Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:30:11 (6693)

1997-05-16 10:30:11# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ekki var málsvörn hæstv. umhvrh. innihaldsmikil og er þá vægt til orða tekið. Hæstv. ráðherra vitnar til álits sem hann kennir við lagadeild Háskóla Íslands og hefur látið dreifa hér á borð manna. Hann hefur ekki fyrir því að svara efnislega niðurstöðum úrskurðarnefndar sem starfar lögum samkvæmt, lögum sem hann á að gæta. Hann hefur ekki áhuga á því að svara álitsgerð Magnúsar Thoroddsens lögmanns sem var unnin sérstaklega fyrir stjórn Hollustuverndar ríkisins. Nei, hann dregur hér upp pappír sem er skrifaður á bréfsefni Háskóla Íslands, lagadeildar Háskóla Íslands sem ekkert hefur með þessa álitsgerð að gera, frá Eiríki Tómassyni prófessor sem kemst hér að þeirri niðurstöðu sem ráðherrann vitnaði til. Hann er lögmaður sem hefur reynst ber að því í tengslum við hliðstæð mál að komast að rangri niðurstöðu samanber það sem gerðist á síðustu mánuðum árs 1995 þegar þessi sami prófessor mataði stjórn Hollustuverndar ríkisins á álitsgerð sem síðan var hnekkt með úskurði úrskurðarnefndar og laut að því samkvæmt vilja prófessorsins og mati, að þrengja rétt almennings þannig að einungis þeir sem undir verksmiðjuvegg byggju hefðu rétt til athugasemda um stóriðjurekstur. Ég held að hæstv. ráðherra ætti ekki að vera að vitna frekar í þessa álitsgerð og alls ekki að nefna Háskóla Íslands í því samhengi eða lagadeild hans. Svo virðist hæstv. ráðherra ekki hafa lesið þessa greinargerð frá prófessornum því að þar stendur m.a., virðulegur forseti, undir V:

,,Vafasamt er aftur á móti hvort síðari hluti reglugerðar\-ákvæðisins samrýmist íslenskum lögum.``

Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið þennan pappír?

Virðulegur forseti. Þetta stóra mál sem við ræðum hér er þess efnis að það er óhjákvæmilegt að leitað verði að niðurstöðu um það hver hefur rétt fyrir sér í þessu máli. Er það framkvæmdarvaldið sem er að brjóta hér rétt á almenningi með ólögmætum hætti, eða ekki? Eru þær umkvartanir ólögmætar sem fram eru komnar? Ég held að það verði að reyna á atriði sem þessi fyrir dómstólum og sjá til hver verður niðurstaðan í mati dómsvaldsins. Og ég verð að segja það sem mitt mat, það er mitt mat persónulega, að það sé öllu óvíst að sá gjörningur sem ráðherrann vann 26. mars sl. með því að gefa út starfsleyfi til Norðuráls hf. á Grundartanga fái staðist og það séu líkur fyrir því allt eins að fyrir dómi verði þeim gjörningi hnekkt. Og hvar stendur þá hæstv. umhvrh. og hver stendur ríkisvaldið í því efni? Hver er staðan?

Hæstv. ráðherra hreykir sér af því hér að hann hafi valdið og hann einn. Og hvernig fór hæstv. ráðherra með valdið? Hann gaf út starfsleyfi þegar röskar tvær vikur voru liðnar frá þeim tíma sem almenningur hafði rétt til þess að gera athugasemdir við viðkomandi starfsleyfi. Það var opnað 7. mars en starfsleyfi útgefið 26. mars. Réttur til þess að kæra samkvæmt leiðsögn ráðherrans rennur út 7. júní nk. En hæstv. ráðherra notar valdið. Hann gefur út starfsleyfið og svo kemur það bara ekki öðrum við. Það er engin leið fyrir almenning að hafa nokkur áhrif á mál og úrskurðarnefndin segir: ,,Það er ekki til neins fyrir okkur að fjalla um málið. Það kemur okkur ekki við lögum samkvæmt.`` Samt er hæstv. ráðherra að reyna að vísa til þess með einhverjum fyrirvara við undirskrift starfsleyfis að það komi til álita að það þurfi að breyta einhverju eftir að úrskurðarnefnd hefur komist að niðurstöðu. Hæstv. ráðherra stendur hér nakinn uppi með ólöglegar útgáfur reglugerða, með valdníðslu af grófu tagi og ég hef lagt spurningu fyrir ráðherrann. Hvað ætlar hann að gera? Ætlar ráðherrann að sitja undir þessu? Ætlar hann að sitja með þessa gjörninga í stóli ráðherra eða ætlar hann að velja þann kost sem honum væri sæmst, að standa upp úr þeim stóli og láta lokið afskiptum sínum af málefnum Stjórnarráðsins?