Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:15:54 (5535)

1997-04-21 16:15:54# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:15]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur lagt hér fram hafnaáætlun. Þetta mun vera í eitt af örfáum skiptum sem hún er lögð fram og hún hefur aldrei verið samþykkt eða komið til síðari umræðu þannig að þetta er út af fyrir sig tímamótaumræða sem ég vona að leiði til þess að áætlunin sem slík verði samþykkt enda mjög nauðsynlegt að hægt sé að vinna samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun um hafnir sem hægt sé að skipuleggja allt framkvæmdastarf hafnanna eftir.

Það kom fram í ræðu hæstv. samgrh. að ýmsar hafnir hefðu meiri þörf fyrir fjárveitingar en aðrar og að Reykjaneskjördæmi fengi sérstaklega mikið í þetta skiptið. Ég tek alveg undir það með hæstv. ráðherra að Reykjaneskjördæmi fær mun meira í þessari áætlun en önnur kjördæmi sem er að því er ég best veit og held að menn almennt viðurkenni, vegna þess að svæðið hefur verið út undan við úthlutun fjármagns til hafnargerðar á undanförnum árum og áratugum. Þar er ekki hvað síst um það ræða þær hafnir sem eru á Reykjanesinu sjálfu. Þá er ég að tala um hafnirnar í Reykjanesbæ, Sandgerði og Grindavík. Ég held ég verði að segja það bæði hæstv. ráðherra til hróss og eins Hafnamálastofnun að þar hefur verið tekið mjög rösklega á þessum málum. Í Reykjanesbæ eru nokkrar hafnir, m.a. fyrrverandi landshöfn, Keflavík--Njarðvík, sem var svelt fjárhagslega allan þann tíma sem hún var landshöfn, þurfti á verulegri andlitslyftingu að halda þegar hún komst undir beina stjórn sveitarfélaganna. Það varð til þess að byggð var smábátahöfn sem hafði vantað og einnig var byggður sérstakur garður í Helguvík sem hefur sýnt sig að var ákaflega þörf framkvæmd þar sem núna er búið að byggja loðnubræðslu og verður framtíðarlosunarhöfn fyrir stærri skip á svæðinu. Þetta var mjög þjóðhagslega arðbær framkvæmd að öllu leyti og er viðurkennt að þetta var mjög tímabær framkvæmd. Ég held því að þær fjárfestingar sem þarna er farið út í og verið er að greiða niður núna hafi sannarlega verið tímabærar.

Framkvæmdirnar sem gerðar voru í Sandgerði á sínum tíma voru einfaldlega til þess að með sanni væri hægt að segja að þarna væri höfn sem gæti tekið fiskiskip að eðlilegri stærð. Sandgerði er ein af allra stærstu fiskihöfnum landsins og þar eru flestar landanir í einni höfn á öllu landinu. Það umfang sem er í kringum þessa höfn hefur sífellt vaxið og það er ekki síst vegna þeirra framkvæmda sem þar urðu.

Ég mundi segja að Grindavíkurhöfn væri eina stóra fiskihöfnin á landinu sem hefur ekki fengið úrbætur eins og hefði mátt gera ráð fyrir miðað við mikilvægi hennar. Þar sitjum við í rauninni uppi með að skip hafa þurft að fara í veðrum inn á bárunni eins og kallað er og lent oft á tíðum í miklum erfiðleikum í innsiglingunni sem hefur oft skapað mikla hættu. Skip hafa strandað í innsiglingunni. Það er ekki nema fyrir mjög kunnuga menn að fara þarna inn og þar af leiðandi hafa Grindvíkingar jafnvel óttast að skipstjórar og útgerðarmenn, þegar til lengri tíma er litið, mundu ekki taka þá áhættu að vera með útgerð á þessu svæði með það í huga að nýta Grindavík. Þess vegna var mjög tímabært og eðlilegt að ríkisstjórnin skyldi taka þessa ákvörðun að frumkvæði hæstv. samgrh. og vil ég sérstaklega þakka fyrir það hversu vel var á því máli tekið af þeim aðilum.

Ég lít svo á að þar hafi fyrst og fremst verið stigið skref sem var búið að bíða eftir í langan tíma og það er ekki að mínu viti verið að taka þá fjármuni frá neinum öðrum höfnum. Mér finnst ekki alveg við hæfi, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson orðaði það áðan, að þegar væri verið leggja svona mikið fé í eina höfn þá liti það út eins og verið væri að taka fé frá öðrum höfnum. Það er fyrst og fremst verið að raða þarna eftir, við skulum segja langtímaáætlunum um hvernig eigi að byggja hafnir upp. Ég minnist þess ekki að nokkur maður hafi gagnrýnt t.d. þá miklu uppbyggingu sem var í Bolungarvík. Sú höfn hefur ávallt notið mikils velvilja þingmanna og landsmanna allra og allar framkvæmdir sem þar hafa verið gerðar sem eru stórkostlegar, hafa gert alla uppbyggingu mögulega í Bolungarvík og að þeim veruleika sem við sjáum, sem annars hefði ekki verið í myndinni í dag. Þetta þurfum við í Grindavík í dag og þess vegna fagna ég þessari tillögu og þeim undirtektum sem þetta mál hefur fengið í samgn., þeim sem ég hef heyrt, og ég vænti þess að niðurstaðan eftir umræðu og vinnu í hv. samgn. verði sú að þetta mikla og brýna mál verði inni á áætlun. Reyndar er verið að tala um að gera þessa framkvæmd sem getur þegar upp er staðið, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði og hæstv. ráðherra einnig, kostað á milli 700 og 800 milljónir. En við erum að tala um framkvæmd sem mun standa eitthvað fram á næstu öld eða ársins 2003 þannig að þetta er nokkuð langur tími. En fyrsti áfangi mun a.m.k. leysa brýnasta vandamálið varðandi innsiglinguna en skjólgarðar og annað sem því fylgir kemur síðar. En það er ljóst að framkvæmdin er komin af stað og henni verður ekki hætt fyrr en verkinu er öllu lokið. Og ég veit að Grindvíkingar og aðrir sem unna þeirri höfn líta mjög til þessa verks alls.