Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 16:36:52 (69)

1996-10-07 16:36:52# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:36]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á undanförnum áratugum hef ég, bæði meðal nokkurra kunningja minna og þó sérstaklega sem kennari við grunnskóla, kynnst fátækt sem ég hafði haldið að ekki væri lengur til í okkar þjóðfélagi nema þá hjá sérstöku ógæfufólki sem hefði lent á skjön við þjóðfélagið vegna óreglu og ætti af þeim ástæðum erfitt uppdráttar. En ég hef kynnst fjölskyldum þar sem báðir foreldrarnir leggjast á eitt og vinna allt það sem býðst. Börnin líða vegna þess hve mikið er ætlast til að þau bjargi sér sjálf og hafi ofan af fyrir sér í fjarveru foreldra og samt ná endar ekki saman og í fyllingu tímans þarf fólk að sjá á bak húsnæði sem það hefur lagt hart að sér við að eignast. Ég hef kennt börnum sem ævinlega hafa verið út undan þegar skólinn stendur fyrir einhverju sem þarf að borga, t.d. leikhúsferðum, og fyrir tveim árum voru svo mörg börn sem sitja þurftu heima í þeirri einu leikhúsferð sem skipulögð var árlega á vegum skólans að við kennararnir ákváðum að leggja leikhúsferðir niður.

Ég hef lent í því að þurfa að hafa afskipti af málum þegar börn lágu veik heima og foreldrar höfðu ekki ráð á að kalla á lækni og þegar læknishjálp loks barst og ávísa varð sýklalyfi voru ekki til peningar á heimilinu til að leysa lyfið út. Í þessum tilvikum var um að ræða reglusamt láglaunafólk sem gerði allt sem það gat, en vinnan var stopul, húsnæðiskostnaður hafði vaxið fólki yfir höfuð og skammtímalán höfðu verið tekin til að rétta dæmið af. Þetta er sá veruleiki sem hefur blasað við á nýliðnum árum og þessu fólki hefur verið sagt að herða sultarólina. Þetta væru tímabundnar þrengingar. Brátt kæmi betri tíð með blóm í haga. Nú er það komið, góðærið. En hvert fór það? Ekki til þeirra sem lægst hafa launin, svo mikið er víst. Þau 25% íslenskra launþega sem hafa undir 95 þús. kr. á mánuði í heildarlaun voru skyndilega sögð hafa ógnað stöðugleikanum margrómaða og vextir voru með tilskipunum frá Seðlabanka hækkaðir með handafli áður en verkalýðsfélög höfðu svo mikið sem mótað kröfugerð sína. Hæstv. forsrh. varaði sérstaklega við launakröfum þessa láglaunahóps í stefnuræðu sinni hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum.

Ég þekki sjálf margt fólk, aðallega þó kvenfólk, sem hefur innan við 60 þús. kr. á mánuði í útborguð laun fyrir fullan vinnudag og þarf af þeim launum að sjá sér farborða. Að draga fram lífið á þvílíkum launum er afrek. Hver dagur er harðsótt og hatrömm glíma. Fólk sem er í þessari aðstöðu verður að neita sér um alla skapaða hluti, útgjöld sem ýmsir telja ekki umtalsverð, svo sem bíómiðar, stílabækur fyrir börnin, að ég tali nú ekki um læknishjálp og lyf. Slík útgjöld ríða fjárhag fólks í þessari aðstöðu á slig.

Ég hef sagt það fyrr og segi það enn að þessi meðferð á fólki er smánarblettur á þjóðinni. Samt finnst mér eins og áhugi stjórnvalda á að spyrna við fótum og hækka t.d. lægstu laun og skattleysismörk og leggja í staðinn skatta á þá sem eitthvað er af að hafa eða koma á sérstökum láglaunabótum sé ekki mikill. Stundum finnst mér eins og stjórnmálamenn trúi því ekki að það sé í raun og veru fjöldi fólks sem má sæta því hlutskipti að draga fram lífið á launum sem hvorki er hægt að lifa af eða deyja. Það eru því miður ekki allir sem eiga þess kost að vinna eftirvinnu hversu mikið sem þeir þurfa þess við. Ég er ekki í vafa um að ef sú spurning væri lögð fyrir hv. alþingismenn hvort þeir ættu að gæta bróður síns, þá mundu þeir allir svara henni játandi. Þess vegna finnst mér að við eigum öll að ganga til þess verks að jafna hér lífskjör og útrýma í eitt skipti fyrir öll þeirri nýju fátækt sem hefur herjað á hluta þjóðarinnar á undanförnum árum.

Alþb. hefur þegar bent á nokkrar leiðir til þess og við erum tilbúin að taka undir þær tillögur sem koma frá öðrum flokkum og ganga í þessa átt. Mestu skiptir að við sameinumst um að leysa vandann. Í kosningabaráttunni vorið 1994 vöfðust lausnirnar ekki fyrir neinum. Þá var enginn stjórnmálaflokkur svo aumur að hann ætti ekki ráð til þess að leysa vanda láglaunafólks í landinu. Meira að segja ríkisstjórnarflokkarnir höfðu ráð undir rifi hverju, sérstaklega þó annar þeirra. Hvar eru þau úrræði nú?