Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 10:47:26 (6839)

1997-05-17 10:47:26# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[10:47]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka frummælendum fyrir yfirgripsmiklar ræður sem þeir fluttu hér. Hér er um mikilvægt mál að ræða og eðlilegt að það sé rætt hér á síðustu dögum þingsins.

Virðulegi forseti. Ég hef fengið margar fyrirspurnir og ég ætla að freista þess að svara þeim.

Fyrsta spurningin sem til mín var beint var: Mun ráðherra beita sér fyrir því að ríkið taki þátt í kostnaði við þjónustu sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni? Ríkið greiðir nú laun sálfræðinga og félagsráðgjafa sem starfa á stofnunum á vegum menntmrn., félmrn. og heilbr.- og trmrn. Þar starfa þessar stéttir víða að málefnum barna og unglinga og vinna mikilsvert starf. Á stofnunum heilbrigðiskerfisins starfa bæði félagsráðgjafar og sálfræðingar að málefnum barna og unglinga en vonandi gefst kostur á að njóta starfskrafta þessara stétta í enn ríkari mæli.

Önnur spurning: Er fyrirhugað að efla og styrkja starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar?

a. Auka rekstrarlegt sjálfstæði deildarinnar? Engin áform eru um að færa barna- og unglingageðdeildina frá Ríkisspítölum en í skoðun er hvort deildin eigi betur heima á Barnaspítala Hringsins sem hluti af geðdeild.

b. Auka framlög til deildarinnar? Sérstakar aukafjárveitingar, fyrst 12 milljónir og síðan 3 milljónir, voru lagðar til deildarinnar árið 1996 til að auka sérfræðiþjónustu og 12 millj. kr. aftur 1997 hafa verið veittar til barna- og unglingageðdeildarinnar. Ætlunin með fjárveitingunni var m.a. að koma á upplýsingamiðstöð vegna vímuefnavandans eins og kom fram í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur hér áðan. Reyndin varð sú að barna- og unglingageðdeildinni var þetta ekki mögulegt og því var farið af stað með miðstöð í Heilsuverndarstöðinni og var veitt til þess fjármagn. Er þetta gert í samvinnu m.a. við Reykjavíkurborg og Rauða krossinn. Ef rekstur þessarar miðstöðvar gengur vel þá mun verða farið í fleiri sveitarfélög með slíka upplýsingamiðstöð. Þó var ákveðið að barna- og unglingageðdeildin héldi þessari sérstöku fjáveitingu óskertri og var áformað að bæta þar úr skorti á sérhæfðu starfsfólki, en nánar verður vikið að þeim vanda síðar.

c. Verða settar á fót langtímaeiningar? Almennt er stefnt að því að stytta legu barna á stofnunum og á það einnig við í þessu tilviki. Fagfólk á þessu sviði metur þörf fyrir langlegueiningar hvort sem um er að ræða heilar deildir eða örfá rúm. Fremur er lögð áhersla á dag- og göngudeildir og eflingu þeirra.

d. Verður samstarf og ráðgjöf við sveitarfélög og skóla vegna sálrænna og/eða geðrænna vandamála barna og unglinga aukið? Nú er grunnskólinn hjá sveitarfélögum og þar með sálfræðiþjónustan þar. Skólaheilsugæslan starfar í hverjum grunnskóla landsins enda þótt ríkið reki heilsugæslustöððvarnar. Samstarfið er því mjög náið. Ef átt er við með spurningunni hvort gert sé ráð fyrir aukinni ráðgjafarþjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar við sveitarfélög og skóla er svarið að eins og sakir standa sinnir deildin þeirri ráðgjöf sem hún getur sinnt vegna anna og er ekki raunhæft að gera ráð fyrir aukinni ráðgjafarþjónustu á vegum hennar meðan ekki ráðast þar til starfa fleiri sérfræðingar.

e. Hyggst ráðuneytið beita sér á einhvern hátt fyrir því að fá til starfa sérfræðinga í málefnum barna með geðræna sjúkdóma eða vandamál? Með þeirri sérstöku fjárveitingu er ég greindi frá hér á undan var ætlunin að fjölga sérmenntuðu fólki á barna- og unglingageðdeildinni og tókst það að nokkru leyti. Erfiðlega gengur hins vegar að ráða fleiri sérmenntaða lækna til starfa. Einn aðalvandinn er sá að mjög fáir íslenskir læknar hafa bætt við sig sérmenntun á sviði barna- og unglingageðlækninga. Sú spurning hefur vaknað hvort heilbrigðisyfirvöld geti með einhverjum hætti haft áhrif á þá þróun því þörf fyrir fleiri einstaklinga með sérmenntun á þessu sviði er vissulega fyrir hendi.

Þriðja spurningin er: Mun hækkun sjálfræðisaldursins hafa áhrif á starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar eða á aðra starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, t.d. varðandi meðferðarúrræði vegna fíkniefnanotkunar unglinga? Hvort einstaklingur er lagður inn á barnadeild eða fullorðinsdeild ræðst af líffræðilegum aldri og þroska og því aldursmörk aðeins notuð sem viðmið. Fagfólk mun meta hvert tilvik fyrir sig. Hugsanlega getur hærri sjálfræðisaldur gagnast við meðferð þeirra er neyta fíkniefna og gefið fagfólki og foreldrum meiri möguleika á að hjálpa þessum ungmennum.

Fjórða spurningin: Er fyrirhugað að skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta hvað varðar málefni barna og unglinga? Börn og unglingar með geðræn vandamál og fjölskyldur þeirra sækja þjónustu víða hjá stofnunum sem heyra m.a. undir félmrn. og menntmrn. auk heilbr.- og trmrn. Stofnanir heilbrigðisþjónustunnar sinna þó alla jafna þeim sem veikastir eru og þurfa mesta hjálp. Því er mjög mikilvægt að samspil þessara stofnana sé gott þannig að þessi börn og unglingar fái þjónustu við hæfi. Nú er að störfum nefnd sem skipuð er af forsrh. sem hefur það hlutverk að fjalla um valdmörk ráðuneyta heilbrigðismála, menntamála og félagsmála. Nú í vetur skipaði ég stóra þverfaglega nefnd um stefnumótun í geðheilbrigðismálum og vinnur nefndin ötullega. Eitt af viðfangsefnum nefndarinnar er að sjálfsögðu málefni barna og ég veit að þau fá þar ítarlega umræðu. Breytingar verða á starfi margra stofnana yfir sumartímann bæði vegna lokana og annarra árstímabundinna ráðstafana. Við slíkar aðstæður er mjög brýnt að tryggja að þjónusta verði samfelld og hnökralaus fyrir þessi börn og unglinga. Því eru nú hafnar viðræður milli aðstoðarmanna heilbrrh., félmrh. og fjmrh. sem tryggja munu að þörfum þessara hópa verði mætt.

Virðulegi forseti. Börn og unglingar hér á landi eru um 80--90 þúsund og því um þriðjungur þjóðarinnar og þarfir þeirra eru að sjálfsögðu mjög misjafnar fyrir heilbrigðisþjónustu. Flest þurfa þau sem betur fer litla þjónustu aðra en ungbarnaeftirlit og hina hefðbundnu skólaheilsugæslu. Við höfum löngum talið að umönnun barna að þessu leyti sé vel fyrir komið komi ekki upp sérstök tilvik.

Á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga þann 12. þessa mánaðar var efnt til málþings um heilbrigði barna og unglinga. Þar var m.a. rætt um hvernig breytingar á heimilum og samfélagi kalla á breytingar í áherslum skólaheilsugæslu og þörf fyrir félagslegan og andlegan stuðning eykst stöðugt að sögn þeirra er best til þekkja. Skólaheilsugæslan ásamt kennurum og sálfræðiþjónustu í skólum gegnir lykilhlutverki við að finna þau börn sem á hjálp þurfa að halda og veita þeim viðeigandi aðstoð. Það er mikilvægt að grípa strax inn í áður en vandamálin verða of erfið. Ég tel nauðsynlegt að leggja áfram mikla og vaxandi áherslu á skólaheilsugæsluna en jafnframt að tryggja að sérþekking sé til staðar þegar leitað er til lækna á heilsugæslustöðvum vegna vanda á þessu sviði.

Nú í vetur var því gert átak með aðstoð héraðslækna til að efla þekkingu starfsfólks í heilsugæslunni á greiningu og fyrstu meðferð einstaklinga með geðræn vandamál er leita til heilsugæslunnar. Nú í haust verður tilraunaverkefni með iðjuþjálfun í heilsugæslu komið af stað og svipað verkefni er í gangi varðandi sjúkraþjálfun. Þessi verkefni koma til með að gagnast sérstaklega við greiningu og meðferð hjá börnum sem eru m.a. misþroska.

Mikilvægast af öllu þegar börn eiga í hlut er að við færum okkur í nyt allt sem hægt er til að koma í veg fyrir sjúkdóma og að við beitum öllum tiltækum varnarráðum. Á það ekki síst við um vímuefnavandann sem allt of margir unglingar glíma við. Fyrir skömmu var opnuð í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur upplýsingamiðstöð, eins og ég sagði hér áðan, fyrir þessa unglinga og fjölskyldur þeirra. Þetta er tilraunaverkefni heilbrrn., Reykjavíkurborgar og Rauða krossins.

Virðulegi forseti. Börn og unglingar eru hluti af stærri heild, hluti af fjölskyldu og því er mikilvægt að tryggja að fjölskyldur veikra barna séu í stakk búnar til að axla þá ábyrgð sem felst í því að ala upp barn með langvinna sjúkdóma eða fötlun. Hið nýja frv. sem mælt var fyrir hér á Alþingi í nótt um umönnunarbætur til aðstandenda þessara barna er því langþráður áfangi og vonast ég til að við náum að afgreiða þetta mikilvæga mál hér á hinu háa Alþingi í dag.