Könnun á orsökum búferlaflutninga

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:38:38 (5938)

1997-05-07 13:38:38# 121. lþ. 118.1 fundur 484. mál: #A könnun á orsökum búferlaflutninga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:38]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það má segja að sú fyrirspurn sem hér er til umræðu sé lögð fram í tíma og er ástæða til þess að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli í framhaldi af þáltill. hans á síðasta þingi. Þó að niðurstöður liggi ekki endanlega fyrir úr þeirri könnun sem hefur verið unnin á vegum Byggðastofnunar, þá er ljóst að það eru ýmsir þættir sem ráða öðrum fremur um það að fólk kýs að flytja sig á milli staða, frá einum stað til annars. Það er greinilegt að það er atvinna, það þarf fjölbreytt atvinnulíf, það eru tekjur og það er í þriðja lagi, sem virðist vera mjög mikilvægt, menntakerfið eða skólakerfið, að til staðar sé skólakerfi á framhaldsskólastigi og jafnvel ofar, ekki of langt í burtu. Svo held ég í fjórða lagi að afþreying virðist skipti gríðarlega miklu máli við mat fólks á þeim stað þar sem það býr.