Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:05:50 (74)

1996-10-07 17:05:50# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:05]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessari utandagskrárumræðu. Öllum er ljóst að þó að efnahagsbatinn hafi ekki varað lengi eftir sjö ára stöðnun þá skilar hann sér illa og seint til þeirra sem verst eru settir, þ.e. til sjúkra, aldraðra og barnmargra fjölskyldna m.a. vegna jaðarskatta, lágra grunnlauna og óhóflega langs vinnutíma. Við þessa upptalningu má bæta hinum almenna íslenska íbúðarkaupanda, atvinnulausum og börnum þessa lands sem njóta ekki menntakerfis eða foreldra sinna í sama mæli og börn í nágrannalöndunum.

Hæstv. forsrh. benti á það í umræðunni áðan að Norðmenn leggi nú fram fjárlög með gífurlegum greiðsluafgangi. Í því sambandi vil ég benda á eitt: Norðmenn lifa að stórum hluta á einni meginauðlind eins og við Íslendingar þó að hlutur olíunnar í efnahagskerfi Norðmanna sé ekki eins stór og hlutur sjávarafla í efnahagskerfi okkar. Heldur hæstv. forsrh. að staðan hjá Norðmönnum væri svona góð ef að þeir afhentu auðlindina á silfurfati til nokkurra olíugreifa? Hefur hann hugleitt að við gætum verið í allt annarri stöðu ef svo væri ekki gert hér? Hæstv. utanrrh. hneykslaðist áðan á því að gróði í sjávarútvegi væri orðinn vandamál. Er hægt annað en að hneykslast á því að gróðinn af helstu auðlind landsmanna, auðlindinni sem þjóðin á, fer til örfárra útgerða sem nota hann annars vegar til offjárfestingar með skammtímasjónarmið í huga og hins vegar til kvótabrasks sem m.a. dregur verulega úr tekjum sjómanna og skatttekjum ríkisins? Ég vil í þessu sambandi geta þess að á mjög merkilegum fundi í Keflavík núna á laugardaginn var því haldið fram að núverandi fiskveiðistjórnunarstefnu verði síðar minnst sem svartasta tímabili í atvinnusögu þjóðarinnar. Nei, til að efnahagsbatinn skili sér á réttlátan hátt þarf að jafna launakjörin í landinu, stytta vinnutímann, útrýma launamisrétti kynjanna, styrkja stöðu þeirra sem verst eru settir. Síðan verður að efla menntun í landinu til þess að börnin og unga kynslóðin fái notið þess sem að framtíðin ber í skauti sér. Hér eru uppgangstímar og þá er vonlaus stefna að draga úr útgjöldum til menntamála. Síðast en ekki síst þarf að tryggja að tekjur af aðalauðlind þjóðarinnar skili sér til þjóðarinnar í heild á sem réttlátastan hátt. Það verður ekki reyndin í tíð þessarar ríkisstjórnar, að óbreyttri stefnu í sjávarútvegs-, kjara-, mennta- og velferðarmálum.