Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:11:10 (6363)

1997-05-13 18:11:10# 121. lþ. 123.44 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:11]

Frsm. sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. sjútvn., sem liggur frammi á þskj. 1169, svo og brtt. hennar við frv. til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Fram kemur á nefndaráliti að í umfjöllun nefndarinnar hefur hún fengið til liðs við sig nokkra aðila og auk þess hafa ýmsir sent henni umsagnir um málið. Í því sambandi tel ég rétt að geta þess, herra forseti, að áður en málið kom til þings hafði mikið starf verið unnið við mótun þess af hálfu þeirrar nefndar sem undirbjó og samdi frv. M.a. hafði hún séð til þess að það var rætt í hópi hagsmunasamtaka víðs vegar um landið. Af þeim ástæðum hafa nefndarmenn komist að þeirri niðurstöðu að hin málefnalega umræða hafi átt sér stað þó svo nefndin sjálf hafi haft tiltölulega skamman tíma til að fjalla um það efni sem birtist í umsögnum eða álitum þeirra sem hún ræddi við.

Svo vel hefur til tekist að hv. nefnd hefur orðið sammála um málið og þær brtt. sem fram koma á þskj. 1170 eru fluttar af öllum nefndarmönnum. Efnislega eru þær á þann veg að nokkrar breytingar eru lagðar til við 5. gr. frv. þar sem fjallað er um tiltekin svæði þar sem heimilaðar verði togveiðar tilteknum flokkum fiskiskipa. Þar er til að mynda lagt til að auk þeirra svæða sem í frv. eru tiltekin bætist á Breiðafirði svæði í samræmi við ákvæði sem áður voru í gildi um dragnótaveiðar þar. Fyrirhugað svæði undan Vestfjörðum, sem í frv. er auðkennt sem G.2, verði ekki mótað og ákvæði sem er auðkennt þeim lið verði fellt úr frv. Auk þess er gerð sú tillaga að ákvæði sem ráðgerð eru sem bráðabirgðaákvæði í frv. verði efnisgrein í frv. sjálfu og að þau réttindi sem þar er kveðið á um fyrir fiskiskip sem hafa slíkan rétt í dag verði ótímabundin með tilteknum ákvæðum um að skipunum verði ekki breytt.

Að öðru leyti, herra forseti, virðist mér að brtt. nefndarinnar og þær skýringar sem fram koma á nefndaráliti séu fullnægjandi. Vegna þess að ég hef verið inntur eftir því hvers megi vænta í framhaldi af því að frv. verði að lögum með þeim breytingum sem nefndin leggur til varðandi dragnótaveiðar frá Snæfellsnesi þar sem flestir fiskibátar sem þar eru gerðir út eiga mikið undir togveiðum, vil ég geta þess að nefndinni sýnist að ákvæði í 5. gr., m.a. þau sem ég nefndi fyrr, svo og ákvæði í 6. gr. muni gefa sambærilegar heimildir til að leyfa þær veiðar sem eru byggðar í dag á núgildandi lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni.

Þá vil ég einnig geta þess að sérstaklega var rætt í nefndinni um ákvæði 12. gr. frv. og að í brtt. er gert ráð fyrir að breyta þeim þannig að síður geti leitt til árekstra við hina sérstöku réttarstöðu skipstjóra sem er hæstráðandi á skipi sínu. Hins vegar er rétt að fram komi að þær hugmyndir sem birtast í 12. gr. frv. eru byggðar á framlagi nefndarmanna í þeirri nefnd sem samdi frv. sem komu úr hópi skipstjórnarmanna og sjómanna. Þeir nefndarmenn töldu þær hugmyndir byggðar á almennum vilja í sjómannastétt til þess að auðvelda eftirlit með fiskveiðum og telja að það sé almennur vilji í allri stéttinni til að koma í veg fyrir brot. Tel ég raunar að það sé mjög lítill minni hluti stéttarinnar sem stundar slíkt.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að hv. þing samþykki brtt. nefndarinnar og vísi málinu þannig til 3. umr.