Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:58:14 (277)

1996-10-14 15:58:14# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:58]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt hjá hv. þm. að þetta muni ekki leiða til sparnaðar þegar upp er staðið. Ég tel að það muni gera það og leiða til hagkvæmari heilbrigðisþjónustu fyrir þegna landsins. Endanlega snýst dæmið náttúrlega um pólitík. Þetta snýst um það hvernig við ætlum að fjármagna samneysluna á Íslandi. Sumir vilja gera sjúklinga að sérstökum skattstofni. Ég gat um það í ræðu minni fyrr við þessa umræðu að á síðustu árum hefði í síauknum mæli verið leitað ofan í vasa sjúklinga, t.d. ellilífeyrisþega varðandi tannlæknakostnaðinn. Fjármunir hafa verið teknir af öryrkjum og kostnaðarþátttaka sjúklinga á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar hefur verið aukin verulega. Við erum að mótmæla þessari stefnu. Við minnum á að á sama tíma og þessi þróun hefur hátt sér stað hefur skattbyrði verið létt af þeim sem eru aflögufærir. Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður verulega t.d. Í vor var samþykkt frv. sem gerir ráð fyrir því að létta skattbyrði af t.d. arðgreiðslum um verulegar upphæðir þannig að endanlega snýst þetta dæmi um pólitík. Við erum að hafna því í þingflokki Alþb. og óháðra að gera sjúklinga og sérstaklega fátækt fók að skattstofni.