Reglur Seðlabankans um verðtryggingu

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:25:48 (6522)

1997-05-14 16:25:48# 121. lþ. 125.7 fundur 595. mál: #A reglur Seðlabankans um verðtryggingu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:25]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég get ekki annað heyrt á máli hæstv. ráðherra en hann sé sammála mér og því lögfræðiáliti sem ég las hér upp að það hafi ekki lagastoð að afnema verðtryggingu á innlánum. Hér sé fyrst og fremst um að ræða stefnumörkun í þessari reglugerð sem hafi verið gefin út og verði tekin endanleg ákvörðun um að afnema verðtryggingu á innlánum þurfi að koma til lagabreyting, ákvörðunin þurfi að hafa lagastoð. Mér finnst því ljóst af máli ráðherrans að ef ríkisstjórnin hyggst fylgja þessari stefnumörkun fram þá þurfi hún að leita til Alþingis um samþykki. Það er nákvæmlega það sem sagt er í því lögfræðiáliti sem ég hef fengið. Þetta er einn kaflinn, og það er ágætt út af fyrir sig, að þetta þurfi þá að koma til kasta Alþingis vegna þess að þá gefst okkur færi á því að ræða þann mismun sem á greinilega að taka upp, að afnema bara verðtryggingu á innlánum en ekki útlánum, afnema bara verðtryggingu á sparifé landsmanna og viðhalda henni á útlánum og skuldum heimilanna sem fer sívaxandi og hafa vaxið í tíð þessarar ríkisstjórnar um yfir 60 miljarða kr. eða, eins og var haldið fram á Alþingi, um 100 millj. kr. á hverjum degi. Það er auðvitað eitthvað að í okkar verðtryggingarmálum þegar við eru eina þjóðin innan OECD sem höldum uppi verðtryggingu á skuldum heimilanna --- með hvaða afleiðingum? Við sjáum það fyrir okkur annað slagið að t.d. hækkun á grænmeti og brauði eykur skuldir heimilanna um hundruð millj. kr. og á þessu þarf að taka.

Ég þakka fyrir það að hæstv. ráðherra hefur staðfest að ef ríkisstjórnin ætlar að fara út í það að afnema verðtryggingu á innlánum þá þurfi málið að koma til kasta Alþingis. Þá fáum við tækifæri til þess að ræða þann mismun sem ríkisstjórnin stefnir greinilega að annars vegar varðandi verðtryggingu á innlánum og hins vegar gagnvart verðtryggingu á útlánum.