Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:47:14 (6872)

1997-05-17 13:47:14# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vísa á bug öllum ásökunum um valdníðslu og að ég hafi vísvitandi gefið þinginu rangar upplýsingar. Ég hef ekki haft tóm til að lesa vandlega svar Ríkisendurskoðunar, hvað þá að ræða það við Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda né heldur sérfræðinga. Ég hef ekki haft tóm eins og menn hljóta að skilja til þess að fara yfir þá útreikninga sem þarna eru lagðir fram. En við fljótan yfirlestur sé ég ekkert sem mér kemur á óvart eða hnekkir málflutningi mínum. Það eru vangaveltur um hugmyndir sem þarna eru settar fram og mér kemur ekkert á óvart þótt Byggingarsjóður verkamanna verði gjaldþrota áður en lagt um líður ef ekkert er að gert. Það er enginn nýr sannleikur.

Það stendur yfir endurskipulagning Húsnæðisstofnunar og ég bíð eftir áliti nefndar sem er að vinna að því verki um félagslega íbúðakerfið. Hún skilar af sér í næsta mánuði og ég vænti þess að geta í framhaldi af því starfi lagt fram frv. þegar við komum saman í haust.

Ég held að óhjákvæmilegt sé að endurbæta félagslega kerfið. Hvers vegar eru flestir óánægðir með þetta kerfi? Það er sama hvar gripið er niður. Sveitarfélögin í landinu hafa ítrekað krafist breytinga á félagslega kerfinu og það er ekki hægt að daufheyrast við því, og færa sterk rök fyrir máli sínu. Þeir sem búa í félagslega kerfinu eru margir mjög óánægðir og það er kannski meginatriðið. Það verður að laga kerfið. Fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nýverið ályktað um málið og þeir leggja til og ég tek það fram að það er Samband íslenskra sveitarfélaga, það er ekki mín tillaga að svo komnu máli, þeir leggja til tvenns konar kerfi og með valfrelsi sveitarfélaganna hvort kerfið þau kjósa. Annað er um félagsleg íbúðarlán þar sem þeir sem færu inn í félagslega kerfið eða uppfylltu þau skilyrði til þess að vera þar fengju lánsloforð og færu síðan og keyptu íbúðir sínar á frjálsum markaði. Þeir leggja enn fremur til að núverandi kerfi verði endurbætt, einfaldað, og sveitarfélög eigi kost á því að halda því áfram. Þetta er mál sem er til meðferðar í nefndum á vegum ráðuneytisins og í ráðuneytinu sjálfu og í Húsnæðisstofnun. Ég vænti þess að geta lagt fram frv. í haust um endurbætur á félagslega kerfinu.

Herra forseti. Varðandi þau dæmi sem hv. 13. þm. Reykv. lagði fram hef ég ekki haft tækifæri til þess að fara yfir þau en ég stend við hvert orð í því svari sem ég gaf í vetur við fsp. hv. þm. Það er tekið með öðrum hætti og með annars konar dæmum í svari Ríkisendurskoðunar og ég hef ekki haft tækifæri til þess að grandskoða þau.