1996-10-15 13:59:23# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:59]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þegar þessi samningur var á undirbúningsstigi átti ég kost á því að fjalla um hann í hv. utanrmn. í forföllum nefndarmanns Alþb. þar fyrir fáeinum missirum. Þá kom það fram af okkar hálfu og hefur reyndar áður komið fram að við teljum að hér sé um mikilvægan samning að ræða og mikilvæga vinnu. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að lýsa því yfir að ég tel að það sé mikilvægt að þessi mál séu komin hér inn og ég tel almennt séð að samningurinn sé skynsamlegur frá sjónarmiði Íslendinga sem eiga allt undir því að málum sé skipað eins og kostur er með samningum á hinum alþjóðlegu hafsvæðum. Ég held að þó að okkur hafi sæmilega tekist að tryggja okkar hlut með úthafsveiðum að undanförnu og menn hafi staðið sig þar mjög vel og margir myndarlega, þá skipti hitt miklu máli að samningurinn sé til staðar. Þess vegna tel ég ástæðu til að koma og fagna því að málið sé komið hér til meðferðar.

[14:00]

Ég vil hins vegar segja varðandi málflutning hv. síðasta ræðumanns að mér finnst út af fyrir sig full ástæða til þess að vanda upplýsingar sem fram koma í greinargerð tillagna af því tagi sem hér er um að ræða og gæti út af fyrir sig tekið undir það með henni að það hefði verið betra ef inngangskaflinn í greinargerðinni hefði verið nokkru ítarlegri. T.d. hefði mátt hugsa sér það að verulegur hluti af niðurstöðum FAO-skýrslunnar hefði verið birtur. Það er niðurstöðuhluti sem er þekktur en hefði verið gott að hafa í þingskjali og er alla vega nauðsynlegt að draga fram mjög rækilega við meðferð málsins í hv. utanrmn.

Ég vil hins vegar í þriðja lagi, hæstv. forseti, vekja athygli á því að í þessum samningi eru í raun og veru byltingarkennd nýmæli sem snerta yfirstjórn þessa málaflokks og koma fram í fjórða meginþættinum, þ.e. í þeim hluta samningsins sem birtist í V. og VI. hluta hans um eftirlit og framkvæmdarvald. Þar er um að ræða mjög veruleg, pólitísk tíðindi. En um það er fjallað í greinargerðinni og bent á að þeirri meginreglu þjóðaréttarins er fylgt að eftirlit með því að fiskiskip virði verndunar- og stjórnunarreglur á úthafinu og framfylgd þeirra sé fyrst og fremst í höndum fánaríkis, þ.e. þess ríkis sem skip er skráð í.

Ekki er þó látið við eftirlit og framfylgd af hálfu fánaríkjanna einna sitja, eins og það er orðað í greinargerðinni. Strandríkin lögðu áherslu á það á úthafsveiðiráðstefnunni að misbrestur gæti orðið á því að fánaríki sinntu skyldum sínum í þessum efnum eins og dæmin sýndu, bæði vegna skorts á getu og vilja. Því væri nauðsynlegt að veita öðrum ríkjum heimildir að þessu leyti. Úthafsveiðisamningurinn yrði marklaust plagg ella.

Þá kemur að þessari mikilvægu grein í samningnum sem að mörgu leyti er mikilvægasta greinin því að um hana snýst allur samningurinn. Það má segja að þessi grein sé öxull samningsins. ,,Í 21. gr. samningsins er mjög komið til móts við þessi sjónarmið strandríkjanna`` segir í greinargerðinni. ,,Þar er gert ráð fyrir að öll aðildarríki samningsins sem eru aðilar að svæðisstofnun hafi rétt til að hafa eftirlit með fiskiskipum annarra aðildarríkja samningsins á því úthafssvæði sem stofnunin nær til og jafnframt til að fara með framkvæmdarvaldið gagnvart þeim sinni fánaríkið ekki skyldu sinni í því efni. Þannig gæti t.d. strandríki gripið í taumana og stöðvað ólöglegar veiðar skips á úthafinu ef fánaríkið léti undir höfuð leggjast að gera það.``

Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt grundvallaratriði og ég held að það sé nauðsynlegt að vekja athygli þessarar stofnunar sérstaklega á því að hér er um það að ræða að komið er upp sameiginlegu alheimsframkvæmdarvaldi að því er þessa þætti varðar. Það hefur ekki verið mikið um það áður að menn hafi komið upp slíku sameiginlegu framkvæmdarvaldi þegar um það er að ræða að viðkomandi ríki lætur undir höfuð leggjast að framkvæma ákvæði viðkomandi samnings. Þetta er gríðarlega stórt atriði og ég er sannfærður um að þetta atriði mun ekki aðeins hafa áhrif í sjávarútvegsmálum, þ.e. ekki aðeins á hafinu, heldur einnig að því er varðar umhverfismál og skipan þeirra á heimsvísu. Og það er alveg öruggt mál að á næstu árum og áratugum munu koma hingað inn tillögur og hugmyndir um að það verði til framkvæmdarvald af einhverju tagi á heimsvísu til að skakka leikinn ef ríki virða ekki það sem samið er um í alþjóðasamningum í umhverfismálum eða öðrum þáttum sem hnötturinn eða heimurinn allur eiga sameiginlega.

Þetta kemur þá kannski enn að spurningu sem hefur mjög oft verið rædd í þessari stofnun: Kemur það til greina að ríki eins og Ísland samþykki það að láta einhvern hluta af sínu framkvæmdarvaldi þar með í hendurnar á öðrum? Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég tel að slíkt geti komið til greina, enda sé um það að ræða að menn séu að varðveita hagsmuni sem mér liggur við að segja að mannkynið allt tekur þátt og vill taka þátt í að varðveita. Ég tel sem sagt að á því sé grundvallarmunur hvort menn eru að fjalla um það í þessu samhengi að afhenda svæðissamtökum eins og Evrópusambandinu tiltekið vald og tiltekinn rétt í þessu efni eða hvort um er að ræða alþjóðaheimssamninga eins og þann sem við erum að leggja drög að. Þetta tel ég mjög mikilvægt atriði, hæstv. forseti, og ég vildi draga það hér fram til að það væri alla vega ljóst í þessari stofnun að það hefði verið tekið eftir því að þessi tíðindi eru hér á ferðinni.