma á þessu lífeyrissjóðakerfi, sem sagt hefur verið hér í dag að allar þjóðir öfundi okkur af, ég er ekki viss um að það sé rétt að allar þjóðir öfundi okkur af því en sennilega þær sem vita af kerfinu, sennilegast er að þær öfundi okkur. Ég er ekki viss um að það viti allir af þessu ágæta kerfi okkar. En þrátt fyrir að þeir eigi hrós skilið fyrir þetta frumkvæði þá þýðir það ekki að þeir hafi eitthvert einkaleyfi á því að hafa rétt fyrir sér í öllum málum er varða lífeyrissjóði, að þeir hafi eitthvert patent á þessu lífeyrissjóðakerfi og þess vegna þurfi það að vera óbreytt um aldur og ævi. Þess vegna teldi ég að það væri bráðnauðsynlegt að breyta þessari grein.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram í framsöguræðu sinni að hér væri um nokkra opnun að ræða, að nú væri ljóst að þeir aðilar sem stæðu utan kjarasamninga hefðu sjálfir val um það í hvaða lífeyrissjóði þeir greiddu. Þetta má að sumu leyti til sanns vegar færa, en mér sýnist að í því ákvæði sem fjallar um ráðningarsamningana sé þetta frjálsa val að einhverju eða jafnvel miklu leyti tekið til baka því að þá hefur vinnuveitandinn um það að segja gagnvart þeim sem hann gerir sérstakan ráðningarsamning við í hvaða lífeyrissjóð hann greiðir.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að þetta ákvæði um ráðningarsamningana sé komið inn í frv. að frumkvæði Framsfl. og að því sé sérstaklega ætlað að gæta hagsmuna lífeyrissjóða gamla sambandsins. Ég trúi því ekki, alla vega ekki fyrr en ég tek á, að þeir hv. þingmenn, sem nokkrum dögum eftir að ég flutti hér þáltill. um valfrelsi í lífeyrismálum ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni fluttu frv. um sama efni, standi að tillögu eins og þessari. Því geri ég ráð fyrir að það muni vera auðvelt verk fyrir þá sem það vilja í hv. efh.- og viðskn. að taka þetta atriði út úr frv.

Eins og ég hef áður nefnt þá tel ég að það eigi að ríkja valfrelsi í lífeyrissjóðsmálum, þeir sem greiða í sjóðina eigi að hafa frelsi til þess að velja sér lífeyrissjóð, það eigi að vera skylda að greiða í lífeyrissjóð en launamenn eins og þeir heita í þessu frv. eigi að hafa rétt á að velja um sjóð. Ástæðan er sú að það er einfaldlega í fyrsta lagi ónauðsynlegt að varna mönnum þess að velja í þessu efni. Það er í öðru lagi skaðlegt vegna þess að það leiðir til skorts á samkeppni í þessum geira. Þess vegna verða lífeyrissjóðirnir of litlir, það verður of mikill kostnaður af rekstri þeirra og vegna skorts á samkeppni verður ávöxtunin minni heldur en ella hefði verið. Það má öllum vera ljóst sem hlustuðu á ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann lýsti því hvaða áhrif það hefði að hækka ávöxtunina úr 2,5% í 5,5%, þá mundu greiðslur úr sjóðunum tvöfaldast. Svo miklu máli skiptir hver ávöxtunin er.

Í þessari umræðu hefur nokkrum sinnum verið minnst á Alþjóðabankann og það hvernig hann skilgreinir æskilegasta lífeyriskerfið, hið svokallaða þriggja stoða kerfi. Ég þarf ekki að eyða löngum tíma í að lýsa því kerfi, það hefur verið gert áður hér í dag, en það er jafnframt skoðun Alþjóðabankans og kemur fram í þeim plöggum þar sem um þetta þriggja stoða kerfi er fjallað að í þeim tveimur hlutum sem annars vegar eiga að vera inni í lífeyrissjóðum og hins vegar í frjálsum einkasparnaði þurfi að ríkja samkeppni. Þess vegna held ég að við getum ekki horft fram hjá því sem Alþjóðabankinn segir í þessu efni, að samkeppnin er til góðs fyrir þá sem eiga að njóta lífeyrissjóðanna og til þess að um samkeppni geti verið að ræða þarf að vera valfrelsi.

Hitt grundvallaratriðið sem ég nefndi áðan er samtryggingin. Hversu mikil á samtryggingin að vera? Það má auðvitað deila um það endalaust, en ég held að það megi öllum vera ljóst að það eigum við ekki að mæla í prósentum. Við hljótum að mæla hana í föstum tölum, ákveðnum upphæðum, því að væntanlega ætlumst við til að samtryggingin verði sú sama hjá öllum sem greiða í lífeyrissjóðina. Þess vegna held ég að það frv. sem aldrei var lagt fram, þar sem gert var ráð fyrir fastri upphæð sem væri í samtryggingu og að um það sem væri umfram 10% væri valfrelsi, sem hefði verið miklu betra frv., hefði leitt til meiri samkeppni en jafnframt tryggt þá lágmarkssamtryggingu sem nauðsynleg er.

En samtrygginguna er hægt að fá í gegnum annað en sameignarsjóðina. Hana er hægt að fá hjá tryggingafélögum og ef samtryggingin er skilgreind og það er skilgreint hvað tryggingafélögin bjóða upp á, þá er mjög auðvelt að leysa þann vanda sem þeir sem greiða í séreignarsjóði í dag stæðu frammi fyrir ef frv. yrði að lögum á þann hátt að lágmarkssamtrygging yrði skilgreind. Séreignarsjóðirnir eða þeir aðilar sem greiða í séreignarsjóðina gætu annaðhvort keypt sér trygginguna hjá tryggingafélögum sem sjóðir eða sem einstaklingar eða þá að einstaklingarnir gætu greitt í sameignarsjóði.

En hver er hún svo þessi samtrygging sem við höfum verið að tala um og lögð er svona gífurleg áhersla á að sé nauðsynleg og samtryggingarsjóðirnir veiti? Er hún svona gríðarlega mikil? Hjálpar hún okkur svona gríðarlega mikið ef illa stendur á? Ég held að í sumum tilfellum sé hún ofmetin og miðað við það sem ég hef séð af hóptryggingum, þar sem reynt er að fá sams konar tryggingu gegnum hóptryggingar, eigi það að vera mjög auðvelt og eigi ekki að þurfa að kosta nema eitthvað í kringum eða jafnvel innan við 10 þús. kr. á mánuði. Þess vegna held ég að hér sé ekki um hið stóra vandamál að ræða sem þeir sem eru harðastir í samtryggingarkröfunni hafa gert að umtalsefni.

Ég fagna því auðvitað sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að það væri sjálfsagt að leita málamiðlana í því er varðar séreignarsjóðina og mismunandi sjónarmið fengju að koma fram og reynt yrði að taka tillit til þeirra. Ég held að það sé mjög auðvelt að leysa það, það sé nánast um tæknilegt atriði að ræða ef viljinn er fyrir hendi. En stóra grundvallaratriðið í þessu er hins vegar valfrelsið, frelsi til þess að velja lífeyrissjóð og innleiða þannig samkeppni í þennan geira. Það hefur engin opnun verið gefin á það hér í dag í þessari umræðu og þykir mér það afar miður. Þrátt fyrir að það sé margt gott í þeim kafla sem fjallar um hina almennu umgjörð um lífeyrissjóðina, þá eru þessi tvö grundvallaratriði, annars vegar hvað samtryggingin á að vera mikil og hins vegar valfrelsið, það mikilvæg að ég get ekki stutt þetta frv. í núverandi formi. Mér þykir það miður því að hér er um stjfrv. að ræða en staðan er einfaldlega sú að aðilar vinnumarkaðarins beittu bolabrögðum þegar kjarasamningar voru á viðkvæmasta stigi og ég get fyrir mitt leyti ekki séð neina ástæðu til þess að styðja niðurstöðu sem þannig er fengin.

Eins og ég sagði, herra forseti, get ég ekki stutt þetta frv. í núverandi mynd.