Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:16:58 (6026)

1997-05-09 15:16:58# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:16]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. 5. þm. Vestf. skjöplist svolítið í röksemdafærslunni og er það heldur óvenjulegt. Í því efni er hann jafnvel farinn að minna svolítið á þegar hv. 15. þm. Reykv. fer á flug í sinni röksemdafærslu. Ég vil minna hv. þm. á að rök hans í þessu eru þau að hér sé um að ræða litla sókn sem Skálholtsprestur eigi að þjóna og þess vegna óþarfi að hafa þar prest. En hv. þm. telur hins vegar eðlilegt að halda áfram prestsembætti í Landeyjum þar sem er minni sókn og færri sóknarbörn. Hvernig kemur hv. þm. þessari röksemdafærslu heim og saman? Er ekki eðlilegra við þessar aðstæður að taka prest frá hinni fámennari sókn og setja hann í þá fjölmennari? Það hefði ég haldið út frá þeirri hugsun sem hv. þm. lagði af stað með í umræðunni og mér hefði fundist fara vel á að hann héldi sig við í stað þess að fara í hringi.