Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:43:46 (153)

1996-10-08 22:43:46# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér fannst hv. 13. þm. Reykv. halda nokkuð undarlega ræðu. Hún byrjaði skynsamlega og viðurkenndi í upphafi að það væri jákvætt að reka ríkissjóð hallalaust en síðan venti hv. þm. heldur fokkunni. Hefði hv. þm. ráðið gjaldahlið þessa fjárlagafrv. þá er ég hræddur um að það væri ekki frv. í jafnvægi. Það var bókstaflega sama hvar hún drap niður það var hvergi eytt nógu miklu.

Ég lít ekki á að þessi fjárlög séu nein niðurskurðarfjárlög og það voru fjárlögin í fyrra ekki heldur. En þetta eru aðhaldssöm fjárlög.

Félmrn. er með svipaðar fjárhæðir og á fjárlögum þessa árs. Þetta á ekki við um einn geirann, þ.e. það á ekki við um málefni fatlaðra. Til málefna fatlaðra fara á næsta ári á milli 90 og 100 millj. kr. meira heldur en á árinu sem er að líða. Það er sannarlega ekki af okkar hálfu ráðist á öryrkja eða fatlaða. Þar er ekki um neinar skerðingar að ræða. Talan á Framkvæmdasjóði fatlaðra er lægri heldur en á fjárlögum ársins í ár. Það er rétt athugað hjá hv. þm. en hlutirnir eru bara nefndir sínum réttu nöfnum. Þessar 165 millj. fara allar til framkvæmda. Rekstrarþátturinn er tekinn út sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið látinn bera. Varðandi erfðafjárskattinn --- þó einu sinni hafi ekki veitt af öllum erfðafjárskattinum í Framkvæmdasjóð fatlaðra þá þarf það ekki að vera svo um aldur og ævi og erfðafjárskatturinn gefur meira ár frá ári. Það er alls ekki um það að ræða að það sé einhver stöðnun í málefnum fatlaðra.

Varðandi Byggingarsjóð verkamanna, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, er auðvitað deginum ljósara að áður en langt um líður þarf að grípa til einhverra ráðstafana gagnvart Byggingarsjóði verkamanna. Hv. þm. lét eftir sig stórgallað húsnæðiskerfi, þó sérstaklega félagslega kerfið. Það var auðvitað sýnt strax í hennar ráðherratíð að Byggingarsjóður verkamanna mundi lenda í erfiðleikum þegar húsaleigubæturnar voru greiddar á kostnað Byggingarsjóðs verkamanna. Hv. þm. var í ráðherratíð sinni búinn að gera félagslega kerfið að vandræðakerfi, ekki kerfi fyrir tekjulítið fólk. Það er orðið óvinsælt, því miður. Ég tel að við þurfum að sinna félagslegum húsnæðismálum miklu betur en hefur verið gert á undanförnum árum og hef í huga að beita mér fyrir breytingum á því þannig að það nýtist þeim sem það á að hjálpa. Það er stórminnkuð ásókn núna í félagslega kerfið. Það er nú einn þátturinn í því að til þess er varið minna fé í ár heldur en hefur verið stundum áður. Þegar lán til kaupa á fyrstu íbúð voru hækkuð úr 65% í 70% þá stórminnkaði ásóknin í félagslega kerfið. Í ár var úthlutað 230 íbúðum, ef ég man rétt, í félagslega kerfinu en nú í september var einungis byrjað á eitthvað í kringum 100 íbúðum. Mér finnst að staða Byggingarsjóðs verkamanna sé ekki verulegt áhyggjuefni. Ég sé annað betra ráð heldur en að hækka vextina og ég sé annað betra ráð heldur en að fara að leggja honum fé á fjárlögum. Mér finnst afar einfalt að sameina bara byggingarsjóðina og ég vil vinna að því. Byggingarsjóður ríkisins er með mjög sterka efnahagsstöðu og þolir það vel að taka upp félagsskap við við Byggingarsjóð verkamanna.

[22:45]

Um Atvinnuleysistryggingasjóð er þess fyrst að geta að atvinnuleysi fer minnkandi sem betur fer. Þegar ég kom í félagsmálaráðuneytið var atvinnuleysið 7%, en nú hljóðar spáin upp á að það muni vera 3,2% í september, endanlegar tölur liggja ekki fyrir enn þá, því miður, og gera ekki fyrr en um miðjan mánuð. En (Gripið fram í: Voru það skattarnir sem ...) það er von til þess að atvinnuleysið verði ekki nema 3,2% enda verður maður áþreifanlega var við það því það vantar alls staðar vinnuafl. Líka hér í Reykjvík vantar vinnuafl í stórum stíl og þess vegna voru veitt 70 atvinnuleyfi til pólsks verkafólks á föstudaginn var af því að Íslendingar fengust ekki til starfa. Það er rétt að í þessu fjárlagafrumvarpi er lægri upphæð til Atvinnuleysistryggingasjóðs en var í fjárlögum ársins í ár en það skýrist í fyrsta lagi af minnkandi atvinnuleysi og við ættum að vera glöð yfir því. Síðan er í undirbúningi að setja lög um vinnumiðlun sem algjör samstaða er um milli aðila vinnumarkaðarins og það frv. á að hafa það í för með sér að greiðara gangi útvega fólki vinnu. Þar er hugsunin sú að hjálpa fólkinu til að finna vinnuna þar sem hana er að hafa.

Það er líka áformað að endurskoða lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð og það er ekki til að þrengja hann að einhverju marki. Það er líka rétt að geta þess að í fjárlögum 1996 var létt 250 millj. af Atvinnuleysistryggingasjóði vegna eftirlauna aldraðra. Starfsmenntun í atvinnulífinu á að vera tryggð á næsta ári þó að hún sé færð með þessum hætti í frv. og ekkert síður heldur en á þessu ári. Og atvinnumálaframlag til kvenna er að sjálfsögðu tryggt og á vísum stað en það eru sömu upphæðir og voru í fjárlögum ársins í ár.

Það er samkomulag um það að húsaleigubætur verði með óbreyttu sniði á næsta ári en það er orðið samkomulag við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin taki alfarið við húsaleigubótunum 1. janúar 1998. Við þurfum að nota tímann og endurbæta lögin um húsaleigubætur áður en sveitarfélögin taka við þeim. (Gripið fram í.) Það er atriði sem ekki er að fullu frágengið við sveitarfélögin. Ég lít svo á að sveitarfélögin eigi eðli málsins samkvæmt að hafa mikið að segja um það hvernig þessi endurskoðun fer fram og hún er hafin. Það er líka eitt atriði sem er þar til skoðunar, hvort ekki eigi að greiða húsaleigubætur út á leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga. Mér finnst sjálfum að húsaleigubæturnar hafi sannað gildi sitt og þess vegna vil ég alls ekki leggja þær niður. 65% af þeim sem taka við húsaleigubótum eru undir skattleysismörkum. Ég held að við eigum að standa vörð um þær en þær eru betur komnar alfarið hjá sveitarfélögunum. Það er ekki gott samvinnuverkefni. Við munum að sjálfsögðu taka við verkefnum eða kostnaði frá sveitarfélögunum eða láta fjármuni með húsaleigubótunum þannig að sveitarfélögin bíði ekki fjárhagslegan hnekki af því að taka við húsaleigubótum.

Það er rétt að geta þess líka að það er orðið samkomulag við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um að stefna að því að sveitarfélögin taki alfarið við málefnum fatlaðra 1. janúar 1999. Lögin um málefni fatlaðra munum við endurskoða á þinginu í vetur. Málefni fatlaðra eru reyndar nú komin í reynslusveitarfélagaverkefninu til tveggja sveitarfélaga og það gefur mjög góða raun. Ég held að þessum málaflokki sé vel fyrir komið hjá sveitarfélögunum og vænti þess að þeir sem þjónustunnar eiga að njóta fái betri þjónustu fyrir ekki meira fé heldur en ef það væri á vegum ríkisins.

Hv. þm. gerði að umtalsefni vímuefnavandann og ég er alveg sammála hv. þm. um það að þar er um mikinn vanda að ræða. Hvað varðar minn málaflokk þá er rétt að geta þess að nýlega var opnuð meðferðarstöðin Stuðlar í Grafarvogi og sú stöð er tekin til starfa. Það er mjög mikilvæg stofnun og ég held að það sé mikið framfaraspor í þessu efni. Það hefur verið ákveðið að opna, væntanlega á Norðurlandi eystra, meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur á næsta ári. Það er hugsanlegt að við verðum að verja meira fé til fíkniefnamála. Það er seinni tíma verkefni en mér finnst að það geti legið í loftinu að við verðum að leysa það með einhverjum öðrum hætti. En ákvarðanir hafa ekki verið teknar. Ég hef áhuga fyrir samvinnu við sveitarfélög um að taka verulega fast á þessum fíkniefnavanda. Ég veit að Reykjavíkurborg hefur það líka, einkanlega með tilliti til grunnskóla. Það er ægilegt ef fíkniefnaneysla er orðin að verulegu vandamáli í grunnskólum borgarinnar eða í grunnskólum skulum við segja og ég tel að það dugi engin vettlingatök og það geti vel átt rétt á sér að gera einhverjar sértækar ráðstafanir í því efni.

Herra forseti. Ég hefði auðvitað getað gert við fjárlagagerðina tilögur um eitt og annað til hækkunar. Það er alltaf hægt að hugsa sér að gera meira og gera betur en ég held að þetta dugi prýðilega og félmrn. og undirstofnanir þess eigi að geta komist prýðilega af með það sem skrifað er í fjárlögin og get lýst því yfir vegna orða sem hér féllu hjá hv. 13. þm. Reykjavíkur að ég er prýðilega ánægður með hlut félmrn. í þessu fjárlagafrumvarpi og ég legg mjög ríka áherslu á að það verði afgreitt þannig að ekki verði halli á ríkissjóði á næsta ári.