Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 17:38:56 (5637)

1997-04-22 17:38:56# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:38]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má svo sem lesa upp úr þessari ræðu. Hún er hér innan handar og menn mega rifja það upp ef menn vilja. En við skulum sleppa því. Hitt má vera ljóst af þessari ræðu að það er ekki tilviljun að ekki tókst að breyta þessu fyrr. Frumvörp hafa margsinnis verið sett fram en þau hafa ekki fengið fram ganga af því að ekki náðist um þau samstaða af einum eða öðrum ástæðum. Því er það augljóst og þarf engan að undra þó að það hafi verið erfitt fyrir núv. ríkisstjórn, fyrir núv. stjórnarmeirihluta að ná saman um á hvern veg við ætluðum að breyta þessu. Það var erfitt. Það er enginn að draga dul á það. Þess vegna skulu menn gera sér grein fyrir því að þegar menn ná samkomulagi um svo viðkvæma hluti, þá er eðlilegt að við 2. umr. komi stjórnarmeirihlutinn ekki með róttækar breytingar um texta á einu frv. Það er mjög eðlilegt. Við reynum að breyta sem allra minnstu vegna þess að það tók tíma og var erfitt að ná því samkomulagi sem lá til grundvallar því að frv. var flutt.