Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:45:09 (6011)

1997-05-09 14:45:09# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:45]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegur forseti. Þetta eru auðvitað virðingarverð sjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmönnum en málið var rætt vandlega í allshn. og meiri hlutanum þótti rétt að mæla með samþykkt þess. Hér er bara um tímabundið ákvæði að ræða og kirkjuþing mun taka á þessu máli. Á það var bent í allshn. að þetta væri dýrt fyrirkomulag og að prestum hafi fjölgað meira en búist var við og því hafi þurft að breyta áætlunum. Ég held að ég fari rétt með í sambandi við tölur í þessu dæmi að sparnaðurinn sé um það bil 4 millj. kr. Það er því um að ræða um það bil 500 þús. á hvern kandídat og um er að ræða átta kandídata. Það var enn fremur bent á það í allshn. að nefnd væri að störfum sem er að endurskoða reglur í sambandi við þessi mál og hún lýkur væntanlega störfum núna í haust. Þá kom fram að námið hafi breyst og nú sé farið meira í framhaldsnám en áður var og því væntanlega meiri þjálfun. Það þurfi að ákveða framtíðarskipan þessara mála og það muni koma niðurstaða mjög fljótlega um þessi mál. Um þetta segir reyndar í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Í október 1995 var skipuð nefnd til að endurskoða starfsþjálfunina og gera tillögur um nýja skipan. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Hún telur starfsþjálfunina hafa verið mikið framfaraspor á sínum tíma, en í ljós hafi komið ýmsir vankantar. Vegna verulegrar fjölgunar kandídata og þröngs peningaramma hefur nefndin lagt til að þjálfunartíminn verði styttur um helming uns framtíðarskipan hefur verið ákvörðuð.``

Þannig að rökin eru ekki eingöngu fjárhagslegs eðlis heldur koma þarna til önnur rök. Það bárust þrjár umsagnir um málið og, með leyfi virðulegs forseta, vil ég gera hér grein fyrir tveimur þeirra. Það er þegar búið að greina frá andstöðu guðfræðideildarinnar en biskup Íslands segir um þessi mál, með leyfi forseta:

,,Vísað er til athugasemda með fram komnu frv. Þar kemur skýrt fram að unnið er að því innan kirkjunnar að endurskoða starfsþjálfun guðfræðikandídata og hefur kirkjuþing samþykkt að leggja til við hið háa Alþingi að stytta starfsþjálfunartíma úr fjórum mánuðum í tvo á meðan á þeirri endurskoðun stendur og nýrri skipan verður komið á. Ástæða óska um styttingu starfsþjálfunar er sú að mjög brýnt er að spara á þessum lið, en kostnaður við þjálfun kandídatanna hefur farið langt fram úr því sem áætlað var þar sem kandídatarnir eru um það bil helmingi fleiri en ætlað var í upphafi. Starfsþjálfun verður þó ekki skorin niður sem þessu nemur en reynt verður að gera hana markvissari.``

Síðan er bent á að í starfsreglur verði sett ný ákvæði um starfsþjálfun. Það er ekki einungis kirkjan sem kemur að þessu máli heldur er hér umsögn frá leikmannaráði þjóðkirkjunnar þannig að leikmenn koma líka að þessu máli. Þeir segja, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í ljósi þess að nú liggur fyrir frv. til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar þar sem gert er ráð fyrir að þessum málum verði þar skipað samkvæmt ákvæðum í sérstökum starfsreglum sjáum við ekki ástæðu til að gera neina athugasemd við brtt. þá sem hér um ræðir.``

Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum að, virðulegi forseti.