Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 19:07:42 (6369)

1997-05-13 19:07:42# 121. lþ. 123.49 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[19:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir í bókarformi nál. frá umhvn. og annað hefti, að vísu ekki eins þykkt, af brtt. við frv. til skipulagslaga sem lagt var fyrir þingið af hæstv. umhvrh. snemma á þessu þingi. Ég hlýt að taka undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að afurð úr nefndarstarfinu sýnir það að í rauninni var hér um að ræða mál sem tæplega gat myndað undirstöðu undir þá vinnu, ekki í þeim almenna skilningi sem hefur verið varðandi svo stóra lagabálka, eins og æskilegt hefði verið. Umhvn. hefur þurft að verja ómældum tíma og meginhluta af starfi sínu á þessum vetri til að fara yfir þetta mál og koma því í frambærilegt horf fyrir þingið.

Það er út af fyrir sig engin ofætlan þingnefndar að fara skilmerkilega yfir þau frumvörp sem fyrir hana eru lögð og ekki kveinka ég mér undan slíku, en hitt blasir við þegar litið er til afgreiðslu nefndarinnar á þessu máli að æskilegt hefði verið að meiri og vandaðri undirbúningur hefði farið fram af hálfu umhvrn. í þessu máli en raun bar vitni. Undirritaður benti á það í 1. umr. málsins að í rauninni var um endurflutning að ræða á máli sem búið var að koma margoft fyrir þingið og hefði verið full þörf og ástæða til að litið yrði á málið út frá breyttum viðhorfum og nútímalegri sjónarmiðum en frv. endurspeglaði eins og það var lagt fyrir þingið. Um þetta er ekki að fást út af fyrir sig en ég vænti þess að þetta sé nokkur lærdómur fyrir ýmsa sem að þessu máli hafa komið og þá ekki síst fyrir hæstv. umhvrh. og umhvrn. að með einhverjum hætti þurfi að styrkja burðarásana í ráðuneytinu í sambandi við mikilsverða málaflokka, eins og þessi sannarlega er, og leggja meiri alúð við að undirbúa mál fyrir Alþingi þannig að viðráðanlegra verði fyrir þingnefnd, sem við tekur, að fjalla um það á eðlilegan hátt og það bitni ekki óhóflega á öðrum störfum á vegum nefndarinnar, eins og þetta óneitanlega hefur gert, þar sem mörg mál, sem fyrir nefndina hafa komið, hafa ekki fengið þá umfjöllun sem vert væri og vafalaust væri lagt í ef tími hefði verið til á starfstíma nefndarinnar.

Ég minni jafnframt á það að þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu voru eindregnar ráðstafanir af hálfu hæstv. ráðherra um að nefndin lyki afgreiðslu þessa máls fyrir áramót. Hv. formaður umhvn. hafði fullan hug á að reyna að verða við þeim áskorunum og setti síðan eindaga inn á milli, í lok febrúar ef ég man rétt. En það mátti ljóst vera að málið var þannig vaxið að vanda varð afgreiðslu þess og það var engin fyrirstaða af hálfu neins, að ég yrði var, í umhvn. við að vinna málið efnislega. Ég lýsti því yfir um leið og ég fagnaði framkomu þess snemma á þinginu að ég vænti þess að það tækist að afgreiða málið og lögfesta fyrir þinglok vegna þess hversu brýnt það var að endurskoðun skipulagslaga kæmist í höfn og þetta geysilega mikilvæga mál fengi þá afgreiðslu sem vert væri en væri ekki að velkjast áfram fyrir þinginu eins og gerst hefur á mörgum undangengnum þingum.

Þetta mál hefur síðan komist í þann búning sem fyrir liggur og búið er að kynna og ég ætla mér að sjálfsögðu ekki við þessa umræðu að ræða ítarlega um einstök efnisatriði. Það er margt sem þar mætti vissulega gera að umtalsefni en nú á síðustu starfsdögum þingsins væntanlega er ekki ráðrúm til þess að fara út í miklar efnislegar umræður enda er álit nefndarinnar sameiginlegt þó með fyrirvara sé frá okkur tveimur nefndarmönnum í umhvn. Ég vil gera stuttlega grein fyrir því í hverju fyrirvari minn við málið felst um leið og ég stend að málinu í heild með öðrum að sjálfsögðu og mun fylgja fram þeim stuðningi við þær breytingar sem hér eru lagðar til og vænti að um þær geti tekist breið samstaða og hef hvatt til þess að þannig verði reynt að standa að máli.

Ég hef þegar í rauninni nefnt ákveðinn þátt sem er frv. eins og það kom fyrir til nefndarinnar á sínum tíma.

Annað atriði sem er býsna stórt í mínum huga er sá agnúi að lög um mat á umhverfisáhrifum sem gert var ráð fyrir að yrðu endurskoðuð og meira að segja tekið fram í bráðabirgðaákvæði þeirra laga, að þau skyldu endurskoðuð jafnhliða endurskoðun skipulags- og byggingarlaga. Þetta gerðist hins vegar ekki og maður spyr sig hvers vegna það var rætt við 1. umr. málsins. Hvernig í ósköpunum stendur á því að ráðuneyti umhverfismála, sem kastar því miður nokkuð til hendinni við undirbúning þessa frv., skuli ekki hafa a.m.k. séð til þess að endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum færi fram þannig að þetta gæti orðið samferða? Nú veit ég að það mun vera ásetningur hæstv. umhvrh. að koma með frv. til nýrra laga eða breyttra laga um mat á umhverfisáhrifum væntanlega fyrir næsta þing en hér er um að ræða svo samtvinnað mál í mörgum greinum að það hefði auðvitað verið langtum farsælla að þetta hefði getað orðið samferða.

[19:15]

Ég vek athygli á 27. gr. --- nú vitna ég kannski ekki rétt í þetta því búið er að umsteypa mjög lagagreinum frá upphaflegu frv., en þetta er 27. gr. um framkvæmdaleyfi. Ég leyfi mér að vitna til upphafs greinarinnar, með leyfi forseta:

,,Allar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem skógrækt og landgræðsla eða breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Óheimilt er að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi skv. IV. kafla fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.``

Hér er vísað til efnisatriða sem eru auðvitað nátengd ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Þetta þarf að samhæfa þegar þar að kemur. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi í huga að tengja skýrar löggjöfina um mat á umhverfisáhrifum við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og væri fróðlegt að heyra í hvað stefnir hvað undirbúning snertir um þau atriði.

Síðan er sá þáttur sem ég gerði nokkuð að umtalsefni við 1. umr. málsins og hefur ekki fengið fyllilega þá meðferð sem ég hefði talið æskilega. Það er að koma hugsuninni um sjálfbæra þróun skýrar inn í löggjöfina. Það hefur því miður ekki tekist í þessari vinnu að dýpka ákvæði og um leið þá að veita þeirri nýju sýn til þessa málaflokks inntak varðandi sjálfbæra þróun þó að henni sé vikið í markmiðsgrein frv. Á þessu þarf að ráða bót. Sá sem hér talar lagði fram tillögu til þál. á seinni hluta þings um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun, viðleitni til að hvetja til þess að þar reyni menn að komast í takt við það sem ætlast var til samkvæmt Ríó-ferlinu. Sú tillaga til þál. hefur fengið ágætar undirtektir umsagnaraðila þó að ekki fengist stuðningur í umhvn. að afgreiða það mál á lokastigi þingstarfa eða starfa í nefndinni réttara sagt, þá liggur fyrir mjög góður vilji og stuðningur við málið af hálfu umsagnaraðila og góð orð um að taka á því á næsta þingi verði þessi tillaga endurflutt, sem ég stefni að að gera. Ég vil undirstrika að fátt er mikilvægara í sambandi við sjálfbæra þróun en að gefa þeirri hugsun inntak og fótfestu í skipulagslöggjöf og þá jafnframt í lögum sem varða mat á umhverfisáhrifum sem þarf að samþætta þessu máli.

Ein af þeim róttæku breytingum sem umhvn. leggur til á frv. varðar uppsetningu á væntanlegum lögum, sem ég tel vera verulega til bóta og gerði að umtalsefni við 1. umr. máls, þ.e. að setja skipulagsþrepin upp í rökrænna form en gert var í upphaflegu frv. Þetta hefur gengið eftir. Það er byrjað á landsskipulagi eða skipulagsáætlun sem varðar landið allt og síðan fjallað um svæðisskipulag og þar á eftir um aðalskipulag og deiliskipulag. Ég tel að þetta hafi gildi upp á bæði nálgun máls og skilning fyrir almenning á uppbyggingu skipulags og hafi því meiri þýðingu en virðast kann í fljótu bragði og ég vona að það verði til þess að styrkja meðferð þessara mála almennt séð. Ég hefði kosið að svæðisskipulag yrði lögfest, að það yrði lögbundið að gera skyldi svæðisskipulag. Það fékkst ekki stuðningur við það sjónarmið að þessu sinni. Heimildir eru til eða gert er ráð fyrir frumkvæði sveitarfélaga um gerð svæðisskipulags og að Skipulagsstofnun geti einnig haft frumkvæði um það. Allt er það góðra gjalda vert svo langt sem það nær en ég tel í raun, virðulegur forseti, að full ástæða væri til þess að lögbjóða slíka vinnu þó hún yrði framkvæmd í áföngum og það er mjög brýnt að skýra þá svæðaskiptingu sem eðlileg getur talist varðandi svæðisskipulagsvinnu. Nú er verið að vinna að svæðisskipulagi miðhálendis sem er afar þýðingarmikið verk og tengist síðan þessum lögum í framhaldi af lagaákvæðinu til bráðabirgða, sem samþykkt var 1993 og veitti grunn fyrir þá vinnu sem nú fer fram um svæðisskipulag miðhálendisins. Nú gengur það mál inn í ferli hinna nýju laga og það er allt á réttum stað. En í framhaldi af því hefði verið æskilegt að lögbjóða svæðisskipulagsgerð í landinu og að Skipulagsstofnun gerði tillögur að því við hvað skyldi miðað, að sjálfsögðu með samkomulagi og samvinnu við viðkomandi sveitarfélög. Ég vísa til þess, virðulegur forseti, sem segir um svæðisskipulagsvinnuna í 12. gr. þar sem er svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta: ,,Jafnan skal miða við að sveitarfélög þau, sem svæðisskipulag fjallar um, myndi eina heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti. Svæðisskipulag skal taka til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.``

Það eru þessi ákvæði sem ég hef m.a. í huga sem kalla á að mörkuð sé stefna um hvaða svæði það eru sem eru þannig vaxin að þau myndi eina heild landfræðilega, hagrænt og félagslega. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að benda á dæmi þar sem í rauninni er gengið gegn svona sjónarmiðum sem hefur verið ofarlega í huga ýmissa á liðnum vetri Það er svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar þar sem rofin var heild, sem hefði auðvitað átt að vinna saman, þ.e. Hvalfjörður og sveitarfélögin við Hvalfjörð sem hefðu átt að vera þátttakendur í þeirri vinnu beggja megin fjarðar m.a. vegna augljósra grenndarhagsmuna vegna starfsemi við fjörðinn. Samþætt umhverfi að öllu leyti í landfræðilegu og félagslegu tilliti, a.m.k. landfræðilegu, og ætti að verða mönnum til varnaðar og leiðsagnar um að vanda til verka hvernig landinu verður skipt að þessu leyti.

Það gekk eftir, virðulegur forseti, sem rætt var við 1. umr. málsins og hæstv. umhvrh. tók þá undir varðandi svæðisskipulag miðhálendis að allir landsmenn, allir sem teldu sig hafa hagsmuna að gæta og vildu skipta sér af því máli, kæmust inn í umsagnarferli og hefðu rétt til athugasemda varðandi það skipulag. Ég er sannfærður um að það getur orðið til þess að sætta sjónarmið, a.m.k. að formi til, varðandi málsmeðferð þess þýðingarmikla máls sem er svæðisskipulag miðhálendisins. Ég verð að vona að sú þýðingarmikla vinna sem þar hefur farið fram fái eðlilega meðferð og stuðning. Ég segi þetta nú vegna þess að dálítið gróf orð hafa fallið um það að við megi búast einhvers konar stríðsástandi þegar þær tillögur birtist. Ég tel að það sé ekki farsælt að horfa þannig til málsins. Málið er þýðingarmikið og ef allir landsmenn komast þar að með athugasemdir sínar og sjónarmið og málið fær síðan skilvirka vinnu, þá vænti ég þess að ná megi saman um svæðisskipulag á þessu samtengjandi svæði byggðahringsins um landið, þ.e. miðhálendisins.

Það eru mörg fleiri atriði sem vert væri að ræða, virðulegur forseti, en ég ætlaði mér að takmarka innlegg mitt inn í umræðuna. Ég hef nefnt nokkur dæmi. Ég tel að margt af því sem hér er lagt til og raunar allar tillögur sem fyrir liggja af hálfu umhvn. séu vel grundaðar og til verulegra bóta. Það á einnig við um byggingarlagaþáttinn sem er auðvitað mjög þýðingarmikill og var vandasamur í umfjöllun af hálfu nefndarinnar enda tengist það m.a. starfsréttindum stétta sem koma að vinnu í því máli og þurfti að sýna alúð til þess að alls réttlætis væri gætt og við skulum vona að það hafi tekist þokkalega til að því leyti.

Það almenna sjónarmið að auka rétt almennings í umfjöllun um skipulagsmál var eitt af leiðarljósum við umfjöllun þessa máls. Ég tel það skynsamlegt sem lagt er til hér að því leyti að tryggja eðlilegan umsagnarfrest og tryggja að allir hafi möguleika á að vera þátttakendur í málum á umfjöllunarstigi og koma þar að sjónarmiðum sínum og að sæmilega sé frá þeim málum gengið í frv. Ég tel að meðferð umhvn. á þessu máli sé að mörgu leyti til fyrirmyndar og einmitt leiðbeinandi fyrir nefndina um það að leitast við að ná saman um þýðingarmikla málaflokka frekar en að láta skerast í odda, eins og hefur nú því miður gerst í þýðingarmiklum málum í þeirri nefnd. En það eru þó frekar undantekningar heldur en hitt. Þingnefndin hefur reynt að skila sínu verki og um þetta frv. gildir það, eins og svo mörg önnur frv., að í viðamiklum breytingartillögum endurspeglast það að lögð hefur verið alúð við meðferð mála.

Ég vil að lokum um leið og ég þakka fyrir samstarf um þetta mál hvetja þá sem leggja mál á þessu sviði fyrir þingið, og þá á ég við umhvrn. og hæstv. ráðherra umhverfismála hverjir sem það eru, að leitast við að styrkja það starf sem varðar undirbúning löggjafar. Hitt skiptir þó ekki síður máli að geta fylgt málum eftir. Mér sýnist að ástæða sé fyrir Alþingi að gefa gaum að því að veruleg þörf er á því að styrkja innviði og aðstæður þessa yngsta ráðuneytis, umhverfismála, þannig að það sé fært um að standa þannig að málum að sómi sé að og allt sé sem best úr garði gert. Ég segi það algerlega án þess að því fylgi nokkur broddur því ég tel að þessi málaflokkur kalli á það, kannski flestu öðru fremur, að menn leitist við að tryggja góða málsmeðferð og horfa til framtíðar, taka inn í tillögur að nýrri löggjöf framsýn sjónarmið. Því það er alveg ljóst að málefni umhverfisins, umhverfismálin í víðu samhengi, eru að verða æ þýðingarmeiri málaflokkur, kannski því miður illu heilli ef svo má segja. Þörfin á að breyta um stefnu að því er varðar umhverfismálin er að verða æ brýnni og vonandi augljósari fyrir marga og í því efni eru skipulags- og byggingarmál mjög mikilvægur grunnur til þess að vel sé haldið á málum og getur verið leiðbeinandi fyrir samfélagsþróun ef rétt er á haldið.