Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:23:26 (6715)

1997-05-16 15:23:26# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:23]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að arðurinn af sjávarútveginum gangi til þjóðarinnar með ýmsu móti. Ég tel að ekki þurfi að leggja á veiðileyfagjald til að tryggja að hann gangi til þjóðarinnar. Ég tel að hann gangi til þjóðarinnar t.d. í gegnum þá gengisskráningu sem ákveðin er, þar af leiðandi í gegnum verðlag á vörum og innflutningi o.s.frv.

Það breytir því ekki að hv. þm., sem svaraði mér áðan, er þeirrar skoðunar að leggja eigi á veiðileyfagjald sem hluta af auðlindastefnu eins og hann nefndi í sambandi við þau tvö frumvörp sem Alþfl. og þingflokkur jafnaðarmanna og reyndar við alþýðubandalagsmenn höfum lagt fram líka. Í tengslum við auðlindaskattinn og þá auðlindastefnu þyrfti auðvitað líka að tryggja að orkan væri verðlögð eða skattlögð eftir atvikum með sambærilegum hætti og eftir því sem undanþágurnar eru fleiri, eftir því eru möguleikarnir á því að taka upp ákvörðun af þessu tagi flóknari og erfiðari.

Það er verið að loka álveri í Gränges í Svíþjóð. Af hverju er það? Það er vegna þess að orkuverðið mun hækka. Það er vegna þess að þar eru samningarnir þannig að eigendur álversins, Gränges-fyrirtækið, verða að sætta sig við að stjórnvöld ákveði hærra orkuverð. En hér er verið að taka þennan hluta af orkugeiranum út fyrir ákvörðunarmöguleika íslenskra stjórnvalda hvort sem það er verðlag á orku eða auðlindaskattur á orku til 20 ára. Það finnst mér ekki sniðugt fyrirkomulag.