Meðferð sjávarafurða

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:32:35 (6120)

1997-05-12 15:32:35# 121. lþ. 121.23 fundur 476. mál: #A meðferð sjávarafurða# (innflutningur, landamærastöðvar) frv., Frsm. EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:32]

Frsm. sjútvn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1112 um frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð sjávarafurða.

Sjávarútvegsnefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Seyðisfjarðarkaupstað og yfirdýralækni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með örfáum breytingum sem eru í tveim liðum.

Fyrst er brtt. við 3. gr. laganna. Sú breyting snýr að því að ákvæði sem mælir fyrir um heimild ráðherra til að hækka eftirlitsgjald vegna landamæraeftirlits þegar í hlut eiga aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndinni þykir rétt að rýmka heimild ráðherra til að ákvarða hugsanlega hækkun gjaldsins, þó þannig að það geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur raunverulegum kostnaði við eftirlitið eins og segir í b-lið fyrri brtt.

Önnur breytingartillaga er við 4. gr. og er um gildistökuákvæði. Hún lýtur að því að miða gildistöku laganna við 1. nóvember í stað 1. júlí þar sem Evrópusambandið hefur lýst því yfir að ekki verði hægt að ganga frá málinu af þess hálfu fyrr en nú í haust.

Auk mín skrifa undir þetta nál. Steingrímur J. Sigfússon, formaður nefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, Árni R. Árnason, Lúðvík Bergvinsson, Stefán Guðmundsson, Hjálmar Árnason og Guðmundur Hallvarðsson.

Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.