Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:16:10 (6310)

1997-05-13 14:16:10# 121. lþ. 123.43 fundur 502. mál: #A þjóðminjalög# (stjórnskipulag o.fl.) frv., Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:16]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Jú, menntmn. skoðaði að sjálfsögðu athugasemdir sem bárust frá safnvörðum. Við fengum umsögn frá Félagi ísl. safnamanna og reyndar frá einum einstaklingi líka sem er minjavörður. Það verður að segjast eins og er að í umsögnum þeirra er að finna ýmsar áhyggjur af minjavörslunni. Eins er þar að finna gagnrýni um samskipti þeirra við Þjóðminjasafnið. En hins vegar voru ekki neinar beinar athugasemdir um efni frv. sem við erum hér að fjalla um. Það voru viðraðar áhyggjur af því hvernig þessum málum yrði háttað í framtíðinni. Við ræddum þetta í menntmn. og töldum mikilvægt að af því að núna er verið að endurskoða reglugerðina við þjóðminjalögin þá yrði hugað sérstaklega að þessum málum við þá endurskoðun. Þess vegna erum við með athugasemd um það í nefndaráliti okkar. Hins vegar er alveg ljóst að ef farið yrði út í heildarendurskoðun á þjóðminjalögunum hljóta þessi mál að verða tekin til gagngerðrar skoðunar.