1997-05-17 01:25:11# 121. lþ. 129.14 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[25:25]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir hugmyndir hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Það er auðvitað eðlilegt að horfa á þessar breytingar sem orðið hafa sem eru þá á þann veg að vara sem áður hefur verið skipað út frá tiltekinni höfn og skapað henni tekjur fer núna landleiðina suður og út um Reykjavíkurhöfn og skapar tekjur þar. Það verður auðvitað að horfa á þetta í samhengi hvernig dreifingin á tekjustofnunum er í höfnum landsins. Þetta er ein af þeim breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum og hafa dregið úr tekjum hafna sums staðar á landinu og reyndar kannski mjög víða, en bætt stöðu hafna annars staðar. Öll þekkjum við þá þróun að valdar eru út ákveðnar safnhafnir eða útflutningshafnir. Það má kannski segja að í þeim höfnum hafi staðan batnað en í hinum höfnunum hefur staðan versnað og það sjáum við þegar við skoðum yfirlitið sem fylgir með þáltill. um tekjur og gjöld hafnanna sundurliðað eftir hverri höfn.