Ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:28:22 (6502)

1997-05-14 15:28:22# 121. lþ. 125.2 fundur 597. mál: #A ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð. Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að Breiðafjarðarferjan Baldur er samgönguæð íbúa í Vestur-Barðastrandarsýslu við aðalakvegakerfi landsins. Landvegurinn er að vetri jafnan lokaður og ekki er reynt að halda honum opnum. Þetta er því eina leiðin sem íbúar á þessu svæði hafa til þess að komast akandi til og frá sínu svæði.

Á sumrin er siglir ferjan daglega og reyndar tvisvar á dag alla daga vikunnar en á veturna eru einungis ferðir fimm daga vikunnar. Tvo daga vikunnar eru því ekki neinar ferðir yfir Breiðafjörð og íbúar á þessu svæði því að segja má sambandslausir við aðalakvegakerfi landsins.

Þá hefur líka komið í ljós að þörfin fyrir ferjuna hefur vaxið mjög á síðustu árum og er svo komið að oft er upppantað í ferjuna og þeir sem vildu þá komast annaðhvort frá Vestur-Barðastrandarsýslu eða til hennar mega una því að komast ekki þann dag sem þeir áformuðu og verða að bíða næstu ferðar hvort sem hún er næsta dag eða síðar.

Ég tel því fulla ástæðu til að inna hæstv. samgrh. eftir því hvenær þess er að vænta að vetraráætlun Breiðafjarðarferjunnar Baldurs verði breytt þannig að ferðir verði alla daga vikunnar milli Brjánslækjar og Stykkishólms í stað fimm daga vikunnar eins og nú er.

Ég vil geta þess, herra forseti, að ég hef óskað eftir upplýsingum um hver hugsanlegur kostnaður gæti orðið af því að taka upp ferðir sjö daga vikunnar í stað fimm. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er kostnaður vegna snjómoksturs yfir Kleifaheiði frá Patreksfirði til Brjánslækjar um 1,5 millj. kr. á ári og kostnaður við siglingarnar eða fleiri ferðir er áætlaður vera um 5,8 millj. kr. eða samtals um 7,3 millj. kr. á heilu ári sem kostnaðaraukinn gæti verið við það að taka upp sjö daga samband við aðalakvegakerfi landsins í stað fimm daga eins og nú er. Hugsanlegt er þó að kostnaðurinn gæti verið minni.