Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:18:21 (6027)

1997-05-09 15:18:21# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Því fer víðs fjarri að ég hafi talað fyrir því að prestur ætti að sitja áfram á Bergþórshvoli. Ég minntist ekki einu orði á það sjónarmið þannig að hann hlýtur að hafa heyrt það einhvers staðar annars staðar. Ég einfaldlega árétta það að ég sé ekki rökin fyrir því að vígslubiskup í Skálholti geti ekki þjónað sem prestur fjórum fámennum sóknum og að ráða þurfi prest í heila stöðu til að gera það fyrir hann, sóknum sem eru mjög fámennar þótt ekki hafi verið upplýst hversu margir þar eru en ég ímynda mér að þar séu ekki fleiri 500 manns, kannski færri. En þeir sem leggja þetta til segja að ekki þurfi nema þrjá presta til að sinna 13 þúsund manns. Þar er mótsögnin í málinu, virðulegi forseti, hún er hjá þeim sem flytja málið. Mótsögnin er sú að ekki þurfi fleiri en þrjá presta til að sinna 13 þúsund sóknarbörnum en einn prest til að sinna örfáum og létta þeim störfum af vígslubiskupi. Þetta er mótsögnin sem hefur ekki verið skýrð í þessu máli.