Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:32:38 (347)

1996-10-15 16:32:38# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:32]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. og framsögumaður þessarar tillögu er ekki sammála mér í því að tillagan sé óútfærð og þar liggur okkar skoðanamunur og það er bara eðlilegt mál. Hann telur að þetta sé útfærð tillaga þar sem þetta sé pólitísk stefnumótun, ef ég skil hann rétt. Ég get út af fyrir sig fallist á það. En ég hefði nú kosið til þess að hægt væri að ræða svona mál að þá hefði verið sérstök tillaga um það hvernig ætti að framkvæma þetta. Það skiptir verulegu máli hvaða hugmyndir menn hafa í því, í umræðunni um svona tillögu, þannig að það er akkúrat það sem ég á við, hv. þm. Ég get fallist á að þetta er útfærð tillaga hvað varðar pólitíska stefnumótun. En það sem ég er að benda á er að ekki er útfært í tillögunni sjálfri hvernig mætti gera þetta heldur er það í sjö liðum í greinargerð. Það er þetta sem ég átti við.