1997-05-14 00:57:24# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[24:57]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 17. þm. Reykv. nefndi að þær reglur í 30. gr. sneru fyrst og fremst að notendum þjónustunnar, það sé regluverk sem tryggi þann þátt málsins. Í sérnefndinni var einmitt lögð mjög mikil áhersla á að skoða þá þætti, þ.e. að tryggja framkvæmdina þannig að nokkuð öruggt væri að neytandinn gæti verið jafnöruggur um að fá þjónustuna hvort sem um væri að ræða viðskipti beint við ríkisfyrirtæki eða aðila sem tækju að sér þá þjónustu, þ.e. neytandinn væri öruggur. Síðan kemur hin hlið málsins, sem er mjög mikilvæg, og hún er sú að við setjum líka, eins og ég nefndi í síðustu mgr. 30. gr. í brtt., þessar skýru og kláru reglur um að fjalla skuli um þessa samninga. Þess vegna get ég ekki sagt frá því úr þessum ræðustóli hvaða samningar eru væntanlegir, hvort það eru skólar, sjúkrahús eða einhverjar aðrar stofnanir sem megi búast við að þjónustusamningar verði gerðir við.

Ég vakti athygli á plaggi því sem lá fyrir efh.- og viðskn. í fyrra þegar litla, sæta frv. var lagt fram um hagræðingu og þjónustusamninga. Það plagg sýndi samningana sem eru í gildi og yfirlit yfir stofnanir sem vinna og sinna þjónustu, sjá um rekstur fyrir ríkið án þess að samningar hafi (Forseti hringir.) verið gerðir.

Ég tel, án þess að ég beri nokkra ábyrgð á því, eðlilegt að ganga til samninga við þá aðila sem sjá um þjónustu fyrir ríkið nú þegar en enginn samningur er um. Það hlýtur að verða fyrsta skrefið. Ég vil því ítreka og undirstrika það (Forseti hringir.) að þetta regluverk sem við stöndum fyrir að setja snýst ekki um að einkavæða heldur að koma reglu á hlutina.

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. að virða þá samninga sem hér eru í gildi um tvær mínútur.)