Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 13:00:38 (6104)

1997-05-12 13:00:38# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[13:00]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 19. þm. Reykv. beindi til mín fsp. út af þeim samningi sem fyrir liggur milli ríkisins og kirkjunnar. Ég hef reyndar áður við þessa umræðu svarað fsp. af því tagi. Það er sem sagt ljóst að sú sátt sem gerð var milli ríkis og kirkju 1907 var grundvöllur fyrir því að ríkið tók að sér að greiða laun prestanna, í raun á þann veg að arðurinn af kirkjujörðunum stæði undir þeim skuldbindingum. Það samkomulag sem hér liggur fyrir er staðfesting á þeirri sátt sem verið hefur fyrir hendi allan þennan tíma og breytir ekki í grundvallaratriðum þeirri stöðu. Ég held að það liggi alveg í augum uppi að þó að ríkið geti tekið ákvarðanir um að breyta þessari skipan, það hefur það vald að gera breytingar þar á, þá þurfa menn vitaskuld að setjast niður og ræða hvernig það yrði gert því ríkið getur ekki tekið eignir kirkjunnar og boðist til þess í staðinn að standa undir launagreiðslum presta og einn góðan veðurdag fellt hvort tveggja niður, tekið eignirnar til sín og hætt að greiða laun prestanna. Það þarf þá að finna þeirri skuldbindingu einhvern annan farveg ef til þess kemur. Valdið er auðvitað hjá ríkinu að stíga það skref, en það yrði þá að finna skuldbindingum ríkisins annan farveg því það getur ekki haldið eignunum sem voru forsenda fyrir greiðslunum án þess að eitthvað slíkt komi til.

Það sem gerist með þessum samningi er að skuldbindingar ríkisins hafa verið takmarkaðar. Það hafa verið sett takmörk í samninginn um fjölda presta sem áður voru ekki fyrir hendi og má segja að menn hafi kannski ekki hugsað út í á sínum tíma og það hefur verið komið í veg fyrir að andvirði seldra jarða rynni í Kristnisjóð og kirkjan fengi í raun og veru aftur andvirði þeirra jarða sem yrðu seldar. Nú er það úr sögunni þannig að að því leyti má segja að með þessum samningi séu engar grundvallarbreytingar gerðar frá því sem var gert 1907 að öðru leyti en því að staða ríkisins er afmörkuð og gerð skýrari og má kannski segja að ríkið standi betur eftir þennan samning en áður að þessu leyti.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Hér hafa rök um ýmis álitaefni verið færð fram og ég þarf ekki að lengja þá umræðu. Hitt er aðalatriðið að við erum með samþykkt þessa frv. að stíga sennilega stærsta skref til breytinga á kirkjuréttinum á þessari öld, stærsta skref til aukins sjálfstæðis kirkjunnar, og fyrir þá sök markar meðferð þessa frv. og samþykkt þess tímamót í kirkjuréttinum og í samskiptum ríkis og kirkju.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. nefnd og formanni nefndarinnar fyrir vandaða málsmeðferð og undirbúning og hv. þm. fyrir mjög málefnalega umfjöllun um þetta stóra mál.