Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:55:35 (228)

1996-10-10 11:55:35# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:55]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að þingmönnum sé kunnugt um þá tvo dóma sem hafa fallið vegna veðsetningar á kvóta. Það ríkir réttaróvissa í landinu núna um þessi mál. Það er að segja annar dómurinn segir að það sé heimilt og að þetta sé allt að því eignarréttur og hinn segir að það standist ekki vegna sameignarákvæðisins. Þetta er einmitt stóra spurningin núna og væntanlega fer málið fljótlega til Hæstaréttar og úr þessu verður skorið. Í mínum huga er engin spurning um að þetta er sameign þjóðarinnar ef það er það sem spurt er um. (KHG: Akkúrat. Já.) En auðvitað er það dómstóla að skera úr. Ég er að segja að ákveðin mótsögn er innbyggð í kerfið og við verðum bara að sjá hvað dómstólar gera við þá mótsögn. En ég er þeirrar skoðunar eðlilega að sameignarákvæðið eigi að vera ofan á.