Staða þjóðkirkjunnar

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 19:20:56 (5989)

1997-05-07 19:20:56# 121. lþ. 119.25 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að mjög vel hefur verið unnið að smíði þessa lagafrv. í allshn. Alþingis og þar hefur verið reynt að skapa sem breiðastan samkomulagsgrundvöll, enda varð niðurstaðan sú að allir nefndarmenn skrifa undir álit allshn. en þrír gera það engu að síður með fyrirvara. Ég er einn af þeim og ætla nú að gera grein fyrir ástæðu þess að ég skrifa undir álitið með fyrirvara.

Þess er fyrst að geta að meginatriði frv. er að með því er verið að færa vald yfir málefnum kirkjunnar til kirkjunnar sjálfrar. Þá mætti í sjálfu sér spyrja sem svo: Hvernig stendur þá á því að nefndin og þess vegna Alþingi fer ekki að vilja kirkjunnar í einu og öllu þannig að menn væru sjálfum sér samkvæmir að því leyti? Alþingi er að færa vald kirkjunnar til hennar sjálfrar. Hvers vegna tekur Alþingi ekki tillit til ábendinga og sjónarmiða frá kirkjunni og stofnunum hennar varðandi frv. í heild sinni? En í meðförum allshn. hafa verið gerðar breytingar á þeim tillögum sem komu frá kirkjunni og stofnunum hennar.

Til dæmis má þar nefna ráðningarmáta presta. Í tillögum kirkjunnar er gert ráð fyrir æviráðningu presta. Í tillögum frá allshn. er gert ráð fyrir því að prestar verði ráðnir til fimm ára en þá verði hægt að segja þeim upp störfum, með sérstökum aðferðum þó --- ýmsir fyrirvarar á því. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er andvígur fimm ára ráðningu almennt. Fimm ára ráðning hjá embættismönnum byggir á ákveðnum rökum og ákveðinni hugsun. Hún er sú að embættismenn eru, þegar á heildina er litið og lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skoðuð þar sem embættismenn eru skilgreindir, yfirleitt stjórnendur stofnana. Hugsunin að baki fimm ára ráðningunni er sú að meiri hreyfing verði í stjórnunarliði hjá ríkinu en verið hefur. Menn verði hugsanlega og í ríkari mæli en verið hefur látnir víkja að fimm árum liðnum. Þetta er hugsunin á bak við fimm ára regluna.

Þetta er hins vegar ekki hugsunin varðandi prestana. Það er ekki verið að reyna að tryggja að það verði tíðari mannabreytingar innan kirkjunnar en verið hefur, heldur er þetta dæmigert fyrir ákveðna kerfismennsku. Við komumst ekki út úr þeim farvegi. Prestar hafa verið skilgreindir sem embættismenn og til þess að samræmi sé í hlutunum, þá skuli þeir einnig ráðnir til fimm ára eins og forstjórar og forstöðumenn ríkisstofnana. Þetta held ég að sé skýringin á þessu. Þetta byggir ekki á neinum rökum öðrum en þessari tengingu við stjórnendur opinberra stofnana, að þeir verði skilgreindir sem embættismenn á sama hátt og prestar.

Mér finnst mikilvægt að tryggja starfsöryggi presta sem annarra starfsmanna. Ég held að starfsöryggi presta væri betur tryggt einfaldlega með því að þeim væri hægt að segja upp með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti eins og gerist almennt hjá starfsmönnum ríkisins og síðan væri það á hendi biskupsembættisins t.d. að fara með það vald. Ég held að með því að setja fallöxina upp á fimm ára fresti sé verið að skapa þessum starfsmönnum óþarfa óöryggi og vekja upp þá spurningu í söfnuðinum með reglulegu millibili, á fimm ára fresti, hvort menn séu nú örugglega ánægðir með prestinn sinn, hvort ekki þurfi að endurskoða ráðningu hans. Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma þá held ég að gagnkvæmur þriggja mánaða uppsagnarfrestur sem væri á vegum biskupsembættisins, væri meiri vörn fyrir prestinn en þessi fimm ára embættismannaráðning. Ég vil því lýsa andstöðu minni við þetta ákvæði frv.

Þá vil ég gera annað meginatriði þessa frv. að umtalsefni. Fyrra meginatriðið er að verið er að færa vald yfir málefni kirkjunnar til hennar sjálfrar, en hitt er náttúrlega stóra málið að með frv. er í reynd verið að aðskilja ríki og kirkju. Í reynd er verið að aðskilja ríki og kirkju að öllu leyti nema að forminu einu, það er verið að gera það. Að mörgu leyti er þetta mjög snöll leið sem þarna er farin í því efni. En hvers vegna segi ég þetta? Jú, vegna þess að hvað svo sem gerist um hin formlegu tengsl á milli ríkis og kirkju, þá er með frv. og með þessum lögum búið að tryggja fjárhagslegan grundvöll kirkjunnar um alla framtíð. Út á það gengur þetta frv. Og það er gert með 3. frumvarpsgreininni, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag sem miðist við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.

Launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skal hagað samkvæmt því sem greinir í 61. gr.``

Hvað skyldi vera kveðið á um í 61. gr.? Þar er kveðið á um greiðslur til biskups og vígslubiskupa og tiltekins fjölda starfandi presta og prófasta auk nokkurra annarra starfsmanna kirkjunnar, 18 starfsmanna biskupsstofu og í greininni er sett ákveðin fólksfjölgunarvísitala. Það byggir á því að fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um tiltekinn fjölda, um 5.000 eins og þarna greinir, miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests við viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Grunnurinn er lagður þarna og síðan er kirkjan vísitölutryggð á þennan hátt. Fjölgi meðlimum þjóðkirkjunnar um tiltekinn fjölda þá verði prestum fjölgað.

[19:30]

Á hverju byggir þessi fjárhagslegi grunnur? Jú, hann byggir á samkomulagi sem íslenska ríkið og þjóðkirkjan gerðu með sér og gengið var frá 10. janúar 1997. Í 4. gr., af fimm greinum þess samkomulags, segir, með leyfi forseta:

,,Aðildar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess,`` --- ekki 4. gr. en öðrum þáttum, svo sem þessari vísitölubindingu sem ég vék að áðan en ekki þessari grein.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék nokkuð að þessu samkomulagi í ræðu sinni fyrr í dag og sagði að fram hefðu komið ýmsar og nokkuð skiptar skoðanir um þetta samkomulag, en kirkjunnar menn velkjast ekki í vafa um út á hvað það gengur. Í áliti sem frá kirkjunnar mönnum er komið segir m.a., með leyfi forseta:

,,Launagreiðslur ríkisins byggjast á afhendingu kirkjujarðanna. Hér er um kaup kaups að ræða. Samkomulagið mun standa að óbreyttu, jafnvel þótt numin verði úr gildi ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd og stuðning ríkisins við kirkjuna og hún yrði þannig ekki lengur þjóðkirkja. Samkomulagið er þess vegna ekki háð stjórnarskrárákvæðinu um þjóðkirkju.``

Síðar segir, með leyfi forseta: ,,Það er skoðun viðræðunefndar kirkjunnar að samkomulagið frá 10. janúar standi um langa hríð. Kjósi Alþingi að hrinda skuldbindingu ríkisvaldsins varðandi prestslaunin sem felst í samkomulaginu, þá væri grafið undan stjórnarskrárákvæðinu um vernd og stuðning við þjóðkirkju þannig að gjörvallt samband ríkis og kirkju væri í uppnámi. Viðræðunefndin vill þess vegna taka fram að ef framangreindar ástæður sköpuðust yrði að leggja af stað í nýjar kirkjueignaviðræður þar sem fyrrgreind rök um óskerðanlegan höfuðstól kirkjujarðanna sem sannanlega voru kirkjunnar og heyrðu undir kirkjuleg embætti árið 1907 yrðu sett í öndvegi. Þá væri af hálfu kirkjunnar hægt að setja fram kröfu um greiðslu á höfuðstólnum frá 1907.``

Fleiri athugasemdir er að finna í þessari yfirlýsingu en ég ætla ekki að vitna nánar í hana en hér er komin skýringin á því hvers vegna við þrír þingmenn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og ég, leggjum fram brtt. um ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo, með leyfi forseta:

,,Heildarendurskoðun skal fara fram á öllum liðum samkomulags þessa sem íslenska ríkið og þjóðkirkjan gerðu 10. janúar 1997, um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar eigi síðar en að liðnum 15 árum frá undirritun þess, enda hefur ríkið ekki fjárhagslegar skuldbindingar samkvæmt samningnum nema til þess tíma.``

Hér hef ég skýrt að við viljum setja þetta bráðabirgðaákvæði þannig að unnt verði að skoða þessi mál öll í heild sinni að 15 árum liðnum.

Mér finnst mjög mikilvægt að við afgreiðum þetta mál með augun opin, að menn geri sér grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Eins og fram kemur í tilvitnuðum yfirlýsingum frá kirkjunnar mönnum er í reynd verið að tryggja fjárhagslegan grundvöll kirkjunnar jafnvel þótt numin verði úr gildi ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd og stuðning ríkisins við kirkjuna, eins og sagði orðrétt í áður tilvitnuðum skrifum og þannig verið að aðskilja ríki og kirkju að innihaldi til en ekki að forminu til.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði í upphafi að það hefur að mörgu leyti tekist mjög vel til um smíði þessa frv. Í öllu starfi allshn. hefur verið reynt að skapa sem breiðasta sátt um frv. Það hefur verið tekið tillit til sjónarmiða sem fram komu bæði utan þings og einnig innan nefndarinnar og er þar aftur komin skýringin á því að sá er hér talar setti nafn sitt undir álit allshn. þótt með fyrirvara væri.