Stefnumótandi byggðaáætlun

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:56:24 (5946)

1997-05-07 13:56:24# 121. lþ. 118.3 fundur 587. mál: #A stefnumótandi byggðaáætlun# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur lagt fram tvær spurningar. Sú fyrri er: Hvernig hefur gengið að framfylgja því meginmarkmiði stefnumótandi byggðaáætlunar, sem samþykkt var á Alþingi í maí 1994, að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins, til hvaða aðgerða hefur verið gripið í því skyni og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ekki hefur tekist að draga úr fólksflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þvert á móti hafa þeir farið vaxandi ár frá ári undanfarin ár. Höfuðborgarsvæðið hefur þróast á þann hátt að það hefur getað tekið á móti fólki sem þangað flyst af landsbyggðinni þótt atvinnuleysi sé þar einnig vandmál. Þessir tilflutningar eru aðallega áhyggjuefni vegna afleiðinga á þeim svæðum og stöðum sem flutt er frá. Víða á landsbyggðinni hefur ríkt stöðnun og fækkun og grundvöllur ýmissar atvinnustarfsemi og félagslífs hefur því brostið. Ekki er því til að dreifa nema með örfáum undantekningum að undirstöðuatvinnufyrirtækin hafi brugðist.

Á undanförnum árum hefur staða sjávarútvegsfyrirtækja víðast batnað mjög og á sumum stöðum hafa þau eflst verulega. Samdráttur hefur verið í sauðfjárrækt og úrvinnslugreinum henni tengdum en sú þróun getur ekki skýrt nema lítinn hluta brottflutnings af landsbyggðinni.

Byggðastofnun hefur látið gera umfangsmikla könnun á ástæðum búferlaflutninga í þeim tilgangi að gera stjórnvöldum betur grein fyrir því til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að hafa áhrif á fólksflutninga. Niðurstöður þessara kannana liggja ekki fyrir enn þá, eins og hv. málshefjanda er best kunnugt, en vissar frumniðurstöður voru þó kynntar fyrir skemmstu á ráðstefnu um þróun byggðar á Akureyri og voru lítillega ræddar fyrr á fundinum.

Ég held að öllum hafi verið ljóst þegar Alþingi samþykkti það markmið sem hv. þm. vitnar til að straumur fólks frá landsbyggð til höfuðborgar væri þungur og enginn hægðarleikur væri að draga úr honum. Starfsemi Byggðastofnunar hefur haft að markmiði að leitast við að draga úr þessum straumi og jafnvel stöðva hann og margar ákvarðanir sem teknar hafa verið af framkvæmdarvaldinu og Alþingi hafa miðað að hinu sama, þ.e. sporna gegn flutningi fólks af landsbyggðinni. Má nefna þar margvísleg dæmi svo sem jarðgangagerð á Vestfjörðum og fleira. Meginmáli skiptir þó þau miklu umskipti sem hafa orðið í efnahagslífi til batnaðar með stöðugleika, lágri verðbólgu og bættum kjörum fyrirtækjanna almennt því ekkert er líklegra til þess en stuðla að traustri byggð en einmitt aðgerðir af því tagi.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hvernig hefur miðað þeim aðgerðum sem samþykktar voru í stefnumótandi byggðaáætlun til að auka opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana á landsbyggðinni og draga að sama skapi úr sömu þjónustu og starfsemi á höfuðborgarsvæðinu? Hvernig hefur gengið að koma á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt?

Sá tími sem liðinn er frá því að stefnumótandi byggða\-áætlun var samþykkt á Alþingi hefur verið tími endurskipulagningar og samdráttar í opinberum fjárveitingum. Þessi samdráttur hefur að mörgu leyti komið hart niður á höfuðborgarsvæðinu eins og landsbyggðinni. Hins vegar eru ýmsir þættir opinberrar þjónustu þess eðlis að fjöldi starfsmannanna fylgir íbúafjöldanum og af þeim sökum hefur opinberum störfum fjölgað í þéttbýlinu og fækkað í strjálbýli. Þegar horft hefur verið til möguleika á tilfærslu á störfum frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðarinnar hefur verið horft til verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga annars vegar og staðsetningar opinberrar þjónustu hins vegar.

Ljóst er að víða í sveitarfélögum er mikill áhugi á verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga og sú reynsla sem fengist hefur af tilflutningi verkefna til reynslusveitarfélaga lofar um margt góðu. Fullur vilji er til þess í ríkisstjórninni að flytja verkefni til sveitarfélaganna eftir því sem bolmagn þeirra leyfir, en hjá hinu verður ekki litið að víða eru slíkum möguleikum verulega skorður settar vegna smæðar sveitarfélaganna og tregðu til að sameina þau. Þar sem reynsla er komin á verkefnatilflutning í reynslusveitarfélögunum sést að nýjum verkefnum fylgja ný störf. E.t.v. er í þessu sambandi helst ástæða til að hafa áhyggjur af því að störfum fækki ekki annars staðar með samsvarandi hætti.

Flutningur stofnunar er ekki einfalt mál eins og þingheimi er kunnugt. Hversu langt menn vilja ganga í að taka upp stofnanir og flytja þær ræðst væntanlega af þeirri reynslu sem nú er fengin, en hún getur ekki talist jákvæð að öllu leyti. Ég hygg að fáir séu þess fýsandi að ganga mjög langt á þeirri braut. Öðru gegnir um staðsetningu á nýrri þjónustu og sjálfsagt ættum við að ganga lengra í þá átt að skoða staðsetningu nýrra stofnana með opnum huga og um það hefur mjög verið rætt. Breytingar í fjarskipta- og upplýsingatækni breyta hér miklu og við þurfum að gæta þess að þær breytingar komi rétt niður en virki ekki þvert gegn þeim markmiðum sem við höfum verið að setja okkur.

Varðandi svæðisskrifstofur og samstarf stofnana á landsbyggðinni vil ég taka fram að víða hafa myndast eins konar stjórnsýslukjarnar á landsbyggðinni og er jákvætt að það gerist. Hins vegar tel ég að þetta eigi að vera stofnunum í sjálfsvald sett og að ráðuneytið eigi ekki að beita valdboði hvað þetta mál snertir. Það er í samræmi við hugmyndir manna um valddreifingu og aukið sjálfræði og ábyrgð stofnana að eftirláta þeim að taka ákvarðanir um samstarf við aðrar stofnanir. Það er hins vegar jákvætt í sjálfu sér að stofnanirnar sjái sér góðan hag í slíku samstarfi.