Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 21:18:01 (17)

1996-10-02 21:18:01# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Í efnahagslífinu eru ýmis jákvæð teikn á lofti og hafa reyndar verið um langt skeið. Efnahagur þjóðarinnar hefur farið batnandi sökum góðra skilyrða jafnt innan lands sem utan. Við höfum búið við metafla og hagstætt útflutningsverð. Atvinnuleysi er á niðurleið. Afkoma fyrirtækja hefur þegar á heildina er litið verið betri en í langan tíma, víða bullandi hagnaður. Meira að segja veðrið hefur verið gott í sumar. Af öllum þessum ástæðum hafa menn almennt verið nokkuð brattir og bjartsýnir.

Forsætisráðherrann hæstv. skýrði okkur frá því fyrr í kvöld af hverju hann teldi þetta góðæri stafa. Í fyrsta lagi væri þetta ríkisstjórninni að þakka. Í öðru lagi væri þetta vegna aðgerða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Í þriðja lagi væri þetta vegna þess hve góðan skilning þjóðin hafi á aðgerðum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Og í fjórða en síðasta lagi væri þetta vegna þess að ytri skilyrði hafi lagst á sveif með innlendum skilyrðum, sem á mannamáli þýðir að það fór að fiskast betur, markaðsverð á afurðum þjóðarinnar batnaði og eftirspurn eftir þeim jókst.

Nú hefur sjálfumgleði aldrei þótt sérstaklega aðdáunarverð á Íslandi. Ég er þó þeirrar skoðunar að það sé almennt til góðs að menn séu glaðir og ánægðir og það á vissulega líka við um ráðherra í ríkisstjórnum. Hins vegar gerir maður þær kröfur til ríkisstjórna að þær gleðjist og lýsi ánægju sinni á réttum forsendum. Og vitanlega er staðreyndin sú að góðæri Íslendinga er ekki vegna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar heldur þrátt fyrir þá ríkisstjórn eða ríkisstjórnir því þær eru nú orðnar tvær, fyrst í samstarfi við Alþfl., Jafnaðarmannaflokk Íslands, og nú með Framsfl.

Þegar litið er yfir ferilinn frá vordögum 1991, hvort sem er í skattkerfinu þar sem verulegar breytingar hafa verið gerðar, nánast allar á kostnað launafólks, eða hvort litið er á húsnæðiskerfið þar sem nú bjóðast sífellt færri úrræði með þyngri greiðslubyrði, eða á heilbrigðisþjónustuna þar sem álögur hafa verið stórauknar, eða hvort skyggnst er um í skólakerfinu þar sem skólagjöld hafa verið innleidd samfara niðurskurði og stórversnandi lánasjóði, eða hvort litið er á þróun almannatrygginga þar sem orðið hafa stöðugar og stórfelldar árásir á lífeyrisþega og öryrkja, hvar sem litið er þá er hið sama upp á teningnum. Frá vorinu 1991 hefur verið stöðug og viðstöðulaus kostnaðarverðbólga fyrir launamanninn, barnafólkið, námsfólk, sjúklinga og öryrkja.

Einhverjir kynnu að vilja orða það svo að það sem af er þessum áratug hafi ríkt sannkölluð óöld hjá öllum þeim hópum sem þurfa á samhjálp og velferðarþjónustu að halda. Þarna hefur ekki verið og er ekki enn góðæri heldur óöld.

Hæstv. forseti. Er það að undra að hún skuli vekja óhug í þjóðfélaginu vitneskjan um að ráðherrar ríkisstjórninnar og sá meiri hluti sem þeir styðjast við hér á Alþingi Íslendinga, skuli nú að nýju vera að koma saman til haustverkanna með ný fjárlög í farteskinu, ný frumvörp, nýtt frumkvæði í þágu stóreignafólks og samkvæmt því sem við höfum heyrt í stefnuræðu hæstv. forsrh., nýja atlögu að velferðarþjónustunni í landinu? Með öðrum orðum nýtt frumkvæði, nýja árás gegn launafólki á Íslandi.

Er hér tekið of djúpt í árinni? Nei. Hann sagði það beint út og tæpitungulaust, forsætisráðherrann, áðan í stefnuræðu sinni að hann teldi að upphaf þessarar ríkisstjórnar hefði verið gott og mundi leiða til góðrar og farsællar tíðar.

Upphafið var gott segir oddviti ríkisstjórnar sem keyrði lagafrumvörp í gegnum þingið sem sett hafa allan vinnumarkaðinn hér á landi í stórkostlegt uppnám. Upphafið var gott, er mat oddvita ríkisstjórnar sem lét það verða sín fyrstu verk að hefja atlögu gegn launafólki, atlögu gegn lífeyrisþegum og atlögu gegn öryrkjum. Og hvað skyldu þeir annars vera margir sem í alvöru, svona innst inni, þykir þetta vera gott upphaf hjá einni ríkisstjórn? Og þá er ég ekki að tala um þá sem eiga beinna hagsmuna að gæta því vitanlega er það rétt hjá hæstv. forsrh. að góð tíð og farsæl bíður þeirra stóreignamanna sem nú munu fá afslátt af arði og gróða samkvæmt svokölluðum fjármagnstekjulögum sem þröngvað var í gegnum þingið sl. vor. Og vissulega er það einnig rétt hjá forsætisráðherranum að stjórnarstefnan hefur leitt til góðrar og farsællar tíðar ekki síst fyrir þá sem versla, hagnast og braska með fiskveiðikvóta. Og það hefur leitt til góðrar og farsællar tíðar hjá forréttindahluta þjóðarinnar að hafa við völdin ríkisstjórn sem hefur einkavinavætt fyrir mörg hundruð milljónir króna og hælir sér af því. En fyrir hinn almenna launamann hefur þetta ekki verið góður tími og fyrir barnafólkið, námsfólkið, húsnæðislausa, hefur þetta ekki verið góður tími. Og það er ósvífni af verstu sort þegar forsætisráðherra þjóðarinnar, hæstvirtur, leyfir sér að hafa í hótunum við fulltrúa láglaunafólks í landinu eins og hæstv. forsrh. gerði í stefnuræðu áðan þegar hann talaði gegn talsmönnum launafólks sem á undanförnum dögum hafa verið að leggja áherslu á nauðsyn þess að stórhækka taxtavinnukaup hjá láglaunafólki á Íslandi.

Ég trúi því ekki, sagði forsætisráðherrann, að nokkur forustumaður á vinnumarkaði vilji innleiða óöld óðaverðbólgu í landinu. Er hæstv. forsrh. að beina orðum sínum til formanns Hlífar? Er hæstv. forsrh. að beina orðum sínum til formanns Verkakvennafélagsins Framsóknar, Dagsbrúnar eða Verkamannasambandsins? En í öllum þessum samtökum hefur verið rætt um nauðsyn umtalsverðra launahækkana til þess að fólk geti mætt skertum tekjum og auknum tilkostnaði, til að geta risið undir þeim klyfjum sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa lagt þeim á herðar og síðan hafið baráttu fyrir mannsæmandi lífi. ,,Ég trúi því ekki að menn ætli að innleiða óöld``, segir hæstv. forsrh. þegar íslenskt verkafólk vill standa í fæturna. En þegar Seðlabankinn, stjórntæki stjórnvalda, hefur um það forgöngu með handafli að hækka vexti, að auka hraðann á vaxtahjólinu og þar með verðbólguhjólinu, þá er þagað þunnu hljóði í Stjórnarráðinu. Og þó hvert einasta mannsbarn í landinu viti að auk leigubrasksins með kvóta þá er það hávaxtastefnan sem hefur valdið meiri skaða fyrir fiskiðnað og annan atvinnurekstur á Íslandi á síðustu árum en nokkur annar þáttur í okkar efnahagslífi.

Ég vara við þessari þróun og heiti á alla landsmenn að koma vitinu fyrir þessa ríkisstjórn. Því miður eru sterk teikn á lofti um að hún hafi ekkert lært. Við völdum vaxtaleiðina, sagði Davíð Oddsson vorið 1991, og enn er ríkisstjórn hans við sama heygarðshornið. Nú hótar hún að skera niður til menntamála þvert ofan í öll loforð og hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni áðan að framhaldsskólinn yrði skotmarkið að þessu sinni. Auglýsti hann eftir málefnalegri umræðu um það efni. Og væntanlega á einnig að ræða málefnalega um áframhaldandi sölu á eignum ríkisins sem hæstv. forsrh. kvaðst mundu beita sér fyrir og tók sérstaklega fram að reynt yrði að auðvelda fyrirtækjum og einstaklingum að eignast hlut. Við spyrjum hvort það sé samkvæmt SR-módelinu, þar sem stóreignamenn á Íslandi fengu gefins, upp í hendurnar, mörg hundruð milljónir króna af almannafé. Eða á e.t.v. að fara einhverja aðra leið? Eru einhverjar nýjar hugmyndir uppi hjá Verslunarráðinu að þessu sinni?

Á þessum forsendum öllum leyfir hæstv. forsrh. þjóðarinnar að auglýsa hér í stefnuræðu eftir þjóðarsátt, eftir þjóðarsamstöðu. Á þessum forsendum verður vitaskuld aldrei nein þjóðarsátt, nein þjóðarsamstaða. Hins vegar munum við innan þingflokks Alþb. og óháðra leggja okkar af mörkum til að snúa óheillaþróun síðustu ára við og það gerum við með tillögusmíð og lagafrumvörpum, sumum hverjum sem við höfum þegar lagt fram, þar sem gert er ráð fyrir því að bæta og jafna lífskjörin í landinu, koma í veg fyrir sóun og brask hvort sem það er með kvóta eða arð, láta almennt launafólk, skólafólk, sjúklinga, öryrkja og lífeyrisþega fá aftur það sem af þeim var tekið. Nota hagvöxtinn og milljarðahagnað þjóðarbúsins til þess að allir þegnar þjóðfélagsins fái notið hans en ekki fáeinir útvaldir. Við teflum fram fjölskylduvænni jöfnunarstefnu. Um hana gæti skapast sátt í þjóðfélaginu. Um hana verður að skapast sátt í þjóðfélaginu.