Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:37:11 (6328)

1997-05-13 15:37:11# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:37]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get vel tekið undir það með hv. þm. er hélt ræðu hér áðan að vissulega þurfi að huga betur að ýmsum vandamálum hjá börnum og unglingum og þetta mál eitt og sér leysir ekki allan vanda. En það er alveg ljóst að mörg rök sem koma inn í þetta mál og mig langaði aðeins til þess að nefna, vegna þess að hér var rætt um skoðun ungs fólks, að það kemur fram í umsögn frá Félagi framhaldsskólanema að þeir leggja til þessa hækkun. Þeir segja reyndar um 1. gr., og þá er ég að tala um frv. sem leggur til beint hækkunina á aldrinum, með leyfi virðulegs forseta:

,,Eftir miklar umræður okkar á milli höfum við í félaginu ákveðið að taka undir tillögur þingmanna um hækkun sjálfræðisaldurs. Reglur um ýmis réttindi ungs fólks hafa verið gífurlega á reiki og allar reglur þar að lútandi í raun ófullnægjandi. Því mælum við þessari brtt.``

En reyndar benda þeir á að þeir telja þó rétt að samræma fleiri aldursmörk, m.a. í sambandi við bílpróf, áfengisaldur og margt fleira.

Heimili og skóli hefur á síðustu þremur þingum sent umsögn út af þessu máli. Ég er með umsögn frá 1996 þar sem lögð er áhersla á mörg atriði, m.a. í skólamálum og þar segir, með leyfi forseta:

,,Foreldrar hafa átt erfitt um vik að fá upplýsingar um ástundun og árangur nemenda í framhaldsskóla þrátt fyrir að þessir nemendur séu alfarið á framfæri foreldra sinna. Margur unglingurinn hefur flosnað upp úr skóla án þess að þeir sem næst honum standa hafi fengið tækifæri á ábyrgan hátt að koma að málum í samvinnu við skólann. Fyrir utan brotna sjálfsmynd unglinga veldur slíkt foreldrum og þjóðfélaginu í heild ómældu fjárhagslegu tjóni.``

Heimili og skóli bendir líka á að þessi breyting mundi undirstrika ábyrgð foreldra á framfærslu unglings og tryggja honum dvöl í foreldrahúsum a.m.k. til 18 ára aldurs. Þetta er sem sé hagsmunamál m.a. vegna atvinnuleysis. Ég vildi, virðulegi forseti, benda á þessi atriði til þess að sýna að það er svo margt sem kemur inn í umræðuna um þetta mál.