Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 21:37:36 (19)

1996-10-02 21:37:36# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. hefur lesið þjóðinni og þinginu pistilinn og væntanlega sett punkt á eftir. Ekki verður sú ályktun dregin af boðskapnum að hinn almenni launþegi, sem er búinn að bíða lengi eftir langþráðum efnahagsbata, eigi að fá eitthvað í sinn skerf eða konan, sem enn situr uppi með 10--20% lægri laun en karlinn við hliðina á henni, launamun sem eingöngu má skýra með kynferði. Ekki er orð um það að ríkisstjórnin ætli að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þó að hæstv. ráðherra segi störf ríkisstjórnarinnar og stefnu vera í góðu samræmi við stjórnarsáttmálann stutta, þá virðist hafa orðið róttæk stefnubreyting á nokkrum eftirtektarverðum sviðum. Þar ber hæst það ákvæði stjórnarsáttmálans að stefnt verði að því að fest verði í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Öfugt við þá stefnu hefur verið tilkynnt að frv. til laga um samningsveð verði endurflutt nú í haust með hinu umdeilda ákvæði um að veðsetja megi aflaheimildir. Margir túlka slíkt ákvæði sem viðurkenningu á því að kvóti sé í einkaeign en ekki sameign þjóðarinnar. Þetta eru að mínu mati langalvarlegustu skilaboðin frá stjórninni nú í haust. Þau koma hins vegar ekki skýrt fram í stefnuræðunni sjálfri. Hvers vegna ekki, hæstv. forsrh.? Þjóðin verður að fara að átta sig á því að ef kvótinn verður skilgreindur sem einkaeign er verið að leggja til mestu eignatilfærslu sem um getur í sögu þjóðarinnar, frá almenningi til útgerðarmanna. Þetta er mál allra, líka okkar í þéttbýlinu, líka okkar kvenna og barnanna okkar, ekki einungis sjómanna, sjávarplássa og sægreifa. Með því að festa hið lögbundna sameignarákvæði í sessi og leigja kvótann, jafnvel að óbreyttu kvótakerfi og undir núverandi gangvirði, mætti stórhækka persónuafslátt eða leggja niður tekjuskatt. Þó að a.m.k. tveir þingflokkar séu fylgjandi þessu dugar það ekki til ef Framsfl. ætlar að leggjast á sveif með sægreifunum og Sjálfstfl. Ef þetta mál er ekki nógu mikilvægt til að það steyti á skerjum stjórnarsamstarfsins hef ég ekki trú á að nokkurt mál muni gera það.

Hitt atriðið sem greinilega sýnir stefnubreytingu er það að í stað þess að efla framhaldsskólana ekki síst starfsnám og verkmenntun, á að skera niður framlög til framhaldsskóla, eins og hér hefur margoft komið fram í kvöld, og það um heilar 200 millj. Við setningu nýrra laga um framhaldsskóla sl. vor benti ég á að frv. virtist hafa þann megintilgang að tryggja það að menntmrh. hafi meiri hluta í öllum skólanefndum framhaldsskóla þar sem þær umbætur sem boðaðar voru t.d. á verknámi mætti gera með því að veita meira fjármagn til framhaldsskólans án lagabreytinga. Nú kemur í ljós að spá mín var rétt. Hæstv. ráðherra hefur fengið sín völd og notar þau til að leggja niður skóla og draga úr námsframboði, en ekki til að efla verkmenntun.

Í síðustu viku sat ég þrjár ráðstefnur sem sýndu að mikið skortir á að þessi ríkisstjórn hafi framtíðarsýn og átti sig á því að 21. öldin er að bresta á. Á ráðstefnu um bætta samkeppnisstöðu Íslands var minnt á að þrátt fyrir gott efnahagsástand á Íslandi lifum við í grundvallaratriðum á einni náttúruauðlind líkt og t.d. Kúveit. Bent var á að við höfum ýmsa möguleika til að efla vöruþróun, iðnað og viðskipti, ekki síst þann að hafa næstflest alnetstengi á mann í OECD-löndunum. En nauðsynlegt væri þá að leggja aukið fé í menntun fólks og nýsköpun. Það sem meira er sjávarútvegsstefnan er æ meir farin að líkjast rányrkju og hvað ættum við að gera ef auðlindin þrýtur.

Á ráðstefnu um sjávarútveginn og Evrópusambandið vöktu athygli mína fullyrðingar útgerðarmanna um að íslenskur sjávarútvegur væri ekki ríkisstyrktur og órökstudd nauðsyn þess að spyrða saman leyfi til úthafsveiða og veiðar innan lögsögunnar. Á meðan útgerðarmenn fá andvirði milljarða í kvóta, sem er sameign þjóðarinnar, á silfurfati sem þeir geta síðan verslað með að vild og fjármagnað úthafsveiðarnar með er það hrein blekking að halda því fram að sjávarútvegurinn sé ekki ríkisstyrktur.

Á jafnréttisráðstefnu norrænna háskólastjórnenda fyrir nokkrum dögum kom fram að sænska ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að fjölga konum í toppstöðum þjóðfélagsins almennt. Meðal annars stendur til að fjölga kvenprófessorum upp í 40%. Kvenprófessorar eru nú á bilinu 6--12% á Norðurlöndum og lægst er hlutfallið á Íslandi. Í Svíþjóð hafa 18 stöður verið eyrnamerktar í þessum tilgangi í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi um leið og almennt er verið að skera verulega niður í sænska velferðarkerfinu. Í sænsku ríkisstjórninni eru margar konur og það skilar sér í djarfri stefnumótun í jafnréttismálum. Svíar komu sér t.d. upp skýrum farvegi fyrir kynferðislega áreitni í háskólum árið 1992 á meðan Noregur og Finnland gerðu það 1995 og 1996, enda voru Svíar fyrstir til að taka kynferðislega áreitni inn í sín jafnréttislög. Hér fékkst ekki einu sinni rædd þáltill. um kynferðislega áreitni á síðasta þingi á því herrans ári árið 1996.

Þá hafa Svíar komið upp markvissu kerfi hollvina eða svokallaðra ,,mentora`` fyrir konur og karla sem eru að koma til starfa í háskólum eða í atvinnulífinu til að tryggja að upplýsingar úr hinu óformlega valdakerfi strákanna komist til þeirra á sem markvissastan hátt. Hvílíkur munur væri að hafa ríkisstjórn sem þorir í jafnréttismálum. Hvenær kemur sá tími hjá ríkisstjórn Íslands?

[21:45]

Þó að konur sæki fast fram á ýmsum sviðum þjóðfélagsins eru ótrúlegustu leiðir notaðar til að draga úr völdum þeirra og mikilvægi. Þekktar aðferðir eru að kalla konu í valdastöðu gælunafni án starfstitils, stelpuna, daðrarann, þá erfiðu, valdasjúku eða puntudúkkuna í samhengi sem alls ekki á við. Um þetta þurfa konur að fræðast til að geta tekið svona mál sem og grófari áreitni markvissum tökum. Það er reynsla kvenna hvort sem er í stjórnmálum, háskólum eða atvinnufyrirtækjum um víða veröld að þrátt fyrir fögur jafnréttismarkmið er mismununin enn til staðar, en oft á mun duldari og ógeðfelldari hátt en áður þegar konur eru orðnar raunverulegir keppinautar um virðingu og völd. Ég vil nota tækifærið nú og skora á konur á sem flestum vinnustöðum til að taka sameiginlega og markvisst á svona málum. Við kvennalistakonur munum vekja athygli á og flytja tillögur um ýmis kvenfrelsis- og jafnréttismál á þessu þingi og vonumst eftir góðu samstarfi við alla sem raunverulegan áhuga hafa á jafnréttismálum innan þings sem utan.

Herra forseti. Athyglisverðast á áðurnefndri ráðstefnu um samkeppnisstöðu Íslands var hins vegar það að ekkert pláss var fyrir starfsfólkið og fjölskyldur þess í umræðunni um samkeppnisstöðu Íslands þar sem allt gekk út á þurrar hagtölur um skilvirkni. Ef Ísland væri land þar sem gott er að ala upp börn, ef umhverfið væri manneskjulegt og fjölskyldunni liði vel, þá væri landið samkeppnishæfara um gott vinnuafl en ella. Í tímaritinu Business Week var nú í september greint frá umfangsmikilli könnun á því hvað bandarísk stórfyrirtæki bjóða upp á til að auðvelda fólki að sameina fjölskyldulíf og vinnu við fyrirtæki. Þetta er atriði sem ræður úrslitum um það hvert besta starfsfólkið leitar. Íslenskir atvinnurekendur, ríkið þar með talið, verða að hverfa af braut láglaunastefnu og yfirvinnuþrælkunar ef þeir ætla að vera samkeppnisfærir um vinnuafl og koma í veg fyrir landflótta. Bætt fæðingarorlof fyrir mæður og feður, sveigjanlegur vinnutími, aðgangur að heilsurækt, vetrarfrí, fjölskyldumiðar í leikhús og menningarviðburði, sumarhús, bætt þjónusta við aldraða, sjúka og fatlaða, fyrsta flokks skólar og dagvistir, góður lánasjóður fyrir námsmenn, allt eru þetta dæmi um atriði sem hið opinbera og fyrirtækin geta lagt af mörkum til að starfsfólki og fjölskyldum þeirra líði betur. Vaxandi ofbeldi og fíkniefnaneysla hér á landi eru hættulegar viðvaranir sem ráðamenn, atvinnurekendur og foreldrar verða að taka alvarlega. Það er ekki nóg að tala árvisst á Alþingi um þessi mál. Aðgerða er þörf sem ná til kjarna hins daglega lífs hjá sérhverri fjölskyldu. Huga þarf jafnt að þörfum allra í fjölskyldunni, ekki síst barnanna. Þar er styttri vinnutími foreldra þeirra, vinna fyrir alla og lífvænleg laun lykilatriði auk fyrsta flokks menntakerfis.

Herra forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Við kvennalistakonur munum á komandi þingi leggja áherslu á skynsamlega nýtingu auðlinda í sameign þjóðarinnar og réttláta skiptingu arðsins af þeim, á eflda menntun, nýsköpun og rannsóknir, bættan aðbúnað barnafjölskyldna, bætt kjör launafólks, jöfnun kosningarréttar og síðast en ekki síst bætta stöðu kvenna eða jafnstöðu kvenna og karla. Við vonumst eftir góðu samstarfi við alla þá sem vilja vinna að framgangi þessara mála. Konur eru að sækja á víða í þjóðfélaginu og það er lýðræðisleg lágmarkskrafa að Alþingi sé ekki einungis í takt við heldur styðji beinlínis þá þróun. --- Góðar stundir.