Helgidagafriður

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:25:43 (5738)

1997-05-02 15:25:43# 121. lþ. 115.7 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:25]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það var svona um það bil að ég tæki mig út af mælendaskrá þegar í ljós kom að allir þeir sem höfðu kvatt sér hljóðs þegar þetta mál var til umræðu fyrir viku voru horfnir á braut og mundu ekki ræða málið frekar. Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð.

Hér er á ferðinni tillaga frá Einari K. Guðfinnssyni um að gera breytingu á frv. til laga um helgidagafrið þannig að helgi föstudagsins langa nái fram til miðnættis í stað kl. 6 að morgni næsta dags, þ.e. laugardags.

Flm. benti á að eðlilegt væri að helgi hátíðardaganna væri jafngild, þ.e. helgi páskadagsins er frá kl. 24.00 til kl. 24.00 að kvöldi páskadags. Sama gildir um hvítasunnudaginn að helgi hans er frá kl. 24 og til kl. 24 að kvöldi hvítasunnudags. Tillaga flm. er að það sama gildi um helgi föstudagsins langa.

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn skilning á því sem ég tel að liggi að baki þessari tillögu. Flm. komst ágætlega að orði með það að víða úti um land væru hefðir sem byggðust á því að helgi föstudagsins langa lyki kl. 24. Ég þekki það, ég hef alist upp við það. Ég ólst upp við það að helgi föstudagsins langa var mjög mikil í mínu uppvaxtarbyggðarlagi og engu minni en annars staðar en henni lauk kl. 24 og þá var hefð fyrir því að þá væri, maður getur sagt samkomuhald. Ég er alveg sannfærð um að það skaðaði engan að alast upp við þessar aðstæður, en ég held að við eigum öll yndislegar og góðar minningar frá góðum tíma sérstakra páskadaga vestur á Ísafirði. Auðvitað er ekki verið að gera breytingu á lögum vegna einhvers byggðarlags. Ég undirstrika það. Það er verið að gera tillögu um breytingu á lögum til þess að helgi hátíðisdaganna verði jafngild og nái til eins sólarhrings hver um sig. Ég styð þessa brtt., virðulegi forseti, og þarf ekki að hafa um hana fleiri orð.