Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:12:03 (6345)

1997-05-13 17:12:03# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna þeirri niðurstöðu sem varð í allshn. að því er varðar frv. til lögræðislaga og ákvæði 1. gr. um að sjálfræðisaldurinn verði 18 ár. Fyrir þinginu hafa legið frumvörp þessa efnis á sl. tveimur árum og ég held að óhætt sé að segja að frá þeim tíma hefur þeim fjölgað sem hafa mælt með því að sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður í 18 ár.

Ég tel að frv. sem við fjöllum um feli í sér ýmsar veigamiklar nýjungar, eins og formaður nefndarinnar hefur gert grein fyrir. Ég tel það mjög mikilvægt að settar séu mun ítarlegri reglur um nauðungarvistanir og tryggja betur réttarstöðu nauðungarvistaðra og meðferð lögræðismála fyrir dómstólunum. Einnig tel ég mikilvægt það ákvæði að settar verði reglur um rétt nauðungarvistað manns til þess að njóta stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalar og að dómari geti skipað sóknaraðila talsmann ef hann óskar eftir því. Allt eru þetta merk nýmæli sem kannski hafa ekki fengið þá umfjöllun sem skyldi vegna þess að menn ræða aðallega um hækkun sjálfræðisaldursins sem er eðlilegt því að um hann hafa verið skiptar skoðanir. En ég tel að þeim muni fjölga hér á þingi sem munu greiða því atkvæði að hækka sjálfræðisaldurinn.

Þetta mál var í nokkurri óvissu þegar hæstv. dómsmrh. mælti fyrir því við 1. umr. því eins og hv. þm. vita var frv. lagt fram þannig að sjálfræðisaldurinn var óbreyttur en ljóst var að nefndin sem samdi frv. hafði ekki tekið afstöðu til málsins vegna þess að í grg. með frv. kemur fram að nefndin lagði frv. til hæstv. dómsmrh. með tveim tillögum, þ.e. annars vegar að hafa sjálfræðisaldurinn óbreyttan og hins vegar að hækka hann.

Við umræðuna í dag og við 1. umr. málsins og reyndar á síðasta þingi hefur verið farið ítarlega yfir rökin með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs en fyrir allshn. lá líka frv. frá mér og hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur þess efnis að hækka sjálfræðisaldurinn sem var endurflutt frv. frá síðasta þingi.

Það er mjög athyglisvert í þeim umsögnum sem hafa komið fram um hækkun sjálfræðisaldurs að langflestir og mikill meiri hluti umsagnaraðila mælir með hækkuninni en enginn mælir beinlínis gegn henni og af því að því hefur svo iðulega verið haldið fram af þeim sem tala gegn hækkun sjálfræðisaldursins að þetta séu fyrst og fremst fagaðilar, sem vinni með vandamálaunglinga, sem mæli með hækkun á sjálfræðisaldrinum, þá er það alls ekki rétt. Kemur það bæði fram í rökunum af hverju eigi að hækka sjálfræðisaldurinn og eins hverjir það eru sem mæla með hækkun sjálfræðisaldursins. Í nál. er getið umsagnaraðila um 49. mál sem við hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir fluttum, en umsagnir um það mál, sem allar voru jákvæðar, veittu Barnaheill, Heimili og skóli og Félag framhaldsskólanema, sem hlýtur að vera mjög athyglisvert, Sýslumannafélag Íslands, félagsmálastjórar Akureyrar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Reykjavíkurborgar, Barnaverndarstofa og Samband ísl. sveitarfélaga.

Þeir sem hafa komið í ræðustól í dag og hafa lagst gegn hækkun sjálfræðisaldursins hafa farið mikinn og tíundað að þeirra mati ókostina við hækkun á sjálfræðisaldrinum en þeir hafa látið það vera að fara yfir þá kosti sem hækkun á sjálfræðisaldrinum fylgir.

Ef draga á saman í stuttu máli helstu rökin fyrir þessari lagabreytingu, þá tekur breytingin mið af breyttum þjóðfélagsaðstæðum og þær eru í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og miða að auknu lagasamræmi í íslenskum rétti, tryggja betur að ungt fólk búi við öryggi og aðhald foreldra til 18 ára aldurs og auðvelda meðferð á ungum fíkniefnaneytendum. Við getum spurt okkur hvað sé svona sérstakt við Ísland, eitt allra þjóða, sem réttlæti það að hafa sjálfræðisaldurinn 16 ár. Ég finn ekki nein rök fyrir því. Reyndar kemur fram í nál. allshn. að vandamál hafa skapast vegna löggjafar hjá nágrannalöndum okkar þar sem sjálfræðisaldurinn er 18 ára og kom fram í nefndinni að fjölskyldur sem flytjast til Norðurlanda geta lent í vandræðum vegna þessa misræmis.

Veigamestu rökin eða mikilvægustu rökin sem tefld eru fram hjá þeim sem mæla gegn þessu eða a.m.k. er talað mjög um að verið sé að svipta mjög stóran hóp ungmenna að takast á við sjálfsábyrgð. Ég tel þessi rök síður en svo veigamikil og ég tel að verið sé að tryggja og vernda öryggi allra barna til 18 ára aldurs og í raun sé verið að framlengja forsjárskyldu foreldra og undirstrika ábyrgð barnsins, foreldra og samfélagsins alls. Það er þversagnarkennt að foreldrar eru forsjárskyldir gagnvart börnum sínum til 16 ára aldurs en framfærsluskyldir til 18 ára aldurs, en þá verða þeir fjárráða og lögráða. Það eitt út af fyrir sig mælir með því að sjálfræðisaldur og framfærsluskylda foreldra fari saman og hefur ekkert með það að gera sem hér er haldið fram, að verið sé að svipta stóran hóp ungmenna sjálfræði vegna kannski lítils hóps unglinga sem er í vandamálum.

Það eru breyttar þjóðfélagsaðstæður og ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því að lengri skólaganga hefur almennt þýtt að ungmenni verða að treysta á að foreldrar sjái fyrir þeim lengur. Aukið atvinnuleysi á undanförnum árum hefur gert það að verkum að atvinnuleysi meðal ungmenna hefur aukist. Ungmenni búa lengur í foreldrahúsum en áður var og þannig mætti áfram telja, en það er álitið að um 80--90% barna á aldrinum 16--18 ára búi í foreldrahúsum. Þessi ár, frá 16--18 ára, eru mikilvæg ár í þroska- og félagsmótun barna, en inntak forsjárskyldu er uppeldisskyldan og þess vegna er með hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár verið að framlengja forsjárskyldu foreldra. Ég hef haldið því fram og tel að 16 ára sjálfræðisaldur gangi gegn lögum um vernd barna og ungmenna en markmið þeirra er að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar börnum þegar við á.

Vitnað hefur verið í barnasáttmálann sem segir að börn séu allt fólk í heiminum yngra en 18 ára. Samningurinn var fullgiltur af hálfu Íslands árið 1992, en allir þekkja að barnasáttmálinn er brjóstvörn mannréttinda barna og mælir fyrir um réttindi og vernd barna aðildarríkja. En hugsunin á bak við samninginn er sú að skapa varnarmúr umhverfis réttindi barna til 18 ára aldurs samtímis því að leggja ábyrgð á herðar foreldra og samfélagsins alls gagnvart ungviði þjóðanna.

Það er líka ástæða til að benda á að í lögum um umboðsmann barna sem eru nýleg er kveðið á um, að mig minnir, að með börnum er átt við einstaklinga að 18 ára aldri. Ég tel, herra forseti, að þegar öllu er haldið til haga í þessu efni, bæði kostum með og á móti, þá sé ótvírætt að kostirnir eru miklu meiri og fleiri en ókostirnar, sem ég sé ekki og tel ekki að vegi þungt í þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég fagna mjög meðferð allshn. á málinu og ég fagna því líka að mikil samstaða var í nefndinni um öll þau mörgu nýmæli sem kveðið er á um í frv. og fagna þeirri niðurstöðu sem varð að góður meiri hluti í nefndinni styður hækkun á sjálfræðisaldrinum í 18 ár. Það tel ég mikið fagnaðarefni.

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þetta mál hljóti þá niðurstöðu á hv. Alþingi að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður í 18 ár. Ég er sannfærð um að ekki líður langur tími þar til allir viðurkenna að þetta hafi verið eðlilegt og farsælt skref sem við erum að taka verði ákvæði þessa frv. þar að lútandi að lögum.