Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:24:36 (266)

1996-10-14 15:24:36# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:24]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það er kannski ekki tímabært að kveða upp endanlega dóma í þessu máli. En það hefur verið kveðinn upp dómur yfir fólki. Það hefur verið kveðinn upp dómur yfir fólkinu í Arnarholti. Það hefur verið kveðinn upp dómur yfir þeim sem þurfa að skipta við augnlækningadeildina á Landakoti. Þessi dómsniðurstaða birtist í öryggisleysi og löngum biðlistum, lengri en nokkru sinni fyrr á augnlækningadeildinni á Landakoti og er þá langt til jafnað. Það alvarlega, hæstv. forseti, við þessa umræðu er það að hún er ekki ný, hún er gömul. Það er aftur og aftur verið að kveðja sér hljóðs hér utan dagskrár um þessi mál. Það hefur gerst hvað eftir annað á undanförnum missirum. Það blasir við eftir viðbrögð hæstv. ráðherra hér áðan að þessi umræða mun halda áfram af því að ekki er skilningur á veruleikanum eins og hann er í heilbrrn. Heilbrrn. vísar vandanum á bug og neitar að horfast í augu við hann eins og hann er. Hann er sá að það vantar mörg hundruð milljónir kr. til að reka sjúkrahúsin í Reykjavík á næsta ári miðað við fjárlagaforsendurnar eins og þær liggja fyrir núna. Það er ætlun ráðherrans að halda áfram þessari óvissu, sem bitnar á sjúklingum og rekstraraðilum sjúkrahúsanna, fram eftir öllu næsta ári og kannski tekst þegar kemur fram í ágústmánuð að fá fjmrn. til að samþykkja aukafjárveitingar upp á 500 millj. kr. aftur. (Gripið fram í: Hvað ætlar Reykjavíkurborg að gera?) Það er veruleikinn sem liggur fyrir. Og þetta frammíkall er dæmigert fyrir stöðuna. Hráskinnaleikinn sem heilbrrn. og ríkisstjórnin er að koma upp í þessu máli. Stilla aðilum upp við vegg í staðinn fyrir að horfast í augu við þá staðreynd að samkvæmt lögum er það heilbrrh. sem ber ábyrgð á allri forgangsröðun verkefna í heilbrigðismálum, þar á meðal hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík.