1997-05-14 02:35:43# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., Frsm. 2. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[26:35]

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. á afar erfitt með að skýra afstöðu framsóknarmanna eða réttlæta afstöðu þeirra til þessa frv. Hann talar um það aftur og aftur að verið sé að tryggja hag lánastofnana og talar um siðferði í viðskiptum o.s.frv. sem hann setur ofar því frekar en að standa við það loforð sem framsóknarmenn lofuðu í kosningunum, að standa aldrei að veðsetningu á kvóta, sem þeir höfnuðu með öllu. En það er líka til eitt, herra forseti, sem heitir siðferði í stjórnmálum. Ég tel það ekki siðferði í stjórnmálum af hálfu framsóknarmanna þegar þeir svíkja loforð sem snýr að svo stóru máli sem þetta er. Þeir verða minntir á þetta aftur og aftur, hv. framsóknarmenn. Ég vona að þeir hafi gert sér grein fyrir afleiðingunum af því að samþykkja þetta frv. Ég er ekkert hissa á því þó að hv. þm. sé mjög órólegur bæði í ræðustól og í sæti sínu vegna þess að þetta er hið mesta óráð af framsóknarmönnum að fylgja Sjálfstfl. eftir í þessu máli. Alþfl. hafði þó dug í sér, þegar hann var í ríkisstjórn með Sjálfstfl., að standa gegn því að dómsmrh. gæti komið þessu ákvæði í gegnum þingið en framsóknarmenn lyppast niður í hverju málinu á fætur öðru, í hverju kosningaloforðinu á fætur öðru til þess að elta Sjálfstfl. Þetta er ekki mjög stórmannlegt, herra forseti, að standa þannig að málum og ég öfunda framsóknarmenn ekki þegar þeir ganga til næstu kosninga.