Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:33:52 (402)

1996-10-17 11:33:52# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst margt athyglisvert í ræðu hv. fjmrh. Þó fannst mér hann vera ánægður um of með árangur ríkisstjórnar sem hann hefur verið fjmrh. í frá árinu 1991 þegar hann fór að nefna það ár og bera saman tölur frá þeim tíma og nú til sannindamerkis um mikinn árangur í ríkisfjármálum. Ég nefni tölur sem liggja fyrir í töflu, sem fram koma í þskj. sem hæstv. fjmrh. lagði sjálfur fram og mælti fyrir hér áðan, sem segja okkur hvernig staða ríkisfjármála hefur breyst frá þeim tíma er hann tók við þeim málaflokki 1. maí 1991. Hann var fjmrh. í átta mánuði af tólf á árinu 1991 sem hann tók sem viðmiðun. Í árslok 1990, sem er aðeins fjórum mánuðum áður en hæstv. fjmrh. tók við embætti, voru hreinar skuldir hins opinbera liðlega 70 milljarðar kr. Nú er spáð að í árslok 1996 verði þær um 178 milljarðar kr. eða hafi hækkað um 108 milljarða kr. í fjármálaráðherratíð hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar. Mælt sem hreinar skuldir af vergri landsframleiðslu, sem við skulum líka nefna svo öllu sé haldið til haga, hefur skuldatalan hækkað úr 19,4% í 35,9% eða nálega tvöfaldast. Skuldir hins opinbera hafa því nálega tvöfaldast á þessu tímabili og það eru fyrst og fremst skuldir ríkissjóðs sem hafa hækkað svona mikið á þessu tímabili. Ég ætla ekki að kenna hæstv. fjmrh. um þetta allt, að þetta sé allt á hans ábyrgð, en þetta er þróun sem hefur orðið og það er engan veginn hægt að halda því fram að þetta sé góður árangur.