1997-05-13 00:04:59# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:04]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin sem voru góð svo langt sem þau náðu. Hæstv. ráðherra lýsir skoðun sinni afdráttarlaust að hann telji að bankaráðin eigi að vera fimm manna og það er ágætt út af fyrir sig að fá slíka yfirlýsingu.

Varðandi fjölda bankastjóranna vísar hann í þá nefnd sem á að skipa samkvæmt 2. gr. frv. ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Nú hlýtur skoðun ráðherrans á þessu máli að hafa mikilvæga þýðingu fyrir það hver verður niðurstaðan í þessu máli. Mun hann þá beina einhverjum leiðbeiningum til þessarar nefndar eða stjórnar sem vinnur að undirbúningi málsins, bæði varðandi endurskoðun á launakjörunum, en það skiptir máli hvert álit ráðherrans er í því efni, og eins varðandi fjölda bankastjóra? Það hlýtur að hafa verulega þýðingu að fram komi skoðun ráðherrans í því efni. En ég fagna því sem fram kom hjá ráðherranum að hann telur að seta bankastjóranna fyrir hönd hlutafélaga í stjórnum annarra fyrirtækja eða stofnana skuli talin hluti af almennri starfsskyldu. Það finnst mér mjög mikilvægt að hafi komið hér fram, en það er einmitt einn liðurinn í þessari tillögu.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með það að hæstv. ráðherra skuli ekki ætla að beita sér fyrir því að Samkeppnisstofnun taki upp mál varðandi hagsmunatengslin en spyr um afstöðu ráðherrans til þess hvort hann muni veita þessari stjórn eða nefnd einhverja leiðbeiningu eða leiðsögn um fjölda bankastjóra eða hvort hann muni fela henni sérstaklega að endurskoða starfskjör stjórnenda bankanna.