Varðveisla ósnortinna víðerna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:45:09 (6093)

1997-05-12 11:45:09# 121. lþ. 121.10 fundur 27. mál: #A varðveisla ósnortinna víðerna# þál., Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:45]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. umhvn. á þskj. 1073 um till. til þál. um varðveislu ósnortinna víðerna.

Nefndin hefur fjallað um málið og hafa henni borist umsagnir frá Ferðafélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, Náttúruverndarráði, Bændasamtökum Íslands, Landmælingum Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Landvarðafélagi Íslands, Ferðaklúbbnum 4x4, Félagi landfræðinga og Skipulagi ríkisins.

Ég les listann yfir umsagnaraðilana til þess að þess sé getið við þetta tilefni, þó að oft hafi þau verið ríkari, og að fram komi að að baki því starfi sem unnið er hér í þinginu er mikil vinna margra aðila í þjóðfélaginu m.a. í þessu tilfelli. Finnst mér ástæða til að þakka þeim fjölmörgu aðilum sem styðja þingið með þeim hætti og starf umhvn. Þekki ég þar best til á þessu sviði.

Tillagan hefur fengið jákvæðar umsagnir hjá þessum aðilum. Hún felur í sér að mörkuð verði stefna um varðveislu ósnortinna víðerna landsins. Nefndin telur ósnortin víðerni eina af mikilvægustu auðlindum Íslands og mikilvægt að ekki verði gengið á þau nema að vel athuguðu máli. Fyrsta skrefið til varðveislu ósnortinna víðerna er að skilgreina hugtakið og marka stefnu um varðveisluna.

Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með þeirri breytingu að tillagan orðist svo:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að marka stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna landsins. Stofnaður verði starfshópur, skipaður fulltrúum Náttúrufræðistofnunar, Náttúruverndarráðs, Skipulags ríkisins og Landmælinga Íslands undir forustu fulltrúa umhverfisráðuneytisins, sem falið verði það hlutverk að skilgreina hugtakið ósnortið víðerni.``

Undir þetta skrifa Ólafur Örn Haraldsson, Katrín Fjeldsted, Gísli S. Einarsson, Árni M. Mathiesen, Kristín Halldórsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Hjörleifur Guttormsson.