1997-05-07 15:02:36# 121. lþ. 118.8 fundur 588. mál: #A fjárveiting til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:02]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að engu af þessu fé hefur enn verið úthlutað. Er ástæðan sú að ekki er nema rétt rúm vika síðan að ákvörðun var tekin um það af stjórn Landsvirkjunar hver arðurinn yrði. Sú formlega ákvörðun var ekki tekin fyrr en á ársfundi Landsvirkjunar fyrir rúmri viku síðan hver arður eignaraðila af fyrirtækinu yrði.

Þau svæði sem þarna um ræðir eru öll svæði að mínu viti fyrir utan höfuðborgarsvæðið, þ.e. höfuðborgarsvæðið er það svæði fyrst og fremst sem nýtur ábatans af uppbyggingu stóriðjunnar þannig að öll svæði á landsbyggðinni eru undir í þeim efnum.

Varðandi reglur þær sem farið verður eftir við úthlutunina, þá gerði ég grein fyrir því áðan að stuðst verði við þær reglur sem við höfum notað við úthlutun slíkra styrkja þegar ráðstafað var þeim fjármunum sem voru til markaðskynningar fyrir íslensk fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu. Við það verður stuðst. Sum af þessum verkefnum hafa nú þegar verið kynnt. Nokkuð af þessum fjármunum verður notað í verkefni sem nú þegar eru í gangi til að halda þeim áfram. Þeir hlutir eru allir í undirbúningi en þegar að því kemur að menn eru tilbúnir til að ráðstafa þessum fjármunum verður auglýst eftir umsóknum þar sem er um beina styrki að ræða.

Hér er ekki um það að ræða að einn ráðherra ráðstafi 80 millj. kr. Þetta er vistað undir 6. gr. fjárlaga og gert ráð fyrir því að úthlutunin verði grundvölluð á tillögum iðnrh. en þær tillögur verða bornar undir ríkisstjórnina, fyrir utan það að þessum fjármunum verður ráðstafað, eins og ég sagði áðan, í samvinnu við og í gegnum þau verkefni sem nú þegar eru í gangi eins og Átak til atvinnusköpunar, Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og Fjárfestingarskrifstofu Íslands. Það er því ekki einn ráðherra sem fer með þetta vald.