Reglur Seðlabankans um verðtryggingu

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:21:43 (6521)

1997-05-14 16:21:43# 121. lþ. 125.7 fundur 595. mál: #A reglur Seðlabankans um verðtryggingu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:21]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 1038 er lögð fram fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um reglur Seðlabankans um verðtryggingu. Fyrirspyrjandi spyr hvort ég telji þau ákvæði í reglum Seðlabankans um verðtryggingu sem lúta að afnámi verðtryggingar innstæðna samrýmast ákvæðum verðtryggingarkafla vaxtalaga. Ég svara þessari spurningu hiklaust játandi. Reglur Seðlabankans eru í samræmi við vaxtalög.

Í nær áratug hafa stjórnvöld unnið að því að draga úr notkun verðtryggingar. Árið 1988 var lögum um stjórn efnahagsmála, svokölluðum Ólafslögum, breytt á þann veg að lágmarkstími verðtryggðra lána var takmarkaður við tvö ár og lágmarkstími verðtryggðra innstæðna við sex mánuði. Jafnframt var Seðlabankanum heimilað, að fengnu samþykki viðskrh., að ákveða að þessi tími yrði lengri. Seðlabankinn herti þessar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga árið 1993. Árið 1995 var bætt inn í vaxtalög kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, en verðtryggingarkafli Ólafslaga hins vegar felldur niður. Ákvæði um að lágmarkstími verðtryggðra lána skuli vera tvö ár og lágmarkstími verðtryggðra sparifjárinnstæðna sex mánuðir var fellt niður. Þess í stað var kveðið á um í vaxtalögum að Seðlabankinn skuli, að fengnu samþykki viðskrh., ákveða lágmarkstímann.

Þann 6. júní 1995 gaf Seðlabankinn síðan út reglur um verðtryggingu sparifjár, lánsfjár og fleira. Þar er kveðið á um að innlánsstofnunum sé því aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu að innstæða sé bundin í eitt ár eða lengur.

Í 9. gr. reglnanna segir að frá og með 1. janúar 1998 verði þessi lágmarkstími lengdur í þrjú ár. Jafnframt segir í þessum reglum að stefnt skuli að því að verðtrygging innlána verði óheimil frá og með 1. janúar árið 2000. Þessi ákvæði í reglum Seðlabankans eru í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um að draga úr vægi verðtryggingar í inn- og útlánum fram að aldamótum. Það er á hinn bóginn ljóst að ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. vaxtalaganna kveður einungis á um að ákveða megi lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána en ekki að afnema megi verðtryggingarákvæðið alfarið. Það þarf því að koma ákvæði í vaxtalög sem heimilar afnám verðtryggingar á sparifjárinnstæðum eigi þessi stefnumótun að ná fram að ganga.

Ég vil ítreka það að reglur bankans í þessu efni segja einungis að stefnt verði að ákveðnu markmiði. En niðurstaðan ræðst að sjálfsögðu af þeim heimildum sem verða til staðar á þeim tiltekna tímapunkti þegar til framkvæmdarinnar á að koma. Stefna stjórnvalda er óbreytt. Það er heillavænlegt að draga úr verðtryggingu, sér í lagi á skemmri fjárskuldbindingum þar eð verðtrygging skapar mikla rekstraráhættu fyrir lánastofnanir, hefur óæskileg áhrif á vaxtamyndun og er að auki óþekkt erlendis á skemmri skuldbindingum. Stefnumörkun stjórnvalda um að draga úr verðtryggingu gerir ráð fyrir að breytingin eigi sér stað á löngum tíma og þær eru tilkynntar með góðum fyrirvara, enda eru miklir hagsmunir bundnir notkun verðtryggingarinnar og óvarlegt að raska reglum um hana með skömmum fyrirvara.