Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 23:28:21 (6382)

1997-05-13 23:28:21# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[23:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu lagafrv. sem hefur verið lýst sem tímamótafrv., einhverju merkilegasta lagafrv. sem hér hefur verið til umræðu í langan tíma sem snertir fjármál ríkisins, sem snertir allt skipulag ríkisins og samskipti löggjafans og fjárveitingavaldsins. Þess vegna spyr ég, hæstv. forseti: Hvar er fjmrh.? Hvar er hæstv. fjmrh. staddur og hvar skyldi hæstv. forsrh. vera niður kominn? Ég óska eftir því að það verði kannað hvar hæstv. fjmrh. er niður kominn og hvort hann geti verið viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (GÁS): Forseti mun kanna hvar hann er niður kominn og gaumgæfa hvort hann eigi kost á að koma til umræðunnar. --- Forseti vill spyrja hv. þm. hvort það sé forsenda þess að hann geti haldið ræðu sína að hæstv. ráðherra sé hér viðstaddur?)

Nei, en forsenda þess að ég geti haldið ræðu mína er að mér sé gerð grein fyrir því hvar hæstv. fjmrh. er staddur vegna þess að við erum að tala um grundvallarmál. Við erum að tala um frv. sem að mínum dómi felur í sér stórfellt valdaafsal frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins og sér í lagi til hæstv. fjmrh. og mér finnst mikilvægt að hann sé viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur fullan skilning á þessari beiðni, en spyr einfaldlega sökum þess hvort hv. þm. sé þá til viðræðu um það að hv. næsti ræðumaður fari nú í ræðustól og hv. þm. fresti ræðu sinni meðan verið er að gaumgæfa um stöðu fjmrh. þannig að umræðan geti hér haldið áfram.)

Ég skal fallast á það.

(Forseti (GÁS): Forseti vill þakka skilning þingmannsins.)