Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 18:08:06 (5554)

1997-04-21 18:08:06# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[18:08]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 982 í 409. máli.

Frv. þetta er eitt fjögurra frumvarpa sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks flytur um breytingar á banka- og sjóðakerfi landsins. Hin þrjú eru frumvarp til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., frv. til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Er óhjákvæmilegt að fjalla að nokkru leyti um efni allra þessara frumvarpa samhengisins vegna.

Það sem mesta athygli vekur þegar ríkisstjórnin ræðst loks í breytingar á þessum mikilvægu fjármálastofnunum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála og mikið hafa verið til umræðu er hvaða leið er valin eða ríkisstjórnin hefur rambað á. Fyrir það fyrsta er ljóst að breytingarnar fela alls ekki í sér þá heildarendurskoðun og uppstokkun í þessum málum sem ýmsir höfðu átt von á. Það er, eins og kunnugt er, búið að ræða mikið um nauðsyn þess að hagræða í íslenska bankakerfinu og upplýsingar hafa verið að hellast yfir um dýran rekstur og hversu langt í land íslenskar lánastofnanir eigi til að vera samkeppnisfærar að því leyti til. Eftir sem áður verður það niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að gera lágmarksbreytingar, ef svo má að orði komast. Þ.e. valin er sú leið að breyta ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka, í hlutafélög án nokkurra annarra breytinga á bönkunum sem slíkum. Frv. um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. felur að vísu í sér sameiningu nokkurra fjárfestingarlánasjóða en það er sömuleiðis gert þannig að sjóðunum er í óbreyttu ástandi slengt saman í einn nýjan haug, fjárfestingarbanka, sem verður fimmti bankinn eða bankasamsteypan í landinu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er svo settur á fót með fjármunum sem dregnir eru af eigin fé sjóðanna áður en hinn nýi Fjárfestingarbanki verður til.

Niðurstaðan er að þessu leytinu til stórfurðuleg í ljósi umræðunnar um nauðsyn þess að hagræða og bæta rekstur í íslenska fjármálaheiminum í ljósi umræðunnar um nauðsyn þess að íslenskar stofnanir á þessu sviði nái þeirri stærð og þeim styrk að geta veitt fullnægjandi og alhliða þjónustu íslenskum fyrirtækjum, jafnvel þeim stærstu, í ört vaxandi alþjóðlegum tengslum og alþjóðlegum umsvifum og að þessar breytingar vísi til einhverrar þeirrar framtíðar í þróun bankaviðskipta eða fjármálaviðskipta sem menn sjá að eru að gerast annars staðar í löndunum í kringum okkur. Ekkert af þessu er uppfyllt með þessari aðferð ríkisstjórnarinnar. Það er ekki einföldun í bankakerfinu í reynd að búa til fimmta bankann. Það var mjög áberandi í störfum efh.- og viðskn. að flestir þeir sem fyrir nefndina komu gáfu sér þá niðurstöðu að Fjárfestingarbankinn mundi reyna að veita sem víðtækasta þjónustu og verða sem líkastur viðskiptabönkunum því að í því fælist hans eina framtíðarlífsvon og þar af leiðandi yrði hann að öllu leyti nema því að taka við frá innlánum frá almenningi og veita honum útlán eins og hver annar viðskiptabanki, a.m.k. að öllu leyti hvað varðaði þjónustu við atvinnulífið.

Þetta vekur auðvitað mikla athygli, herra forseti, og ég held að þegar farið er ofan í saumana á þessum málum og menn hætta að skoða það í gegnum einhverjar fyrirsagnir sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hefur verið að reyna að skreyta sig með um að hér væru á ferðinni einhverjar stórkostlegar breytingar og tímamót og hagræðing og guð má vita hvað, þá stendur raunar ósköp lítið eftir. Það breytir náttúrlega nánast engu að setja stafina hf. og það meira að segja litla starfi aftan við nöfnin á Landsbankanum og Búnaðarbankanum. (Gripið fram í: Þeir mega vera stórir.) Mega þeir vera stórir já, samkvæmt hlutafélagalögunum. Það kann að vera. En það breytir ekki öllu, breytingn er ekki miklu stærri þó að notaðir væru stórir stafir. Ég skal ræða það aðeins síðar, herra forseti, við frammíkallandann, talsmann Framsfl., hvort það réttlæti stuðning við breytingar að þær séu litlar og tiltölulega ómerkilegar. Það þarf ekki endilega að vera.

Það veldur fyrst og fremst vonbrigðum að úr því að menn fara af stað á annað borð undir þeim formerkjum að hagræða, stokka upp og búa til nýja framtíð þá skuli það ekki verða meira sem kemur út úr öllu saman heldur en þetta: algerar lágmarksbreytingar hvað varðar viðskiptabankana og hálfgerð forneskja hvað varðar það að búa til þennan fjárfestingarbanka með þeim hætti sem gert er. Það er niðurstaða nánast allra málsmetandi manna á þessu sviði sem komu fyrir hv. efh.- og viðskn.

Herra forseti. Ef fyrst er farið yfir helstu möguleika til uppstokkunar og hagræðingar í banka- og sjóðakerfinu í heild má nefna eftirfarandi:

1. Sameining ríkisviðskiptabankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans, að einhverju eða öllu leyti í einn öflugan ríkisbanka. Þessari leið fylgja augljósir hagræðingarkostir sem til eru í stöðunni. Það hefur með óhrekjandi hætti verið sýnt fram á að ná mætti fram á einhverjum tíma umtalsverðum beinum rekstrarsparnaði auk þeirrar hagræðingar sem stærri og sterkari eining ætti að geta boðið upp á, einfaldlega í formi lægri rekstrarkostnaðar hlutfallslega miðað við veltu o.s.frv. Bara með sparnaði í rekstri útibúa er ljóst að hægt er að spara hundruð milljóna og jafnvel milljarða t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þessir bankar eru iðulega hlið við hlið með útibú. Á móti þessari leið hafa fyrst og fremst verið færð fram ein rök: skortur á samkeppni ef ríkisbankarnir séu sameinaðir. Og að sá banki sem til yrði yrði óþarflega stór eining í íslenska bankaheiminum, eða með yfir 50% af almennum bankaviðskiptum.

[18:15]

Á móti þessum rökum standa hins vegar mörg önnur og breytingar í viðskiptaheiminum hafa allar frekar verið á þá hlið nú upp á síðkastið að draga úr fákeppnisstöðu bankanna sem áður sátu tiltölulega einir að því að veita almenna fjármálaþjónustu. Þá var þetta í grófum dráttum þannig í gamla heiminum, ef svo má að orði komast, að fjárfestingarlánasjóðirnir, sérgreindir eftir atvinnugreinum, veittu tiltekna grunnfjármögnun og punktur. Að öðru leyti sátu viðskiptabankarnir einir að fjármálaviðskiptum við fyrirtækin. En hvernig er þetta í dag? Jú, það er þannig að ef fyrirtæki er að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar og jafnvel þó ekki sé nema endurfjármagna rekstrarlán eða annað því um líkt þá er iðulega samkeppni um það. Það er iðulega látið bjóða í slíka fjármögnun nú og þá eru það ekki bankarnir einir sem þar koma til sögunnar, þ.e. þeir íslensku, það eru erlendir bankar. Þeir eru í vaxandi mæli að færa sig niður eftir stærðarröðinni þannig að þeir eru farnir að sýna áhuga á viðskiptum við minni íslensk fyrirtæki en áður vegna þess að þeir telja stöðugleika og annað því um líkt sem hér er orðið í fjármálaheiminum þannig. Það eru fjármögnunarfyrirtæki af ýmsum toga sem bjóða orðið í fjármögnun slíkra verkefna. Það eru tryggingafélög --- tryggingafélög eru bjóðandi í fjármögnun á ólíklegustu hlutum --- og það eru fjárfestingarlánasjóðirnir sjálfir sem eru farnir að keppa við bankana í þó nokkrum mæli um fjármögnun. Þannig að myndin er hvað þetta snertir gjörbreytt. Ég fullyrði að minnsta kosti hvað varðar fyrirtækin þá breytir í sjálfu sér engu um samkeppnisumhverfið hvort einn eða tveir ríkisviðskiptabankar keppa þar. Það er alveg hverfandi að mínu mati miðað við þá stöðu sem blasir orðið við.

Þá skulum við líta aðeins á þetta út frá þjónustu við almenning. Hverju mundi sameining ríkisviðskiptabankanna breyta hvað samkeppnisforsendur snertir varðandi þjónustu við almenning? Staðan er sú hér á höfuðborgarsvæðinu að það er slíkur aragrúi útibúa þriggja viðskiptabanka og svo sparisjóðanna að ég held að fáir hafi áhyggjur af því þó útibúum ríkisviðskiptabanka mundi fækka um kannski 10--15 á þessu svæði --- eða hvað? Er einhver tilbúinn til að koma í ræðustólinn og segja að það verði algjör héraðsbrestur ef Búnaðarbankinn og Landsbankinn reki ekki útibú hlið við hlið á einum 10--12 stöðum á höfuðborgarsvæðinu? Ég held ekki. Ætli menn mundu ekki telja alveg nóg að einn ríkisviðskiptabanki, einkabanki og sparisjóðir rækju samtals kannski 30--40 útibú hér á þessu svæði. Einhverjum mundi finnast nóg um þau flottheit hvað þjónustu snertir. Erlendis er það víðast hvar orðið þannig að jafnvel í borgum á stærð við allt höfuðborgarsvæðið eru tiltölulega örfá útibú eða afgreiðslustaðir af þeim toga þar sem menn fara inn undir þak, afgangurinn eru hraðbankar. Það er hægt að setja upp nóg af slíkum apparötum út um allt ef menn vilja hafa meiri samkeppni í því.

Þá skulum við aðeins líta á myndina, herra forseti, eins og hún liggur fyrir í útibúum þessara stofnana. Ég fór aðeins að grafast fyrir um það, því miður hafði ég nú ekki tíma sökum annríkis að vinna það nógu vel tölulega, en ég náði mér í upplýsingar um dreifinguna á útibúum hjá Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Íslandsbanka en náði því miður ekki í sömu gögn frá sparisjóðunum, en ég held ég kunni það nokkuð þannig að það eigi ekki að skeika miklu. Ég fór aðeins að leggjast yfir tölurnar í þessu efni. Þá kemur margt merkilegt í ljós, herra forseti. Það er t.d. þannig að hér á höfuðborgarsvæðinu, á Stór-Reykjavíkursvæðinu, eins og stundum er sagt, eða Stór-Seltjarnarnessvæðinu, eða hvað menn vilja kalla það, það fær undirtektir hér við að nota frekar þá nafngift, eru 19 útibúaafgreiðslur á vegum Landsbankans, 19 stykki á ekki stærra svæði en þessu. Það eru 12 útibú og afgreiðslur Búnaðarbankans. Samtals reka ríkisviðskiptabankarnir 31 útibú og afgreiðslur á höfuðborgarsvæðinu. Ætli það sé nú ekki þannig að jafnvel Samkeppnisstofnun, sem hefur verið að taka á sig rögg og stjaka við ýmsum upp á síðkastið, þætti ágætlega fyrir samkeppninni séð þó þeim fækkaði eitthvað, að minnsta kosti á þeim stöðum þar sem Íslandsbanki og/eða sparisjóður er jafnframt með starfsemi, en það er á fjölmörgum stöðum hér á svæðinu þar sem að minnsta kosti eftir sem áður stæðu viðkomandi hverfi, viðkomandi verslunarmiðstöð, yrðu þrjár viðskiptabankastofnanir sem kepptu um hylli kúnnanna.

Ef við lítum á hvernig þetta er úti á landi og förum svæði af svæði þá er þetta þannig að á Suðurlandi er Landsbankinn með útibú eða afgreiðslur á Selfossi, Hvolsvelli, Höfn, Vík, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Kirkjubæjarklaustri, Reykholti í Biskupstungum og aðra afgreiðslu á Selfossi og enn fremur á Stokkseyri. Á tveimur stöðum af þessum eru Búnaðarbankinn einnig með útibú, þ.e á Selfossi og í Vík í Mýrdal. Til viðbótar er Búnaðarbankinn svo með útibú á Hellu og í Hveragerði. Suðurlandið er því ágætlega dekkað að þessu leyti. En aðeins á tveimur stöðum eru báðir ríkisviðskiptabankarnir með útibú. Er það einhver undirstaða samkeppni í þjónustu við almenning á Suðurlandi að það séu reknir tveir ríkisbankar? Nei, á aðeins tveimur stöðum af 12 eru báðir bankarnir saman. Það er því ósköp lítil breyting út frá venjulegum samkeppnisforsendum þó þessu væri hætt. Og það sem meira er að á öðrum staðnum er Íslandsbanki með starfsemi. Þannig að aðeins í einu tilviki á öllu Suðurlandi mundi skapast það ástand að aðeins stæði ein bankastofnun eftir og það mun vera í Vík í Mýrdal. Svo geta menn velt því fyrir sér hversu mikill grundvöllur er fyrir starfsemi margra viðskiptabanka í Vík í Mýrdal. Er því fórnandi á altari samkeppninnar að standa fyrir því með ríkisumsvifum að reka þar tvo banka?

Ef við lítum á dæmið eins og það er til að mynda á Austurlandi þá er aðeins á einum stað í öllu því kjördæmi báðir bankarnir og það er á Egilsstöðum. Nú man ég ekki til þess að þar sé sparisjóður en Íslandsbanki er ekki a.m.k ekki þar því hann hefur hvergi viðskipti á Austurlandi. Þannig er þetta nú.

Á Norðurlandi ef tekið er Norðurland vestra og eystra þá er þetta þannig að á tveimur stöðum eru báðir bankarnir saman, þ.e. á Akureyri og Sauðárkróki. Á Akureyri er Íslandsbanki og einir tveir sjálfstæðir sparisjóðir starfandi og Íslandsbanki meira að segja með tvær afgreiðslur. Ekki verður héraðsbrestur þó þessu linnti þar. Eftir sem áður held ég að samkeppnisyfirvöld mundu væntanlega telja bærilega séð fyrir þjónustu við almenning og samkeppni þó eftir stæðu fjórar sjálfstæðar stofnanir á þessu sviði í staðinn fyrir fimm. Á Sauðárkróki er reyndar sofandi sparisjóður inni í útibúi Búnaðarbankans þannig að það er ekki augljóst mál hvað kynni að gerast þar ef ríkisbankarnir yrðu sameinaðir.

Á Vestfjörðum er þetta þannig að Landsbankinn er með starfsemi á Ísafirði, Patreksfirði og Bíldudal en Búnaðarbankinn aftur á Hólmavík. Hvaða áfall yrði það fyrir samkeppni í bankaþjónustu á Vestfjörðum þótt ríkisviðskiptabankarnir yrðu sameinaðir? Ekki nema ef menn telja að samkeppnin liggi í því að menn keyri á milli Hólmavíkur og Ísafjrðar eftir því við hvorn bankann þeir vilja skipta. Er það trúlegt? Ég held ekki.

Á Vesturlandi eru báðir bankarnir með þjónustu á tveimur stöðum, þ.e. á Akranesi og í Grundarfirði. Og, ef minni mitt svíkur ekki, er einmitt Íslandsbanki með starfsemi á Akranesi, hugsanlega sparisjóð líka, ég man það ekki. Þar með er það að minnsta kosti þannig að það yrði eftir sem áður samkeppni milli tveggja stofnana þó að ríkisviðskiptabankarnir sameinuðust á Akranesi.

Þá er ég kominn hringinn, herra forseti. Niðurstaðan er sem sagt sú af þessari tölfræði að aðeins á sjö stöðum utan höfuðborgarsvæðisins eru báðir ríkisviðskiptabankarnir með útibú eða þjónustu saman. Af þeim sjö stöðum er Íslandsbanki með þjónustu á þremur stöðum. Eftir standa fjórir staðir á landsbyggðinni þar sem segja mætti að það hefði bein áhrif á samkeppni til hins verra í þeim skilningi að eftir kynni að standa aðeins ein viðskiptabankastofnun ef ríkisviðskiptabankarnir sameinuðust. Þannig er nú það. Þegar við förum svona yfir þetta, herra forseti, er þá ekki myndin dálítið önnur en látið er í veðri vaka? Er það ekki bara rugl að reksturinn á tveimur ríkisbönkum sé einhver grundvöllur samkeppni í þessum efnum í sjálfu sér? Ég held það. Ég held að landafræðin einfaldlega afhjúpi það því að að langstærstum hluta til eru bankarnir hver á sínum stað, Landsbankinn með um það bil 60 afgreiðslustaði, útibú og afgreiðslur, og Búnaðarbankinn með um það bil 26 staði og, eins og ég segi, á aðeins sjö stöðum af 55 útibúum og afgreiðslum beggja bankanna samtals utan höfuðborgarsvæðisins eru þeir báðir saman. Þetta er því þannig að það kæmi tiltölulega mjög lítið við og væri lítil breyting þó að rekstur ríkisviðskiptabankanna utan höfuðborgarsvæðisins væri algjörlega sameinaður af því að við getum gefið okkur að í grófum dráttum héldu menn áfram þjónustu alls staðar þar sem annar hvor bankinn er fyrir. Fyrst og fremst yrði þetta þannig að á sjö stöðum, þar sem báðir bankarnir eru með starfsemi, mundi þeim eitthvað fækka. Þó er það þannig að til að mynda á Akureyri eru tveir afgreiðslustaðir á vegum Landsbankans o.s.frv. Þannig að eftir gætu staðið t.d. tveir í staðinn fyrir þrjá.

Á höfuðborgarsvæðinu er þessu öðruvísi farið eins og glöggt má sjá af þessum tölum um 19 útibú og afgreiðslur Landsbankans og 12 útibú og afgreiðslur Búnaðarbankans ef ég hef talið rétt.

Þessi landafræði og tölfræði, herra forseti, var fyrst og fremst hugsuð til að sýna fram á að ég held að það sé mjög hollt undir rökunum sem menn hafa verið að flytja hér, að svo miklu leyti sem menn hafa haft fyrir að rökstyðja það, að sameining ríkisviðskiptabankanna sé einhver kostur sem ekki þurfi að athuga af því að hann sé svo neikvæður út frá samkeppnisforsendum. Mér finnst það dálítið sérkennilegt að við sem treystum okkur til að búa í því mikla fákeppnisþjóðfélagi á fjölmörgum sviðum sem raun ber vitni og svitnum ekki mikið yfir því þó hér séu markaðsráðandi einokunar- eða fákeppnisrisar á fjölmörgum sviðum, skulum verða svona óskaplega upptekin af því að það þurfi endilega að standa að rekstri viðskiptabanka óbreyttum.

Hver er þá niðurstaðan, herra forseti? Af hverju fást menn ekki til að skoða þennan kost þó þessi hagræðingarrök liggi á borðinu og þó svona veikar forsendur, þegar betur er að gáð, séu á bak við það að hafna þessu á samkeppnisforsendum? Svari nú hver sem vill. Auðvitað læðist að manni sá grunur að það sé fyrst og fremst vegna þess að stjórnarflokkarnir hafi með pólitískum hrossakaupum komið sér niður á það að hafa í grófum dráttum óbreytt ástand í þessum efnum, verja sitt gamla helmingaskiptakerfi í þessu og þeir vilji halda báðum bönkunum fyrir sig og sína og öllum bankastjórastólunum fyrir sig og sína og niðurstaðan sé sú að hér sé bara á ferðinni dulbúin framlenging á þessu kerfi.

[18:30]

Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur mótað þá stefnu og flutt um það þingmál að kanna beri mjög rækilega sameiningu ríkisviðskiptabankanna í einn öflugan þjóðbanka áður en ráðist er í aðrar breytingar á þessu kerfi. Ég vísa til þeirrar þáltill., herra forseti, um nánari rökstuðning fyrir okkar afstöðu.

Þá, herra forseti, kemur annar möguleikinn hvað varðar þessa hagræðingar- eða uppstokkunarmöguleika sem er rétt að fara aðeins yfir. Hann felur í sér að um einhvers konar uppstokkun með sameiningu viðskiptabanka og sparisjóða og fjárfestingarlánasjóða yrði að ræða, þ.e. að valin yrði í grundvallaratriðum önnur leið en hæstv. ríkisstjórn hefur rambað á, sem sagt sú að í staðinn fyrir að stofna fimmta bankann eða fimmtu bankakeðjuna með fjárfestingarbankanum, þá yrði athugaður vandlega sá kostur að fjárfestingarlánasjóðirnir eða sú starfsemi rynni inn í viðskiptabankana með einum eða öðrum hætti, yrði hluti af starfsemi þeirra. Það er flestra manna mál að það væri mun meira í takt við þróun í fjármálaviðskiptum almennt að gera fjárfestingarlán og lengri lán af því tagi að eðlilegum hluta af umsvifum viðskiptabanka. Þessari starfsemi sinna viðskiptabankar yfirleitt í nálægum löndum. Þrátt fyrir mikla leit tókst ekki að finna nema ein tvö fordæmi í heiminum fyrir þessum fjárfestingarbanka. Það fannst eitt í Danmörku og annað í Hollandi og búið. Að öðru leyti standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd að alls staðar annars staðar eru það viðskiptabankar, stórir og öflugir bankar, sem sinna þessari starfsemi og ef um mjög stór og fjármagnsfrek verkefni er að ræða slá bankarnir sér saman í hópa og deila þannig með sér áhættunni af fjármögnun stærri verkefna. En það er í grunninn viðskiptabankar sem veita þessa þjónustu, nema hér. Hér á í raun og veru að framlengja gamalt vinnugreina aðgreint kerfi fjárfestingarlánasjóða.

Ríkisviðskiptabankarnir og sparisjóðirnir sendu ríkisstjórninni bréf á sl. vetri þar sem þeir buðust til að kaupa fjárfestingarlánasjóðina og efh.- og viðskn. hefur fengið afrit af því bréfi. Þá er jafnframt upplýst að Íslandsbanki hefði verið tilbúinn til að koma að því borði að skoða möguleikana á því að þessi uppstokkun gerðist með þeim hætti sem er ein möguleg leið að ríkisviðskiptabankarnir og/eða bankarnir og sparisjóðirnir með einhverju móti keyptu bankana. Ýmislegt bendir til að sú uppstokkun hefði getað orðið báðum aðilum hagstæð. Ríkið hefði getað selt þessa sjóði og dregið þó áður verulega út úr þeim eigið fé sökum þess að bankarnir hefðu væntanlega ekki haft áhuga á að kaupa allt það fé sem í sjóðunum liggur en hefðu hins vegar vegna þeirra hagræðingarmöguleika sem samruni þessarar starfsemi hefði boðið upp á eftir sem áður séð sér hagstætt að taka þessa starfsemi inn til sín. Ríkið á þessa sjóði, a.m.k. er það niðurstaða frv. sem hæstv. ríkisstjórn byggir á að þeir séu eign ríkisins þótt oft hafi verið um það deilt hvort atvinnugreinarnar eða ríkið ættu í raun og veru sjóðina. Það má kannski segja að það sé áfangi út af fyrir sig að kveða niður þann söng í ýmsum að þetta sé nú meira og minna eign þeirra aðila sem skipt hafa við sjóðina eða greitt hafa til þeirra gjöld eins og var á sínum tíma, t.d. til Fiskveiðasjóðs. En sé það niðurstaðan að ríkið eigi sjóðina, eins og Fiskveiðasjóð, þá getur ríkið líka gert það við þá sem það vill, og ríkið á Landsbankann. Það er dálítið merkileg niðurstaða þegar loksins kemur að einhverjum breytingum á þessu kerfi að engum skuli detta í hug að sameina Landsbankann og Fiskveiðasjóð. Af hverju er það nú býsna upplagt að ræða það? Jú, það er af því að þessir tveir aðilar eru yfirgnæfandi stærstir í viðskiptum við íslenskan sjávarútveg. Eru báðir með þorrann af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem viðskiptavini, þ.e. Fiskveiðasjóður hefur lagt til fjárfestingarlán til kaupa á skipum og í fiskvinnslustöðum og Landsbankinn veitir fyrirtækjunum bankaþjónustu. Sér þá ekki hver heilvita maður í hendi sér að það hljóta að vera miklir hagræðingarmöguleikar í því að láta þessa starfsemi renna saman til einföldunar og hagræðis fyrir alla aðila, fyrir nú utan það að það kæmi sér af ýmsum ástæðum ákaflega vel, að minnsta kosti fyrir Landsbankann. Er það ekki þannig, herra forseti, þó að það megi kannski ekki nefna það að það hefur þurft að koma Landsbankanum til aðstoðar með fjárstuðningi á undanförnum árum vegna erfiðleika sem hann hefur átt í sem hafa auðvitað tengst undangengnum erfiðleikum í íslensku atvinnulífi sem Landsbankinn hefur verið langstærstur í að veita þjónustu og hefur orðið að taka á sig og deila með atvinnugreininni miklum áföllum í gegnum árin? Þó að ég dragi fram þessar staðreyndir þá er það ekki til þess að ráðast á Landsbankann. Hann hefur verið og er gífurlega mikilvæg stofnun og hefur auðvitað öllum öðrum stofnunum fremur borið hitann og þungann af því að veita íslensku atvinnulífi þjónustu og orðið að deila með því kjörum --- þar á meðal hinum miklu áföllum í sjávarútveginum á níunda áratugnum þegar kolvitlaus fastgengisstefna var hér í þann veginn að leggja allt í rúst. En eftir stendur að Fiskveiðasjóður er sterkur sjóður með mikið eigið fé enda hefur hann haft bestu tryggingarnar fyrir útlánum sínum með lögbundnum fyrsta veðrétti og að hluta til ríkisábyrgð. Það væri þar af leiðandi að mörgu leyti mjög eðlilegt að menn byrjuðu á því að skoða þann kost að láta þessa starfsemi að einhverju leyti renna saman. Ýmsar aðferðir kæmu til greina og það yrði of langt mál að fara að telja það allt upp. Ein gæti verið sú að draga sundur viðskipti sjóðanna þannig að þau féllu eðlilega að bönkunum eftir umsvifum hvers og eins. Önnur gæti verið sú að láta sjóðina sameinast mismunandi bönkum og reyna að stuðla að því að þeir annaðhvort rynnu saman við þá, ríkið legði þá saman eða ríkið seldi þá. Ríkið gæti selt suma sjóðina en ekki aðra o.s.frv. Þarna hefði ýmislegt getað komið til greina sem allt hefði falið í sér miklu meiri möguleika til hagræðingar og til sterkari eininga sem meira væru í takt við nútímann og það sem fram undan er í þessum efnum.

Í þriðja lagi nefni ég að bein sala á fjárfestingarlánasjóðunum, hverjum í sínu lagi, hefði einnig komið vel til greina. Vel rökstutt álit kom fram á þeim nótum í efh.- og viðskn. um að sjóðirnir væru verðmætari seldir hver í sínu lagi heldur en hlutabréf í þeim eftir að búið væri að slengja þeim öllum saman með þessum hætti. Það mætti út af fyrir sig fara yfir það mál.

Það er að sjálfsögðu þannig, herra forseti, að varðandi allar þessar breytingar er skylt og rétt að taka fram að að sjálfsögðu þarf að taka hér fyllsta tillit til aðstæðna og hagsmuna starfsfólks. Það er enginn að tala fyrir því og allra síst ræðumaður að það verði farið með einhverju offorsi að því. Ég held að það hefði verið fullur sómi að því að sætta sig við að slíkar breytingar, slík hagræðing, kæmi til sögunnar í áföngum á einhverjum árum, fyrst og fremst framkvæmd þannig að ekki yrði ráðið í lausar stöður og að menn gæfu sér tiltekinn tíma til að láta þessa hluti gerast í góðu samstarfi við starfsfólkið. Auðvitað er alveg ljóst að í hinu orðinu þegar verið er að ræða hér um hagræðingu, hvort sem heldur er af sameiningu ríkisbankanna eða samruna fjárfestingarlánasjóða banka, þá eru menn að tala um hagræðingu jafnframt í skilningnum einhver fækkun starfa. Það þýðir ekki að tala um það öðruvísi en það er, það á ekki að fara neitt í kringum það. En það er líka mikil hagræðing þarna í formi minni útlagðs rekstrarkostnaðar, minna húsnæðis, minni tækjabúnaðar og alls konar aðstöðu sem þarna er tvöföld, þreföld, fjórföld, fimmföld og sexföld og langtum meiri og dýrari heldur en nokkur ástæða er til í okkar litla landi.

Þá, herra forseti, í öðru lagi að fyrirkomulagi þessara breytinga. Það er hinn meginþáttur málsins sem óhjákvæmilegt er að minnast betur á. Ríkisstjórnin velur sem sagt þá aðferð að breyta bönkunum í hlutafélög í raun og veru að óbreyttu og ætlar síðan viðskrh. að fara einum með allt forræði og skipan stjórnar. Þessi aðferð orkar að mörgu leyti tvímælis svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ljóst er að mikið vald þjappast saman með þessum aðferðum í viðskrn. og segja má að valdasamþjöppun og opinber miðstýring í fjármálageiranum aukist í staðinn fyrir að minnka eins og látið er í veðri vaka með því að standa svona að þessum breytingum. Og ljóst er til viðbótar, herra forseti, að vegna hlutafjárvæðingar og einkavinavæðingar fjölmargra fyrirtækja og stofnana að undanförnu og nú með þessum breytingum, þá er það að gerast að gífurlega mikið vald er að þjappast saman í viðskrn. Þannig er einn og sami maðurinn að fá til þess vald að skipa fríhendis, án tilnefningar og óbundið, stjórnir nokkurra mikilvægustu fyrirtækja og allra mikilvægustu fjármálastofnanna í landinu að undanskildum Seðlabanka. Hæstv. viðskrh. á að vísu að hafa eitthvert samráð við sjútvrh. um skipan stjórnar í Fjárfestingarbankanum hf. vegna arfleifðar frá þeirri tilhögun sem gilt hefur um Fiskveiðasjóð. En að öðru leyti er þetta svona. Það er dálítið sérkennilegt að samt sem áður er verið að reyna að selja mönnum þessar breytingar undir þeim formerkjum að hér sé einhver nútímavæðing á ferðinni og verið sé að hverfa frá einhverjum opinberum afskiptum og guð má vita hvað. Stjórnmálamenn eigi nú ekki að koma mikið nálægt svona hlutum o.s.frv. Þetta hljómar allt mjög fallega, er það ekki? En niðurstaðan er sú að það er verið að setja þetta allt í hendurnar á einum pólitíkus, þjappa öllu þessu valdi saman þar. Það er auðvitað ekkert annað en vaxandi miðstýring, aukið pólitískt forræði. Auðvitað er það þannig að einn maður hefur miklu sterkari stöðu til að gera þessa hluti ef hann þarf hvorki að spyrja kóng né prest heldur en þegar margir þurfa að koma sér saman, eða þegar þetta er að minnsta kosti kosið með lýðræðislegum hlutföllum eftir því hvernig fulltrúalýðræðinu er skipað. Þarna hefðu að sjálfsögðu komið margar aðrar gáfulegri leiðir til greina. Það hefði til að mynda verið mjög auðvelt að ákveða, og að mörgu leyti eðlilegasta framkvæmd þessara mála, að eftir sem áður yrðu stjórnir bankanna eða bankaráðin kosin á Alþingi eða að minnsta kosti á meðan bankarnir væru algjörlega eða að meiri hluta í eigu ríkisins. Það er dálítið athyglisvert að Framsfl., sem á síðasta kjörtímabili flutti einmitt tillögur um slíkt þegar verið var að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, hefur nú gjörsamlega snúið við blaðinu. Það er ekki í einu heldur öllu sem þessi hamskipti verða á Framsókn við að komast aftur að kjötkötlunum. Það er nöturlegt að það var einmitt núv. formaður Framsfl., þáv. forustumaður flokksins í sjútvn., sem stóð að tillöguflutningi í þá átt á að meðan ríkið ætti meiri hluta t.d. í Síldarbræðslum ríkisins skyldi Alþingi kjósa stjórnina eða jafnmarga fulltrúa og ríkið ætti rétt á hverju sinni miðað við eignarhlutföll sín. Þetta liggur fyrir skjalfest. Ég sé að hæstv. viðskrh. er vantrúaður á svipinn en þetta er nú svona samt.

Annað fyrirkomulag, herra forseti, sem ég tel að hefði átt að skoða mjög vandlega í þessu sambandi var sú leið að stofna eignarhaldsfélag um eign ríkisins í bönkunum eða þessum fjármálastofnunum og kjósa því eignarhaldsfélagi stjórn eins og hverju öðru mjög mikilvægu ríkisfyrirtæki. Þá hefði eignarhaldsfélagið verið ríkisfyrirtæki og því hefði verið kosin stjórn á Alþingi. Hún hefði síðan farið með hlut ríkisins í þessum stofnunum og séð um þau mál. Að sjálfsögðu undir mjög ströngu eftirliti og aðhaldi bæði frá þinginu, Ríkisendurskoðun og öðrum aðilum. Þetta hefði verið miklu geðþekkari aðferð heldur en sú að færa þetta allt undir einn og sama pólitíkusinn, einn og sama manninn, hæstv. viðskrh.

Það er skoðun 2. minni hluta að þessi valdasamþjöppun og miðstýring sé mjög óæskileg þróun og í raun og veru óeðlileg og mikil tímaskekkja. Það hefði verið strax til bóta þó ekki væri nema að menn hefðu að minnsta kosti látið tvo eða jafnvel fleiri ráðherra fara sameiginlega að einhverju leyti með þetta eignarhald. Ekkert af þessu tagi er í raun og veru gert, heldur er farin þessi hráa einkavinavæðingarleið sem komst á illu heilli á síðasta kjörtímabili. Hún var þá gagnrýnd af Framsfl. en nú gengur hann fram fyrir skjöldu í því að troða þessu öllu inn undir viðskrn.

[18:45]

Herra forseti. Það hefur auðvitað talsverð vinna farið í það af hálfu efh.- og viðskn. að skoða verðmæti þessara stofnana og hver væri eðlileg upphæð hlutafjár o.s.frv. Það er orðin niðurstaða stjórnarliða í efh.- og viðskn. að fella brott úr frv. það ákvæði eða leggja það til í brtt. að heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagabankanum um sig skuli miðast við 75% af eigin fé bankanna eins og það er samkvæmt efnahagsreikningi. Það má út af fyrir sig segja að þessi viðmiðun sem slík hafi getað orkað tvímælis. En þá er það eins og annað, það er allt á sömu bókina lært, að í staðinn fyrir að taka eitthvað fram um þetta í frv. þá á að henda því út --- og gera hvað? Láta auðvitað hæstv. viðskrh. ráða þessu eins og öðru. Þannig að hæstv. viðskrh. fær óbundnar hendur um það hvernig hann stillir þessum mikilvægu hlutum upp. Þá minnist ég þess að hæstv. núv. utanrrh. og þáv. hv. þm. og gott ef ekki formaður efh.- og viðskn., endurskoðandi að mennt, Halldór Ásgrímsson, lagði mikið upp úr því þegar einkavæðing tiltekinna ríkisfyrirtækja var til umræðu á síðasta kjörtímabili að menn þyrftu að vanda sig mjög við að setja upp efnahagsreikning fyrirtækjanna og hann þyrfti að liggja fyrir fyrir fram til að allt væri nú á hreinu. Um þetta hélt þáv. hv. þm. mjög hjartnæmar og miklar ræður. En nú vefst þetta ekki mikið fyrir mönnum þótt ekki sé um minna að ræða en sjálfa ríkisbankana.

Þegar kemur, herra forseti, að spurningunni um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum þá er það skoðun þess sem hér mælir að rétt sé að fara mjög varlega í sakirnar verði af breytingu bankanna í hlutafélög á annað borð. Það er vissulega jákvætt að samkvæmt 6. gr. frv. yrði eingöngu heimilt að bjóða út nýtt hlutafé og samkvæmt því sem fram kemur í grg. er ekki ætlun hæstv. ríkisstjórnar að selja beint af eignarhlut ríkisins á næstu fjórum árum. Hitt er verra að það vantar öll ákvæði í frv. um það hvernig eigi að tryggja að um dreifða eignaraðild verði að ræða þegar eða ef boðið verður út nýtt hlutafé eða nýir meðeigendur teknir inn á móti ríkinu. Í orði kveðnu telja menn auðvitað mjög mikilvægt að tryggja dreifða eignaraðild, koma í veg fyrir að það verði slys, að eignarhaldið á bönkunum til viðbótar öllu öðru verði til þess að auka enn á samþjöppun fjármuna og valds hér í okkar litla viðskiptaheimi, en hins vegar neita menn að taka nokkur ákvæði inn í frv. að þessu leyti. Þó er alveg ljóst að sú hætta blasir við að einkavæðing ríkisbankanna verði enn einn atburðurinn sem ýtir undir samþjöppun af þessu tagi og er hún þó ærin fyrir. Þarna má hugsa sér að setja ýmis ákvæði sem mundu tryggja bæði hámarkseign einstakra aðila og sem mesta dreifingu nýs hlutafjár þegar það væri boðið út og þannig mætti bæði með framkvæmdinni sjálfri og með ákvæðum sem giltu til frambúðar stuðla að því að um mjög dreifða eignaraðild yrði að ræða.

Það er óhjákvæmilegt að gagnrýna það mjög harðlega að þetta skuli ekki gert og 2. minni hluti tekur undir brtt. 1. minni hluta sem mælt var fyrir áðan um að setja þessu einhverjar skorður þó að vissulega megi deila um hvort þar sé á ferðinni sú útfærsla sem endilega sé réttust eða árangursríkust.

Herra forseti. Ég hef ítrekað lagt það til í efh.- og viðskn. ásamt með öðrum fulltrúum minni hlutans að sett verði ákvæði um að þegar hinir nýju hlutafélagabankar taki til starfa skuli ráðinn að þeim einn bankastjóri eða einn aðalbankastjóri. Í þessu tilviki eins og mörgum fleirum stangast á orð og frómar yfirlýsingar stjórnarflokkanna annars vegar og gjörðir hins vegar. Það hefur hver hv. þm. úr stjórnarliðinu á fætur öðrum mært það hér og talið það sjálfsagt að auðvitað sé það tímaskekkja að vera að draslast með marga bankastjóra, það eigi ekki að vera margir skipstjórar á skipi o.s.frv. En þegar til stykkisins kemur og þeim er boðið upp á samstarf um að Alþingi reki þá af sér slyðruorðið og festi það niður í lögin að þannig a.m.k. leggi hinir nýju bankar af stað, hvað sem stjórnendur þeirra í framtíðinni kunni að kjósa, --- nei, þá koðnar allt niður, þá lekur allt niður. Og þá má ekki undir neinum kringumstæðum taka neitt um þetta inn í frv. sjálft en það má nefna það í nál. svona til friðþægingar.

Ég verð að segja alveg eins og er að öllu snautlegri magalendingu hef ég nú ekki lengi séð. Menn tala sig alveg upp í hita yfir því hversu fáránlegt ástand þetta sé með alla bankastjórana og hversu nauðsynlegt sé nú að tryggja að í hinni nýju og rósum prýddu framtíð hlutafélagabankanna verði brotið í blað en svo þegar kemur að því að ganga frá því þannig að það þurfi ekkert um það að þvæla meir, þá koðnar allt niður. Menn fá að setja eina ræfilslega setningu inn í nál. og það er allt og sumt. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig hvers konar brandari þetta sé. Er það virkilega svo að þetta sé ávísun á það að stjórnarflokkarnir hafi nú þegar komið sér saman um einhver hrossakaup um það hvernig þessum stólum verði skipt? Er þetta pólitísk niðurstaða, eru þetta pólitísk hrossakaup? Og er þá ekki best fyrir flokkana að hleypa í herðarnar og viðurkenna það? Það verður þá aðeins í hálft ár sem menn geta falið sig á bak við þetta orðalag í nál. ef meiningin er svo að ráða einhverja gæðinga strax um áramótin eða fyrir áramótin til þess að taka við -- tvo, þrjá skipstjóra á hverri skútu.

Ég segi alveg eins og er að verði það niðurstaðan, sem ég auðvitað vona að verði ekki, þá verður háðung stjórnarflokkanna enn meiri en ella að vera með þennan feluleik hér í gangi. Við skulum bíða og sjá til en ekki vona það versta, sem vissulega læðist að manni grunur um, heldur hið besta, að það sé þrátt fyrir allt einhver alvara á bak við. En óneitanlega er það ansi sérkennilegt að ekki skuli þá einu sinni tekið á þessu í frv.

Síðast en ekki síst, herra forseti, vil ég átelja það mjög harðlega að þó að þar kæmu fram fjölmargar óskir frá starfsfólki, frá Sambandi íslenskra bankamanna og frá starfsmannafélögum beggja ríkisviðskiptabankanna, þá varð niðurstaða stjórnameirihlutans í efh.- og viðskn. að taka ekki til greina einu einustu af þessum ábendingum, ekki eina einustu. Og voru þær þó margar hverjar afar hógværar og sjálfsagðar að ég tel. Þetta varðaði jafneinfalda og útlátalausa hluti eins og það að starfsmannafélög bankanna fengju að eiga aðild að undirbúningsnefndum um breytingu bankanna yfir í hlutafélög. Og hvað vakir fyrir mönnum að hafna slíku? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Er hæstv. ríkisstjórn svo gjörsamlega frosin föst í þeirri hugmyndafræði að það skuli alveg endilega gera allar svonar breytingar í slag við starfsfólkið að hún komist ekki frá því? Og hver er hugmyndafræðingur að þessari línu ríkisstjórnarinnar sem gengið hefur eins og rauður þráður í gegnum allar meiri háttar breytingar hennar hér á löggjöf undanfarin ár? Það er ástæða til að fara aðeins yfir það, herra forseti, hvernig það hefur verið þegar ríkisstjórnin hefur verið að fara í einhverjar breytingar af þessu tagi. Hvernig hefur sambúðin verið við heilbrigðisstéttirnar? Við vitum það. Hvernig var þetta með breytingar á löggjöf um vinnumarkaðinn hér á sl. vori? Allt gert í grenjandi átökum við fólkið. Hvernig er þetta með starfsmannabandorminn sem nú er verið að afgreiða hér út? Svo til hver einasta umsögn frá aðildarfélögum starfsmanna ríkisins og sveitarfélaganna er neikvæð --- hafnar þessum vinnubrögðum. Línan er hins vegar sú frá hæstv. ríkisstjórn, sennilega að einhverju leyti með sérstakri blessun hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á þessu öllu, hvar sem hann er nú, herra forseti, við vitum það ekki --- að þetta skuli einmitt gera í andstöðu við fólkið, það sé einmitt leiðin. Og það er engin undantekning hér með bankana. Þegar starfsfólk bankanna kemur með mjög hógværar óskir um að fá að vera aðili að breytingunum, undirbúningi þeirra, þá er því öllu hafnað. En það geta ýmsir aðrir stílað bréf til efh.- og viðskn. og fengið sitt fram fyrir lítið eins og kunnugt er. Það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón sem stílar bréfin þó að séra Jón láti stundum einhverja aðra skrifa undir þau fyrir sig af vissum ástæðum.

Þetta er mjög sérkennilegt, herra forseti, og í raun og veru ástæða til þess að draga það hér fram að þessi merkilega pólitík hæstv. ríkisstjórnar að standa að öllum svona breytingum með illsku og í andstöðu við þá sem við eiga að búa, hvort sem það er verkalýðshreyfingin í landinu, starfsfólk ríkisviðskiptabankanna eða aðrir, virðist ganga eins og rauður þráður í gegnum þetta allt eða blár þráður er nú sennilega betra að segja.

Herra forseti. Það er sem sagt niðurstaða 2. minni hluta að í þessum frv., breytingum á banka- og sjóðakerfinu, sé alls ekki að finna þá uppstokkun og hagræðingu í fjármálakerfinu sem ástæða væri til að ráðast í. Þessi mál séu auk þess að ýmsu leyti gölluð og það er ótímabært að standa að afgreiðslu þeirra með þeim hætti sem meiri hlutinn leggur nú til. Það væri miklu nær og í meira samræmi við eðli og aðstæður í málinu að ríkisstjórninni eftir atvikum eða Alþingi yrði falið að standa fyrir vinnu á komandi mánuðum þar sem farið væri mjög rækilega yfir þá kosti sem til greina koma varðandi breytingar á banka- og sjóðakerfi landsins. Slíka úttekt þarf að gera. Hana vantar. Og hana þarf að gera með hliðsjón af því hvernig staða íslenskra fjármálastofnana verður sterkust með tilliti til erlendrar samkeppni, hvernig möguleikar íslenskra stofnana á þessu sviði til að veita fullnægjandi þjónustu með hliðsjón af ört vaxandi alþjóðavæðingu í íslensku atvinnulífi verði mestir, hvernig unnt sé að ná fram mestri hagræðingu og hvernig hægt sé að gera þessar breytingar í góðri sátt við starfsfólk bankanna og sjóðanna.

Með vísan til allra þessara raka og annars sem hér hefur komið fram í mínu máli þá leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Til vara flytur hins vegar 2. minni hluti brtt. sem varða nokkur helstu atriðin sem hér hefur verið gerð grein fyrir og mundu þrátt fyrir allt hafa í för með sér umtalsverðar lagfæringar á frv. Þessi málsmeðferð er að mínu mati, herra forseti, í hæsta máta eðlileg. Við teljum sem sagt að málið þurfi betri skoðunar við og því ætti að vísa með þessum rökstuðningi og í þessu skyni til hæstv. ríkisstjórnar en verði ekki fallist á það hér og sú tillaga felld þá munu brtt. koma til atkvæða sem við flytjum á þskj. 983.

Ég vil í lokin gera lítillega grein fyrir þessum brtt. Þær varða í fyrsta lagi breytingar á 2. gr. frv. sem lýtur að skipan undirbúningsnefnda, svohljóðandi: ,,Starfsmannafélög bankanna skulu eiga fulltrúa í hvorri nefnd.`` Þar með væri þeim tryggður aðgangur að þessu undirbúningsstarfi.

Í öðru lagi eru á ferðinni breytingar á 3. mgr. 3. gr., það er sú grein sem fjallar um hvern kjósa skuli til stjórna hinna nýju hlutafélagabanka. En frv. gerir ráð fyrir því að kjósa skuli bankaráð hvors hlutafélagabanka á stofnfundum sem haldnir skulu fyrir yfirtöku hlutfélagabankanna á ríkisviðskiptabönkunum og síðan eftir það samkvæmt hlutafélagalögum á aðalfundi bankanna. Þetta þýðir á mannamáli að hæstv. viðskrh. tilnefni einn öll bankaráðin. Og eins og ég fór rækilega yfir hér áðan þá teljum við það í hæsta máta óeðlilega skipan. Við leggjum því til að þetta verði með eftirfarandi hætti:

3. mgr. 3. gr. orðist svo:

,,Kjósa skal fimm manns í bankaráð hvors hlutafélagsbanka um sig hlutbundinni kosningu á Alþingi til eins eins árs við stofnun hinna nýju hlutafélagsbanka. Árlega skal Alþingi síðan kjósa þann fjölda bankaráðsmanna sem ríkið á rétt á miðað við eignarhlut sinn í bönkunum, svo lengi sem meiri hluti atkvæðaréttar í félaginu er í höndum ríkisins. Eftir það skal bankaráð kjörið af hluthöfum á aðalfundi. Starfsmannafélög bankanna skulu eiga áheyrnarfulltrúa á fundum bankaráðanna.``

Þar með væri jafnframt lögfest margra ára baráttumál starfsmannafélaga bankanna að þau geti átt áheyrnaraðild að stjórnum þessara stofnana eins og er alsiða og flokkast undir sjálfsögð nútímaviðhorf um lýðræði á vinnustað. Einnig að þessu leyti daufheyrðist meiri hlutinn algjörlega við óskum starfsmanna og það segir meira en mörg orð, herra forseti, um þá forneskju sem ríkir hjá hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að öllu sem lýtur að eðlilegu samráði við starfsfólk, öllu sem flokka mætti undir lýðræði á vinnustað, starfsmannalýðræði og öðru því um líku.

[19:00]

Í þriðja lagi, herra forseti, leggjum við svo til að við 9. gr. bætist nýr málsliður. Þar er verið að fjalla um bankastjórana og það sem að þeim lýtur og það mundi þá orðast þannig:

,,Þrátt fyrir ákvæði 29. gr. laga nr. 113/1996 skal aðeins ráða einn bankastjóra að hvorum hinna nýju hlutafélagabanka.``

Þetta þýddi þá að í upphafinu yrði aðeins ráðinn einn bankastjóri að hvorum banka og allri óvissu um það mál eytt. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það verður auðvitað athyglisvert, ég segi nú ekki gaman en alla vega athyglisvert þegar þessi tillaga kemur til atkvæða, hvernig þeir menn sem eru flæktir í eigin yfirlýsingum og hástemmdum fjálglegum lýsingum á því hversu sjálfsagt það sé að þarna eigi að vera einn skipstjóri á skútunni munu nú greiða atkvæði. Verður það í samræmi við þá sannfæringu sem þeir hafa væntanlega verið að lýsa, þessir hv. þingmenn, eða verða það hlekkir handjárnanna sem ráða?

Loks, herra forseti, legg ég til í brtt. á þskj. 983, í fjórða lagi, að gerð verði lítils háttar breyting á 11. gr. Hún lýtur að þeim skuldbindingum sem ríkissjóður ber gagnvart Landsbanka Íslands, þ.e. eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og svo skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands gagnvart eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbankans. Sama gildir í raun um lífeyrisskuldbindingar ríkisviðskiptabankanna.

Sú hugmynd kom fram í hv. efh.- og viðskn., er færð þangað inn bæði af talsmönnum Búnaðarbankans hygg ég og eins tekið undir hana af starfsfólki, að það kynni að vera ástæða til að heimildargrein kæmi inn í frv. eða inn í lögin sem opnaði fyrir þann möguleika að ríkissjóður gæti gert upp þessa ábyrgð eða skuldbindingu sína með hlutafé í hinum nýju bönkum, þ.e. að eftirlaunasjóðnum yrði afhent til eignar hlutabréf í viðkomandi hlutafélagabanka á grundvelli samkomulags sem gert yrði um það að með því væri ríkissjóður leystur undan ábyrgðinni. Þetta hefði þann kost í för með sér m.a. að þá gerðust þessir aðilar, starfsmennirnir ef svo má að orði komast, eigendur að viðkomandi bönkum í gegnum eftirlaunasjóð sinn. Þetta gæti verið upphafið að því sem má telja eðlilegt að fyrstu meðeigendur ríkisins að þessum stofnunum, ef einhverjir verða, verði starfsmenn, lífeyrissjóðir þeirra eða eftirlaunasjóðir þeirra. Hér yrði að sjálfsögðu eingöngu um heimildarákvæði að ræða og það yrði að ráðast af því hvort viðunandi samkomulag tækist hvort þessi heimild yrði nýtt eða ekki. Ég sé í fljótu bragði ekkert því til fyrirstöðu að hún sé þarna fyrir hendi og þar af leiðandi legg ég til að það verði gert með viðbótarmálsgrein í 11. gr. frv.

Herra forseti. Að lokum þetta. 2. minni hluti leggst í sjálfu sér ekki gegn breytingu þessara stofnana í hlutafélög ef þannig væri að því staðið að önnur markmið sem við teljum að þurfi að tengjast málinu væru uppfyllt.

Hins vegar þurfa öll þessi mál miklu betri skoðun og sú aðferð sem hér er á borðinu orkar að mörgu leyti tvímælis. Hér er því miður ekki á ferðinni sú uppstokkun og sú hagræðing sem mikið hefur verið talað fyrir og marga hefur dreymt um og mikil þörf er á samanber alla mælivísa í samanburði á þessu sviði. Hér er ekki á ferðinni mjög fagleg nálgun ef litið er til þess sem er að gerast í þróun þessara mála. Hér virðast því miður vera á ferðinni að einhverju leyti hrossakaup stjórnarflokkanna, helmingaskiptaflokkanna, og að verulegu leyti er fólgin tímaskekkja í þessum breytingum til að mynda hvað varðar stofnun Fjárfestingarbankans hf., forneskja af ýmsu tagi sem hlýtur að valda miklum vonbrigðum að hæstv. ríkisstjórn skuli vera að reyna að olnboga hér í gegnum Alþingi á þessum vordögum 1997.

Fleira held ég, herra forseti, að ég hafi þá ekki að segja um þetta mál að svo stöddu, en það verður býsna fróðlegt að sjá hvaða hugur fylgir máli hvað varðar afgreiðslu á þessu frv. því að ekki hefur verið svo lítið talað af hálfu ýmissa í þjóðfélaginu undanfarin ár um nauðsyn breytinga á þessu sviði. En það má með sanni segja eins og áður mun hafa verið sagt í umræðum um þessi mál að í raun og veru þegar fjallið loksins tók jóðsóttina, þá hafi fæðst lítil mús.