Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:44:04 (108)

1996-10-08 15:44:04# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra að samkomulag sé í höfn um húsaleigubæturnar um að fresta málinu í eitt ár og ég vona svo sannarlega að það takist að tryggja framtíð þessa úrræðis áður en farið er út í að breyta lögunum.

Hvað varðar kaupmáttinn geri ég mér fyllilega grein fyrir því að þarna er um að ræða opinberar tölur og engar sérstakar fullyrðingar frá ríkisstjórnarinnar hálfu. En það er nú einu sinni svo að stór hluti þjóðarinnar hefur það skítt og bíður eftir stórlega auknum kaupmætti. Sama þótt hann hafi aukist samkvæmt opinberum upplýsingum á undanförnum mánuðum eða árum þá vantar fólk peninga. Þá er ég að tala fyrst og fremst um þá lægst launuðu. Við vitum það. Ég held að það mæli enginn á móti því.

[15:45]

Varðandi lífeyristryggingar og laun þá sé ég það sem hæstv. ráðherra bendir hér á að þarna er um áætlun að ræða, þessi 3,5%. En er þá ekki samkvæmt því um áætlaða skerðingu að ræða hvað varðar bótaþegana upp á 1,5% miðað við það sem þeir hefðu fengið ef þeir hefðu fylgt almennri launaþróun? Er það ekki rétt skilið hjá mér? Það er þetta fyrst og fremst sem ég vildi fá svar við.

Að lokum. Þetta skapar skilyrði fyrir atvinnulífið. Það er vissulega rétt. Það þarf að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið til þess að hægt sé að hækka launin. En nú virðist sem ýmislegt hafi verið gert til þess að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið og ég þarf ekki að fara að rifja það upp. Það er ýmislegt í formi skattalagabreytinga og annars sem hefur verið gert til þess að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið og nú eru fyrirtæki farin að sýna hagnað. En enn er stigið ofan á launafólkið með einhverjar verulegar hækkanir og sú lína kemur frá ríkisstjórninni eða frá stjórnvöldum. Hún kemur að því leyti til að á meðan stjórnvöld segja: Það er svigrúm fyrir x% launahækkun, þá munu kjarasamningaviðræður mótast að miklu leyti út frá þessari yfirlýsingu. Og þó að það sé ekki hæstv. ríkisstjórn alfarið sem ráði því hvernig þessi tala er fengin, þá hefur þessi tala að sjálfsögðu heilmikið að segja í komandi kjarasamningum. En spurningin var bara sú: Hvenær telur hæstv. ráðherra að skilyrðin hafi skapast fyrir atvinnulífið?