Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 18:59:27 (5650)

1997-04-22 18:59:27# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:59]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir þessa ágætu ræðu. Það kom mjög margt fram í henni sem var út af fyrir sig umræðu vert og nauðsynlegt að fara yfir.

Það fyrsta var að hann vísaði á bug því sem við höfðum kallað helmingaskiptakerfið og taldi að þetta væri klisja sem ætti hvergi neinar rætur í veruleikanum eða alla vega ekki eins miklar og við vildum vera láta. (EOK: Ekki um bankana.) Og það ætti sérstaklega ekki við um bankana. Ef við víkjum aðeins að því þá tel ég óhjákvæmilegt að rifja það upp að í rauninni varð nútímavaldakerfi til á Íslandi með beinum eða óbeinum samningum á milli Sjálfstfl. og Framsfl. Í því sambandi er ég með í huga helmingaskiptastjórnirnar 1951--1956. Það er hægt að nefna mörg dæmi þessu til sönnunar, en ég er líka að hugsa um fleiri hluti. Ég er líka að hugsa um það sem kallað hefur verið félagskerfi landbúnaðarins og var komið á laggirnar með samningum þessara flokka á árunum 1946--1949. Ég held því fram að það hafi verið undirstaðan að mörgu leyti undir valdakerfi Framsfl. á Íslandi um langt árabil.

Þegar Eysteinn Jónsson gerði grein fyrir því mörgum árum seinna hvað hefði skipt mestu máli um ríkisstjórnina 1946--1949, þá nefndi hann þetta sérstaklega, félagskerfi landbúnaðarins. Ég var dálítið yngri en ég er núna þegar ég var að lesa þetta og þetta heiti límdist í mig því að á bak við þetta félagskerfi landbúnaðarins voru öll þessi búnaðar- og mjólkurgjöld út og suður, kjötgjöld og hvað það nú heitir, girðingar og súrheysturnar, sem menn komu hér á og töldu vera undirstöðu félagslegrar þjónustu og hv. formaður landbn. kann miklu betur en ég. Ég er alveg sannfærður um að þessir flokkar réðu þarna algerlega úrslitum um tilveru hvors annars.

Ég ætla líka að nefna annað dæmi. Það er sjávarútvegurinn, átökin um sölukerfið í sjávarútveginum. Þar var í raun og veru um það að ræða að þessi stórveldi skiptu landinu á milli sín í áhrifasvæði eins og stórveldin gerðu forðum. Það er líka hægt að halda því fram, t.d. í versluninni, að um væri að ræða bein á tök á milli þessara aðila, Framsfl. og Sjálfstfl. Ég sé að hæstv. sjútvrh. er farinn úr salnum, en hvaðan þekkja menn betri dæmi um átökin í verslun en þó í raun og veru um viðurkennda skiptingu í áhrifasvæði heldur en t.d. í Árnessýslu, í Rangárvallasýslu og á fleiri slíkum svæðum í landinu. Ég tala nú ekki um í Reykjavík þar sem kaupfélagið var um tíma allsterkt. Það er ekki nokkur leið önnur en halda því fram að þessir flokkar höfðu mikil völd saman.

Ég ætla ekki að fara á krepputímann eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði um daginn þegar hann fór að rifja upp Kveldúlf og stöðu Ólafs Thors og Jónasar Jónssonar gagnvart Landsbankanum. Ég ætla ekki að fara í það því að það er annar tími en sá sem ég er að tala um.

Síðan segir hv. þm. að þetta kerfi hafi verið með þeim hætti að allir tóku þátt í því og það var óhjákvæmilegt fyrir flokkana að taka þátt í þessu kerfi. Það rétt að því leytinu til að flokkarnir kusu menn í bankaráð, í stjórnir fyrirtækja og áttu þannig aðild að þessu valdakerfi. Ég tel að því megi halda fram að flokkarnir beri þannig séð allmikla ábyrgð á þessu en þó verði að viðurkenna það með allri sanngirni að Sjálfstfl. ber höfuð og herðar yfir aðra flokka af því að hann er langstærstur og ber þarna langþyngsta ábyrgð. Vegna þess að fyrir utan þessi valdakerfi hafði Sjálfstfl. alveg frá árinu 1940 ekki aðeins vald í atvinnurekendasamtökunum heldur einnig verkalýðshreyfingunni þannig að staða og völd Sjálfstfl voru langt umfram það sem kannski sést í fljótu bragði. Hann kemur alls staðar við sögu. Hann er í öllum ríkisfyrirtækjum, Ríkisútvarpinu, öllum verksmiðjum sem ríkið átti á þessum tíma, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni. Alls staðar var Sjálfstfl. inni auk þess sem hann átti þá undirstöðu valdanna sem öllu skipti, það var Morgunblaðið.

Framsfl. hefur verið næstlengst aðili að ríkisstjórnum á þessum áratugum sem við erum hér að tala um og hefur þar af leiðandi komið sínum mönnum, eins og það er kallað, fyrir í þessu valdakerfi mjög skipulega og á mjög opinn hátt, að ég segi ekki meira. Það er greinilegt þegar maður skoðar t.d. þróun ríkisbankanna og Seðlabankans að staðan er þannig að þessir tveir flokkar hafa haft þarna úrslitastöðu. Ef við tökum hins vegar Alþfl. í þessu sambandi er það mjög greinilegt að hann hefur mjög lengi verið aðili að ríkisstjórnum og í gegnum það hefur hann komist víða í valdakerfið, bæði í bankastjórnir og í sendiráð. Það er nokkurt umhugsunarefni að ef við skoðum sögu foringja Alþfl. frá í upphafi hafa þeir flestallir lokið sínum starfsdegi ýmist sem bankastjórar eða sendiherrar. Það er umhugsunarefni. Það er líka umhugsunarefni, herra forseti, að þessi veruleiki er að breytast og það er ekki aðeins hinum góðum markaðsöflum að þakka heldur er það hinni almennu lýðræðisþróun að þakka og menn segjast í orði kveðnu vera sammála því að þetta sé að breytast og það sé gott að það breytist. Og ég held að ég tali fyrir hönd míns þingflokks, ef ég má leyfa mér það í framhaldi af gagnrýni hv. 16. þm. Reykv. áðan, og sé óhætt að segja fyrir okkar hönd að við viljum taka þátt í þessari þróun. En það sem ég er að segja að einhverju leyti núna, hvort sem það er sanngjarnt af okkur hvernig við setjum það fram, er að mér finnst að stjórnarmeirihlutinn sé að framlengja þetta gamla kerfi, hann sé að framlengja gömlu helmingaskiptin, gamla klíkuveldið eða hvað það nú er.

Í umræðum um bankamálin fyrr í dag tók ég mér í munn orðið ,,klíkuveldi`` og ég játa að ég er dálítið upptekinn af því eftir að hafa lesið nýlega bók eftir dr. Ívar Jónsson, sem er vararektor háskólans á Grænlandi, Íslendingur, og hefur skrifað rit sem heitir: ,,Vest-Norðurlönd í kreppu.`` Það sem hann telur aðalvanda Vest-Norðurlanda, þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands, er hvað klíkuskapurinn ræður miklu og hve erfitt er að byggja upp faglegar þróunarlínur í málum, sérstaklega í efnahagsmálum, af því að klíkuskapur og tengsl á milli manna ráði mjög miklu. Hann nefnir óteljandi dæmi um t.d. Grænland og Færeyjar sem ég þekki pínulítið til. Hann nefnir líka dæmi um Ísland en þau eru öðruvísi og má segja kannski að við njótum þess að nokkru leyti að því er þetta varðar að við erum þó þrátt fyrir allt aðeins fleiri þannig að það hefur verið auðveldara að byggja hér upp faglegar þróunarlínur en t.d. á Grænlandi af eðlilegum ástæðum.

Mér er það í minni hvað það var erfitt og hefur verið erfitt oft og tíðum fyrir ráðherra á Íslandi að byggja upp faglegar þróunarlínur í sambandi við sína málaflokka vegna kjördæmasjónarmiða. Mér er það í fersku minni þegar ég lagði fram áætlun um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða í ríkisstjórn árið 1980, fyrir bráðum tveimur áratugum síðan. Ég man eftir því að móttökurnar voru ekki sérstaklega hlýjar vegna þess að þar var ekki um það að ræða að horft væri á sjónarmið og hagsmuni kjördæmanna eins og þeir sem sátu við það borð vildu. Ég er alveg sannfærður um að þessi þröngu sjónarmið sem ég kalla klíkuveldi --- og er að mínu mati betri þýðing á orðinu nepótismi en oft er notað, það er orðið sem ég er með í huga svo ég noti þetta erlenda orð til skýringar --- þessi kunningjaklíkuskapur hafi ráðið ótrúlega miklu við að eyðileggja fyrir Íslendingum og gera hlutina dýrari en þeir þyrftu að vera. (Gripið fram í.) Út af fyrir sig getur hann líka verið mál í sjálfu sér en því miður er Alþb. svo valdalítið að það hefur ekki mikil áhrif á þessi mál sem við erum að ræða núna. Við getum líka rætt um nepótismann í Hafnarfirði en það er bara akademísk æfing sem breytir engu um þetta mál hér eins og hv. þm. veit.

Veruleikinn er með öðrum orðum þessi og ég óttast að verið sé að framlengja stjórnkerfi íslenskra peningastofnana, sérstaklega fjárfestingarlánasjóðanna, inn í þetta klíkuveldi í staðinn fyrir að stökkva inn í nýjan tíma, m.a. með því, eins og hér hefur komið fram að mikil samstaða er um, að setja fjárfestingarlánasjóðina inn í bankana. Það er dálítið skrýtið að upplifa að það virðist vera alger samstaða um það hér --- eða svo að segja, er það ekki? En menn fást ekki til að taka á því máli með þeim hætti sem þó er meiri hluti fyrir. Það er einhver þverbiti sem kemur í veg fyrir að menn nái vopnum sínum og komist að niðurstöðum sem hagkvæmastar eru því að það er líka viðurkennt af öllum að þetta er dýrasta kerfið sem hugsast getur sem verið er að koma upp eins og þetta lítur út hér núna, það er viðurkennt, kostar 1,5 milljarða á ári aukalega frá því sem það mundi kosta að spara til hins ýtrasta í ríkisbönkunum annars vegar og í þessu hins vegar.

Þá bendir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mér á að ef þetta væri sent til ríkisstjórnarinnar aftur mundi sama hjakkið byrja aftur. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Þetta er ágætt sjónarmið manna sem hafa gaman af því að sjá eitthvað ganga á undan sér, reka á eftir hlutunum. Ég tel langheppilegast að kosin yrði nefnd á Alþingi sem semdi frv. hið snarasta um það sem allir virðast sammála um, en af einhverjum ástæðum fá ekki þessi viðhorf að njóta sín. Ég mundi því skora á hv. þm. að flytja slíkt frv. og ég skal flytja það með honum, herra forseti.