Breytingartillaga við 407. mál

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:56:24 (5674)

1997-04-23 15:56:24# 121. lþ. 111.91 fundur 300#B breytingartillaga við 407. mál# (aths. um störf þingsins), EOK
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[15:56]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og allir vita er þetta mál á dagskrá. Hér fer fram efnisleg umræða og það þyrfti ekki að vefjast fyrir mönnum hvaða tillaga er hér á ferðinni. Hún var reyndar rædd hér lítillega bæði í gær og í fyrradag þannig að ég fæ ekki séð hvað umræða um störf þingsins skiptir hér máli. Ég hef þá ekki skilið þessi fundarsköp rétt. Ég hélt að ef við ætluðum að ræða þetta hér og nú, þá væri það efnisleg umræða um byggðamál þannig að ég misskil þetta þá allt saman.

Við höfum lagt fram mjög skýra tillögu og ástæðurnar fyrir því hvers vegna eru alveg ljósar og komu fram í þingskjalinu. Það er ekkert viðkomandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum. Það kemur alveg greinilega fram hverjir flytja þetta mál. Brtt. kemur frá meiri hluta efh.- og viðskn. Það fer ekkert á milli mála og ástæðurnar fyrir því að þetta er flutt eru raktar líka þannig að hér er verið að tala um stuðning við landsbyggðina, stuðning í þá veru að ef, og menn trúa því að svo sé, að um raunhæft nýsköpunarverkefni sé að ræða þá eigi að leita allra þeirra leiða til þess að treysta búsetu manna á landinu vegna þess að búsetumunstrið er hlutur sem allar ríkisstjórnir í Evrópu, allir stjórnmálaflokkar í Evrópu, reyna af fremsta megni að viðhalda vegna þess að menn vita að það hefur mjög mikið að segja fyrir framtíð efnahags hverrar þjóðar að svo sé.