Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:22:58 (244)

1996-10-10 14:22:58# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:22]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvenær Alþingi hefur umræðu um úthafsveiðisáttmálann er það svo að forseti þingsins tekur ákvörðun um það hvenær fram lögð mál eru tekin á dagskrá. Ég veit ekki (Gripið fram í.) hvenær það verður gert og forseti þingsins hefur það í sinni hendi. Það kemur svo í hlut flutningsmanns af hálfu ríkisstjórnarinnar sem er hæstv. utanrrh. að mæla fyrir því máli. Hann hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt málið fram og það kemur í hans hlut að mæla fyrir því.

Ég sé ekki ástæðu til þess vegna þess sem um var spurt að samþykkja úthafsveiðisáttmálann fyrst og vísa þá til þeirra röksemda sem ég kom með áðan, að meginatriði frv. sem við erum að fjalla um, lúta að brýnum hagsmunum sem ekki snerta úthafsveiðisáttmálann og kalla á að löggjöf komi sem allra fyrst. Æskilegt væri að geta afgreitt þessi mál samhliða, en það er miklu brýnna að ljúka umfjöllun og samþykkt þessa frv.